Kristin Dýrfjörð

Boðskapur Bínu

Hluti af tilvísunarramma leikskólans  eru þær barnabækurnar sem þar eru lesnar. Þær hafa sjálfstætt gildi á margan hátt. Í fóstrunámi mínu voru nokkrir áfangar um barnabækur og gildi þeirra fyrir börnin og uppeldisstarfið. Hluti af náminu var að greina barnabækur og skoða frá mismunandi sjónarmiðum; er þeim ætlað að vera upplýsandi, skemmtandi? Eru þær yfirfullar af boðskap er í þeim spenna, húmor og svo framvegis?  Í gegn um tíðina hefur viðhorf um nauðsyn vandaðra bóka fyrir börn fylgt mér eins og skugginn.  Síðastliðin ár hef ég endurnýjað kynni mín af barnabókum, ég hef velt fyrir mér hvaða boðskap þær bera, hvers konar ímynd er dregin upp af kynjunum, hvað með hlutverk barna og hlutverk fullorðinna í bókunum? Er fantasíunni gefinn laus taumur, eru bækurnar ríkar í myndmáli og tungumáli og svo framvegis?

Bína bálreiða lærði að stjórna reiði sinni og fór í leikskóla

Fyrir nokkrum árum flutti ég fyrirlestur um kynjamyndir í barnabókum þegar ég vann að honum skoðaði ég meðal annars þá nýlega og mér tjáð afar vinsæla barnabók, Bína fer í leikskóla eftir Ásthildi Snorradóttur. Bókin er hluti af bókarflokki um Bínu og veröld hennar. Eftir sem árin líða hefur mér verið æ oftar hugsað til þessara bóka og fyrir hvað þær standa. Ég hef m.a. velt fyrir mér hvaða boðskap ætlunin er að koma á framfæri.

Óhemjur

Frá fyrstu stundu hef ég tengt bókarflokkinn um Bínu við aðra frægar „óhemjur“ eins og Tótu tætibusku og  Lötu stelpuna. Stelpur sem þorðu að vera öðruvísi en var steypt inn í staðlaða mynd af fyrirmyndabarninu.  Bína fellur líka vel að staðalmyndum um óhemjuna, er lítil feit og auðvitað rauðhærð með hárið út um allt. Hún kann sig ekki og er engin „dama“ í samskiptum. Bækurnar ganga svo allar út á að sína fram á hvernig Bína á að vera og gera. Hvað þurfa litlar stúlkur að kunna til að byrja í leikskóla? (Reyndar vissi ég ekki að hugtakið leikskólafærni væri til fyrir en ég skynjaði það í Bínubókunum). Litlar stúlkur þurfa að læra að sjást en ekki heyrast. Sitja og þegja og alls ekki vera á iði, en ef þeim verður það á að garga, rífa og henda  – þá mætir bjargvætturinn (leikskólakennarinn) og leiðréttir ljúflega „hræðilega“ hegðun þeirra. Myndin sem er  dregin upp af leikskólakennaranum er reyndar heil stúdía út af fyrir sig. En verst finnst mér að hún byggir á úreldum hugmyndum um starf leikskólakennara. Sem eftirlitsaðila og löggu i samskiptum. Sem þess sem segir og brýnir en leiðir ekki uppgötvunarnám barna.

Vinir mínir Breki og Dreki

Í vetur rakst ég á  barnabók eftir finnska höfunda, sem fjallaði um sömu reynslu og Bínubækurnar það er að vera barn í leikskóla.  Bókin heitir Breki  og Dreki í leikskóla og er eftir Aino Havukainen og Sami Toivonen.  Hún er full af húmor, fjölbreyttir reynslu og  sýnir  börn sem trúa á eigin getu og leikskólakennara sem stuðla að þeirri trú. Í framhaldið velti ég fyrir mér mismunandi nálgun höfunda að umfjöllun um leikskólann og í leiðinni mismunandi sýn þeirra til barna og leikskóla.

Að vinna með bækur

Barnabækur eru hluti af tilvísunarramma leikskólans og það er leikskólakennara að velja og vinna með þær bækur sem þeir telja góðar. Það er enginn að segja að Bínu bækurnar geti ekki verið hluti af þeim tilvísunarramma. En ég velti fyrir mér hvort þær þurfi ekki að lesast með gagnrýnum augum og velta upp með börnunum gagnrýnum spurningum að lestri loknum. Eru t.d. þeirra leikskólakennarar eins og þeir sem birtast í bókunum um Bínu? Ef ég meiði einhvern er þá nóg að segja fyrirgefðu og allt er gott? Þurfa börn að borða allan mat? Af hverju eiga börnin að hafa hendur og fætur hjá sér? Gætu verið dæmi um spurningar sem hægt er að vinna með.

Tags: , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar