Kristin Dýrfjörð

Gluggi inn í leikskólastarf

lmyndvarpi IMG_42270105Í leikskólum landsins á sér stað metnaðarfullt starf. Margir skólar skrá starfið á ýmsa vegu, ljósmyndir eru algengar og svo hafa smámyndbönd verið að ryðja sér til rúms.  Á heimsíðum fjölda leikskóla er hægt að sjá slík myndbönd sem eru eins og gluggar inn í starfið. Gluggar sem gefa foreldrum, fjölskyldum og jafnvel þeim pólitíkusum sem áhuga hafa eilítið blik inn í daglegt starf og sérstök verkefni. Myndböndunum er ætlað að upplýsa og mennta og stundum skemmta.  Í tilefni Dags leikskólans þann 6. febrúar 2011 ákváðu félög leikskólakennara að fara af stað með litla örmyndbandasamkeppni. Hver skóli má senda inn þrjú, þriggja mínútna myndbönd. Það var gaman að sjá og upplifa afraksturinn, sjá  hluta af því frábæra starfi sem á sér stað í leikskólum landsins.

Nokkrir leikskólar eiga sínar eigin youtube síður. Meðal þeirra er leikskólinn Furugrund í Kópavogi sem gefur þar nokkuð góða mynd af starfinu, önnur síða er tengd leikskólanum Urðarhóli í Kópavogi, en Birte Harksen leikskólakennari hefur haldið úti öflugri youtube síðu sem er tileinkuð tónlistaruppeldi og lestri  í leikskólanum. Það er merkilegt að geta þess að eitt myndbandið þar hefur yfir 300 þúsund áhorf.  Leikskólinn Aðalþing í Kópavogi á líka síðu en á henni eru fá myndbönd. Alla vega Furugrund og Urðarhóll hafa líka virkar heimsíður sem að mestu virðast opnar öllum sem áhuga hafa.

Ég get þess að þær eru opnar því margir skólar hafa farið þá leið að læsa síðum sínum. Það eru margar ástæður þess að skólar velja að fara þá leið, ein þeirra er hræðsla um að efni sé notað án heimildar og e.t.v. ekki á sanngjarnan hátt. Vandinn við að loka síðum er hins vegar sá að þá gegna þær ekki því hlutverki að vera gluggi inn í leikskólastarfið og í leiðinni efla skilning fólks út á hvað það gengur. Það er þessi vandaða meðallína sem er erfið að rata.

Lengst af hefur ein öflugasta leikskólasíða landins verð síða leikskólans Iðavallar á Akureyri. Á Iðavelli hafa þau trú á opnum hugbúnaði og opnum síðum. Þau hafa meðal annars bent á að ekkert sem særir eða gerir lítið úr börnum rati á síðuna. Að virðing barna sé höfð að leiðarljósi við val á efni. Annars má benda á að flestir leikskólar á Akureyri hafa nokkuð virkar heimasíður.  Mér finnst síður allmargra Reykjavíkurskóla geldar í útliti og eiginlega bara ljótar. Þetta virðast staðlaðar síður en lítt hugað að fagurfræði eða notendaviðmóti. Margir þekkja síður Hjallastefnunnar sem fleiri leikskólar kaupa. Þær er afar snyrtilegar en hafa ekkert þróast úlitslega í mörg ár. Á þeim eru líka viðmótsgallar sem gerir það leiðigjarnt að ferðast um þær. Síður leikskólanna í Reykjanesbæ eru samhæfðar en á margan hátt frekar þægilegar, heilsusleikskólarnir kaupa augljóslega sama kerfi og Reykjanesbær.

Auðvitað verða þeir leikskólar sem hafa heimsíður, hvort sem þær eru opnar eða lokaðar, fallegar eða ljótar að gæta að virðingu barna og stafsfólks. Best er auðvitað að hver skóli móti sér eigin vinnureglur, siðareglur um netbirtingu.

Eitt sinn var ég að vinna myndband um leikskólastarf. Ég var að klippa sama fjölda brota og búa til heildstæða mynd. Ég var nokkurnveginn búin að móta útlínur handrits og leitaði svo í brotunum hvað félli að því. Oft fann ég klippur sem hentuðu efnislega, en ekki frá því sjónarhorni að gæta virðingar barna.

Ég þekki leikskólafólk sem aldrei birtir myndir eða brot þar sem börn gráta, en er allur grátur sjálfkrafa slæmur?  Bara svona pæla.  (Byggt á færslu frá 2011 af Rogg)

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar