Kristin Dýrfjörð

Hjarta – hugur – hönd sjálfbærni í verki.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Sjálfbærni – brú á milli fortíðar og framtíðar

Í einu þeirra námskeiða sem ég kenni um þessar mundir er viðfangsefnið sjálfbærni. Sjálfbærni er hugtak sem hefur verið á ferðinni um íslenskt samfélag í nokkurn tíma en hefur nú náð að festa rætur. Í upphafi rugluðu margir því við sjálfsþurft (búskap t.d.) nú er skilningur almennings vonandi meiri og betri. Sjálfsagt er það samt svo um þetta hugtak eins og mörg önnur að það á eftir að mótast með okkur og skilgreiningar á bak við það að taka breytingum. Má t.d. nefna frá því að hugtakið kom fram á ensku Brundtlandsskýrslunni hefur skilgreining á því breyst – víkkað út. Í upphafi var hún fyrst og fremst umhverfisleg en síðar hefur hún bæði orðið hagræn og félagsleg.

Í námskeiðinu sem ég kenni um sjálfbærni er að sjálfsögðu fjallað um ýmsa sáttmála sem við höfum undirgengist og eru kjarninn í umræðunni um sjálfbærni. En til að tengja við starfið á vettvangi valdi ég að kenna bókina, Young children and their environment, Early education for sustainability. Í henni er fjallað um sjálfbærni frá mörgum mismunandi sjónarhornum. Um skilgreiningar og þróun, um einstök verkefni, um leiðir til að innaleiða sjálfbæran hugsunarhátt í leikskólastarf, um hlutverk forystunnar, um nauðsyn þess að ástunda rannsóknir.

Von og trú á eigin getu

Í einum kaflanum sem fjallar m.a. um mikilvægi þess að allir leggi sitt af mörkum til að bæta heiminn og að hver einasti dropi holi steininn er fjallað um hvernig er hægt að stuðla að því. Þar er bent á að til að sjálfbærni verði hluti af hugsunarhætti okkar, viðhorfum og í framhaldið því hvernig gerum verði að huga þrennu. HJARTA – HUG – HÖND. Ef við náum því náum við að breyta viðhorfum og aðgerðum.  Í bókinni er mikið er lagt upp úr því að vinna með trú á eigin getu – að við getum hvert og eitt lagt okkur fram og  haft áhrif. Líka er lögð áhersla á VON – uppeldisfræði vonarinnar. Að við sem í skólum störfum verðum að efla með börnum trú á að þau geti breytt að vonin um betri framtíð sé undirstaða allra aðgerða. Vonin og hjartað  tengjast sterk – ef okkur þykir vænt um hvert annað, um umhverfi okkar, um gróðurinn, dýrin, steinana þá leitum við upplýsinga (hugur) öflum okkur þekkingar á hvernig kerfi vinna og hverju við getum breytt. Í framhaldið er grípum við til aðgerða, (hönd)  við vökvum matjurtirnar, við kaupum mat af heimaslóð, við flokkum sorpið, við göngum vel um náttúruna, við erum góð hvort við annað, við leggjum ekki hvert annað í einelti. Við ástundum lýðræðisleg vinnubrögð. Við tryggjum öllum heilsugæslu. Við lærum af og með ömmu og afa- tengjum saman kynslóðir. Við hugsum um okkar minnsta bróðir og systir einhverstaðar í fjarlægum löndum. Við skoðum hvort leikefnið sem við erum að nota er framleitt í barnaþrælkunarbúðum eða hvort að þeir sem það vinna fá sanngjörn laun (fair trade), hvort að litarefnin í fötunum okkar menga ekki aðeins vatnið heldur eyðileggi líka heilsu fólks. Við áttum okkur á að t.d. tíska og neysluhyggja samtímans eru afar ósjálfbær að kapphlaupið við lífgæðin eru ekki til þess fallin að félagslegt réttlæti og sanngirni ríki.

 

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar