Kristin Dýrfjörð

Frjáls leikur – hvað er það?

Sturla að leika skipstjóra á geimskipi í Öskjuhlið haustið 2011.

Sturla að leika skipstjóra á geimskipi í Öskjuhlið haustið 2011.

Nýlega hef ég tekið þátt í samræðum um skilning leikskólakennara á leik barna. Ég hef t.d. komist að því að fólk leggur oft annan skilning í hugtakið leik en leikskólakennarar gera.  Á meðal þess eru mörkin á milli tegunda leiks. Sem dæmi þegar tvö börn sitja og spila lúdó eða veiðimann telja fæstir leikskólakennarar að börnin séu í frjálsum leik. En það er sú tegund leiks sem leikskólakennurum finnst eftirsóknarverður, það er leikurinn sem býður upp á flæði og þess að sjá bæði barnið skapa og gleyma sér í leiknum. Til að leikur teljist uppfylla skilyrði um frjálsan leik þarf hann að vera sjálfsprottinn, hann verður að vera skapandi. Með sjálfsprottinn er átti við að börnin ákvaða sjálf að leika og hvað þau leika, þau semja reglur sjálf. Að vera skapandi merkir að börnin ákveða hvernig leikurinn þróast hvað gerist í þar, allar hugmyndir eru réttar og allt er mögulegt. Ég get verið mamman, pabbinn, stóll eða geimfari. Það er þess vegna sem við skilgreinum ekki lúdó með frjálsum leik, en lúdó getur að sjálfsögðu orðið hluti af leik ef t.d. persónur í leiknum ákveða að spila lúdó.

Rætur frjálsa leiksins

Rætur frjáls leiksins er þegar ung börn geta tímunum saman rannsakað og dundað við sama viðfangsefnið. Þegar börn fara að sækja í að leika með öðrum börnum. Frjáls leikur á sér stað alla ævi – ef við gefum honum tækifæri og vilji til að leika sér er til staðar. En í leikskólum er talið að aldurinn 3- 6  sé gullskeið. Það er þegar börnin verða höfðinu hærri í leiknum, geta leikandi hluti þar sem þau kannski eru að ströggla við utan leiksins. Það er líka á þeim aldri sem leikjaskáldin verða til. Börnin sem eru hugmyndarík og leiða gjarnan leikinn. Þau sem hafa áhrif á leikþemað og stjórna hvert leikurinn leiðir.

Er skipulögð hreyfistund leikstund?

Það er líka þess vegna sem við teljum ekki að þegar börn eru t.d. í skipulögðum hreyfitíma að þau séu að leika sér – en við getum gert hreyfitímann að leik – í fæstum tilfellum þó að frjálsum leik. Fullorðnir geta vel orðið hluti af frjálsum leik – ef þeir gæta þess að fylgja hugarheimi og sköpun barnanna – ef þeir hins vegar ætla að taka yfir og „láta“ leikinn snúast um falin markmið fellur leikurinn ekki undir skilgreiningar á frjálsum leik. Vegna þess hafa sumir reynt að setja fram og skilgreina ný hugtök fyrir leikinn. Meðal þess er t.d. menntandi leikur.

Leikurinn sem námsleið

Leikskólakennarar segja iðulega að leikurinn sé námsleið barna. En ef leikurinn er svona heilagur og jafnvel viðkvæmur eins og ég er búin að lýsa hvernig förum við þá að því að virkja leikinn sem námsleið?  Með ýmsum kveikjum og efnivið í umhverfi barna er hægt að ýta undir tiltekna leiki og viðfangsefni.  Þá heldur leikurinn þessari frjálsu umgjörð en samtímis er honum beint að ákveðnum viðfagsefnum sem verða að sjálfsögðu að höfða til barna. Leikskólakennarar geta líka orðið hluti af leik barnanna, verið þátttakendur á ýmsan hátt. En þá verða þeir að gæta þess að tímasetja innkomu sína og að taka ekki yfir leik barnanna. Ef þeir t.d. koma með spurningar þá verður að gæta þess að þær verði til þróunar en ekki til þess að gelda leikinn og draga úr hugmyndaauðgi barnanna.

Hlusta á börn

Til að vita hvaða kveikjur virka þarf að hlusta á börnin. Fylgja þeim eftir í samræðum og í leik. Sem dæmi fjallaði ég um leik drengs sem veðurfréttamanns. Sá leikur er reyndar ekki samleikur barna heldur leikur barns í heimahúsi en hann getur samt gefið tilefni til að pæla í næstu skrefum. Er hægt að þróa þann leik og hugmyndir sem þar kom fram lengra? það er hægt að velta fyrir sér hvort að börn geti fest sig í leik, og hvernig er hægt að ýta undir að þróun eigi sér stað.

Í nýlegri norskri rannsókn er fjallað um leik í stofnanaumhverfi, þar kemur fram að börn finna sér alltaf leið til að leika – og þau finna leið til að leika utan sjónsviðs og án afskipta hinna fullorðnu. Þau hafa nefnilega þörf fyrir að eiga sitt einkalíf í leik og leika á eigin forsendum. Prófa sig áfram og læra að treysta á sig og vini sína.

sullumall

Frjáls leikur á forsendum barnanna.

 

Tags: , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar