Kristin Dýrfjörð

Bandamenn leikskólans – foreldrar

 

Sigga Vala tók myndina

Traust elur af sér traust. Foreldrar sem eru virkir í samstarfi við leikskólann þekkja betur bæði starfshætti og það fólk sem þar starfar. Þeir eiga auðveldara með að nálgast leikskólakennara ef t.d. eitthvað kemur upp á og öfugt.

Leikskólinn er í lífi flestra barna fyrsti staðurinn sem þau taka sjálf virkan þátt í hinu formlega samfélagi. Í leikskóla læra börn að vera á eigin forsendum, þau eignast vini og félaga, þau mynda tengsl við börn og fullorðið fólk ótengdu sér. Þau læra hin ýmsu gildi og norm sem eru í samfélaginu.

Traust er lykill að farsælu samstarfi

Þegar foreldrar treysta leikskóla fyrir barni skiptir miklu að þeir séu öruggir með leikskólann – að á milli þeirra og leikskólakennaranna ríki raunverulegt traust. Ein leið til að tryggja það, er að foreldrar séu vel inn í því sem fram fer í leikskólanum, þekki starfið og starfsfólkið. Þeir séu þátttakendur í gagnvirku samstarfi milli heimila og leikskóla. Við segjum stundum að ef foreldrar eru öruggir um leikskólann skili það sér til barna þeirra; börnin verði líka öruggari. Traust elur af sér traust. Foreldrar sem eru virkir í samstarfi við leikskólann þekkja betur bæði starfshætti og það fólk sem þar starfar. Þeir eiga auðveldara með að nálgast leikskólakennara ef t.d. eitthvað kemur upp á og öfugt.

Frumkvæði að foreldrasamstarfi hlýtur hinsvegar alltaf að vera hjá leikskólanum. Það er á ábyrgð leikskólakennara að skapa þannig aðstæður að raunveruleg samvinna á jafningjagrunni geti átt sér stað. Leikskólakennarar eru sérfræðingar í leikskólauppeldi en foreldrar eru þeir sem þekkja eigið barn best. Sameiginlegir hagsmunir beggja liggja í því að gera leikskólann að góðum stað, þar sem börn eflast og dafna, eignast vini og ná að þroska eigindir sínar sem manneskjur.

Að skapa vettvang til samræðu

Til að slíkt samstarf verði farsælt þarf lýðræðislegan vettvang til samræðu um það sem máli skiptir í lífi barna. Vettvangur til að ræða þær áherslur sem foreldrar vilja og þær áherslur sem leikskólinn setur í forgang. Sumir eru færari í þessu samstarfi en aðrir og stundum er gott að líta til þeirra sem hafa náð árangri og mótað kerfi sem virkar.

Eitt af því sem ég hef lengi dáðst að í leikskólunum í Reggio Emilia er færni þeirra í að fá foreldra í lið með sér, að fá foreldra sem raunverulega þátttakendur og bandamenn leikskólastarfsins. Þann 7. og 8. mars n.k. verður ráðstefna hérlendis í húsnæði Menntavísindasviðs, þar sem fyrirlesarar frá Reggio Emilia ætla einmitt að fjalla um er hvernig hægt sé að byggja upp lýðræðislegt samstarf við foreldra. Í Reggio hef ég séð foreldra mæta til að ræða fram og til baka nám barna sinna og verkefni sem leikskólinn er að fást við hverju sinni, um málefni innflytjenda, um samstarf við menningarstofnanir, um vináttu og fleira og fleira. Um atriði sem leikskólakennurum og samfélaginu finnast mikilvægt að sé fjallað um á einn eða annan hátt.

Á ráðstefnunni gefst leikskólafólki, foreldrum, pólitíkusum og fólki tengdu hinum ýmsu félagasamtökum, sem láta sig málefni barna varða, gullið tækifæri til að fræðast. Ég veit að fólki á Íslandi er jafn annt um börnin sín og fólkinu í Reggio og ég held að flest grípum við fegins hendi tækifæri til að læra af öðrum það sem vel er gert.

Tengill á dagskrá

Kristín Dýrfjörð, dósent við Háskólann á Akureyri

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar