Kristin Dýrfjörð

Skjálfandi grísir og áræðnir kettlingar

„það ert sko þú, … Þú ert sko stórkostlegur, það geislar af þér eins og af sjálfri sólinni.“  Svara grísirnir skjálfandi.

Ég hef verið að velta fyrir mér hvort það hvaða barnabækur eru lesnar í leikskólum og  innihald þeirra sé ekki forvitnilegt rannsóknarefni. Að greina innihald t.d. með tilliti til birtingarmynd kyns og kímni.  Hvort tveggja afar mikilvægir þættir.

Barnabækur hafa lengi fylgt leikskólum. Á allflestum þeirra er til nokkuð gott safn barnabóka sem síðan er bætt upp með heimsóknum á bókasöfn. Þar sem ég var leikskólastjóri var veglegt barnabókasafn til. Við lögðum metnað í að kaupa inn og viðhalda þeim bókum sem við áttum. Allar bækur voru  plastaðar og ef þær fóru að lýjast voru þær teknar til hliðar og gert við. Sumar þreyttar perlur voru bara skoðaðar og lesnar með starfsfólki. Lágu annars ekki frammi.  Bækur voru  mikilvægur hluti af umhverfinu.

Þema

Á leikskólanum mínum (hætti 1997) var á þessum tíma unnið eftir þemum sem ákveðin voru tvisvar til þrisvar sinnum á ári. Í kjölfarið fékk ákveðinn hópur það verkefni að fara yfir og taka saman bækur sem hentuðu þemanu, finna vísur og ljóð sem við ætluðum að leggja áherslu á í tengslum við þemað.  Þetta voru vinnubrögð sem allir voru ánægðir með.  Bækurnar voru teknar til hliðar, ljóð, þulur og söngvar sett saman möppu. Við útbjuggum ákveðið kerfi  til að syngja eftir.  Við teiknuðum myndir á karton og lagatextarnir voru skrifaðir aftan á. Settum sem markmið að á þessum og þessum tíma ætti börnin að kunna x marga texta, þulur og ljóð.

Samverustundir

Í leikskólanum voru samverustundir daglega, yfirleitt tvisvar á dag þar sem bækur voru lesnar, þulur sagðar, sungið og dagleg mál rædd.  Í leikskólanum var líka yfirleitt hlustað á sögur af geisladiskum eða af bandi í hvíldarstund barnanna eða lesnar framhaldssögur. Sögur Ole Lund Kirkegaard, Guðrúnar Helgadóttur og  Astrid Lindgren voru á þessum tíma vinsælar. Sögur í hvíldartímum voru sjaldnast vandamál en annað átti við um samverustundir, þær áttu til að verða handahófskenndar.

Ástæðan var að við starfsfólkið „rúlluðum“ á milli þessara stunda og þá gat það komið fyrir að margir voru að lesa sömu bækurnar. Og þó að börnum þyki oft og oftast gaman að hlusta á endurtekningu þá getur of mikil endurtekning verið  þreytandi. Við ræddum málin og komumst að því við yrðum að koma okkur upp kerfi.

Kerfið okkar var mjög einfalt, á þeim stað sem samverustundin fór fram var klippispjald, með áföstum blýanti og eyðublaði sem við útbjuggum.  Á eyðublaðið skráði hver þær bækur sem hann var að lesa og hver las og dagsetningu. Með þessu móti var þess krafist af öllu starfsfólki að það undirbyggi sína samverustund, að fram færi meðvitað val um það sem lesa ætti. Að happa og glappa aðferðin væri ekki í fyrirrúmi.  Auðvitað gilti áfram að börnin komu með bækur að heiman eða að óskabækur væru lesnar.

Forvitnilegt að skoða betur

Ég hef verið að velta fyrir mér barnabókum, sérstaklega úr frá kynbundnu innihaldi þeirra og líka kímni. Ég velti fyrir mér hvaða bækur er verið að lesa í leikskólum landsins og hvernig staðið er að vali á bókum, bæði þeim sem lesnar eru hverju sinni og þeim keyptar eru inn í leikskólann.

Ég hef verið að skoða margar bækur sem eru nú vinsælar á meðal leikskólabarna.  Sérstakleg hef ég velt fyrir mér þeirri mynd sem dregin er upp af kynjunum. Hver er birtingarmynd kvenna og karla, drengja og stúlkna í þessum bókum? Hverjir eru t.d. gerendur í bókunum og í hverju er gjörningar þeirra fólgnir?

 

Tags: , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar