Kristin Dýrfjörð

Vinnuaðstæður leikskólakennara

Þar sem ég hef skoðað leikskóla víða um heim veit ég að í flestu stöndum við okkur vel með okkar leikskóla. Við höfum metnaðarfullt fólk sem vinnur í kerfinu og oftast líka pólitíkusa. En þrátt fyrir það þarf ekki annað en flétta blöðum á hverju hausti og sjá að það er eitthvað ekki í lagi.

Hvað er það? Af hverju sækja leikskólakennarar meira en aðrir kennarar í Virk, af hverju virðast margir þeirra vera við að brenna út? Hvað er það í starfinu og aðstæðum sem skapar þetta?

Óbragð í munni

Ég sagði einhverstaðar að ég hefði óbragð í munninum að dreifa skýrslu OECD vegna þess að ég átta mig á hvað liggur að baki. Þeir vilja fá samræmd próf á öll leikskólabörn í OECD svona eins og PISA er. Við vitum áhrif PISA á menntakerfið okkar, við sjáum það í hvert sinn sem pólitískusar fara að ræða menntamál og sérfræðingar í tölum og prófum fara að ræða menntamál. Umræðan snýr um tækni, útfærslur, tölur í boxi og efnahagslegan ávinning en ekki um börn og ungmenni líðan þeirra og drauma. Raunar er þessi markmið OECD lítt leynd þegar skoðuð eru fylgiskjöl með skýrslunni, þar er ákall eftir samræmdum viðmiðum og svo er hinum sívínsælu heilavísindum beitt sem rök.

Lærdómur – langur vinnutími með börnum – hvað er til ráða?

En ég sá líka upplýsingar í skýrslunni sem mér fannst eiga heima á meðal leikskólakennara og annarra sem er annt um leikskólann, um langa daga og margar leikskólavikur. Þess vegna skrifaði ég um hana á heimsíðunni minni. ég vildi vekja athygli á stöðunni og pæla í hvort þarna séu kannski einhver svör við spurningunni, hvers vegna er þetta svona á hverju hausti.

Ég er ein þeirra sem hef talað fyrir daglegum undirbúningstíma. Að leikskólakennarar vinni 6 tíma á dag á deild og svo sé 2 tímar daglega ætlaðir til undirbúnings, funda, starfsþróunar og fleira. Ég held að slíkt fyrirkomulag mundi draga verulega úr álagi. En ég veit líka að það gagnast lítið ef þessi 6 tíma vinnutími með börnum er ekki virtur. Ég hef heyrt leikskólakennara kvarta undan því að fá ekki undirbúning nema eftir dúk og disk. Þegar vantar fólk, fer fólk ekki í undirbúning. Ég velti fyrir mér ef starfstíminn inn á deild er skilgreindur frá segjum frá 8-2 og frá 10 -16 þá mæti viðkomandi á deildina á þeim tíma og færi þegar tíminn er liðinn. Hvort slíkt fyrirkomulag kæmi betur út? Svo auðvitað það sem ég held að sé stóra málið ekki bara fyrir leikskólana heldur samfélagið í heild, að vinnuvikan verði stytt í áföngum í 35 tíma (já og á móti má stytta kaffitíma). Það væri sennilega það besta sem við gerðum bæði börnum og fullorðnum, byggjum til alvöru barn- og fjölskylduvænt samfélag

Starfsmannavelta – leikskólakennarar eru hryggjarstykki

Í skýrslu OECD eru talin upp atriði sem eru talin skipta máli fyrir gæði, eitt er fjöldi barna, þar stöndum við vel miðað við flestar aðrar þjóðir, hvað sem okkur finnst. Þar er talað um hópastærðir, kannski þurfum við að skoða þær, en þar er líka talað um starfsmannaveltu, kjör og vinnuaðstæður. Þar þarf að laga til hjá okkur

Í gær 21. september kom út tölusafn Hagstofunnar um leikskólann. þar kemur fram að mesta starfsmannaveltan er hjá ófaglærðu fólki og næst mest hjá þeim sem eru með aðra menntun. Áberandi minnst starfsmannavelta er á meðal leikskólakennara (sjá mynd). Þeir hafa menntað sig til starfsins og eru skuldbundnir, margir fullir eldmóð, ástríðu og elju fyrir hönd leikskólans. (Ef þeir væru það ekki væru þeir löngu farnir).

starfsmannavelta

 

Starfsmannavelta er alvarlegt mál fyrir alla, hún dregur úr þeim sem fyrir henni verða, í stað þess að byggja upp fer öll orka í að halda við og setja nýtt fólk í starf. Öll orka fer í að kenna nýju fólki grundvallaratriði og fá tækifæri gefast til að vinna að þróunarverkefnum eða bara að því að þróa starfið. Fólk er sífellt að bregðast við orðnum hlut. Í fræðum er lagt upp úr að halda í starfsfólk, þó ekki nema vegna fjárhagslegs ávinnings, það hefur nefnilega verið reiknað út að það kostar heil ósköp að setja nýtt fólk í störf, hvað þá þegar það er fjórðungur starfsfólks eins og leikskólinn býr við.

Það væri áhugavert að skoða starfsmannaveltu leikskóla út frá þeim fjölda leikskólakennara sem þar starfs, mér segir hugur að þar sem leikskólakennarar eru margir sé starfsmanaveltan hjá öllu starfsfólki minni. Ekki bara þeim sem hafa menntun heldur líka hinum. Vegna þess að það skiptir máli að hafa leikskólakennara, þeir eru hryggjastykkið í starfinu.

 Laun og vinnuaðstæður

Í OECD skýrslunni var fjallað um laun. Flestir hafa sennilega áttað sig á að tölurnar eru frá 2014 síðan hefur verið samið og launin hækkað og fyrir þá sem ekki vita þá eru byrjunarlaun leik- og grunnskólakennara upp á krónu þau sömu. Og Ísland eina Norðurlandið sem hefur náð þessari stöðu. Sem er virkilega gleðilegt og til að hafa hátt um. (Þó vissulega megi eins og alltaf gera betur, út á það gengur jú baráttan).

En laun eru ekki allt þó þau séu afar mikilvæg – sérstaklega ef þau eru ekki góð. Leikskólakennarar sem ég hef hitt og/eða hafa haft samband segja mér að þeir hafi t.d. ekki fært sig yfir í grunnskólann eða í önnur störf vegna launa, heldur vegna þess að þeir eru að sækjast eftir betri vinnusaðstæðum og jafnvel vinnutíma. Við getum flest verið sammála um að vinnuaðstæður eru ólíkar á milli skólastiga og að þar hallar  verulega á leikskólann. Ef vinnuaðstæður, vinnutími, skólaár og vinnutímaskilgreiningar yrðu færðar í átt að grunnskólanum efa ég ekki að það hefði stórkostleg áhrif. Bæði kæmu margir leikskólakennarar til baka og ekki síður með betri launum og betri vinnuaðstæðum mundi þeim fjölga verulega sem vildu sækja sér kennsluréttindi á leikskólastigi.

Hér hef ég ekki minnst á það sem að mínum dómi skiptir líka höfuðmáli, að við hugum að rýminu sem við ætlum börnum til leiks og starfa. Það þarf að byrja á að auka það verulega. Nú gildir engin reglugerð (ekki frekar en um barnafjöldann og hópastærðir), en sannarlega mætti fara að huga að einni og þá með það að markmiði að tryggja börnum mannsæamandi rými.

Þegar upp er staðið er nefnilega varla til skemmtilegra starf, þar sem hver dagur er ólíkur síðasta degi, þar sem sköpun og gleði ná oftast að ríkja.

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar