Kristin Dýrfjörð

5. Þátttökuaðlögun

SAM_4541Þátttökuaðlögunin byggist á þeirri hugmynd að börnin og foreldrarnir séu að læra að vera í leikskólanum, nái að kynnast honum saman, en ekki á að börnin séu að venjast því að vera aðskilin foreldrum sínum. Jafnframt að tími gefist fyrir leikskólakennara að kynnast barninu sem hluta af fjölskyldu og sem hluta af stærri barnahóp. Framkvæmdin er á þá vegu að foreldrar eru með börnum sínum allan daginn í leikskólanum í þrjá daga og taka fullan þátt í starfseminni á meðan. Markmiðið er að skapa trúnað og traust á milli foreldra og starfsfólks sem sé grundvöllur fyrir áframhaldandi foreldrasamstarfi. Ef vel tekst til við upphaf leikskólagöngu og foreldrar og leikskólakennarar ná að kynnast er talið líklegt að þegar á reynir sé fólk saman í liði með hagsmuni barnanna að leiðarljósi.

Hugmyndafræðilega byggist þáttökuaðlögun frekar á heimspekilegri og félagsfræðilegri nálgun við leikskólastarf en sálfræðilegri. Má að hluta segja að hún sé afkvæmi þeirra nýju hugmynda sem hafa verið að ryðja sér til rúms innan leikskólafræðanna (Anning, Cullen and Fleer 2004; Cannella 1997; Cochran, 2011; MacNaugthon 2005; MacNaugthon og Williams; 2009; Moss; 2013; Stephen, 2012). Hún byggist á því að undirstöðuatriði, um hvernig aðlögun gengur fyrir sig, stjórnist af viðhorfum og ákveðinni leikskólasýn. Sem dæmi byggist þátttökuaðlögun m.a. á þeirri hugmynd að öruggir foreldrar smiti eigin forvitni og öryggiskennd yfir til barna sinna. Með því að foreldrar séu virkir þátttakendur í starfi leikskólans frá fyrsta degi öðlist þeir öryggi um dagsskipulagið og það sem á sér stað í leikskólanum, þeir sjái starfsfólk í verki. Foreldrar upplifi ekki að þurfa að geta sér til um væntingar og verkefni sem þeir eigi að takast á við. Á það er bent og jafnframt talinn kostur við nýja formið, að foreldrar eru líklegri til að tengjast innbyrðis. Vegna þess að þeir eru gjarnan margir saman í aðlöguninni nái þeir að kynnast hver öðrum og flestum börnunum, sem getur leitt til þess að á milli þeirra skapist kunningsskapur (Kristín Dýrfjörð, 2009).

Hvað kemur þeta nýja form

Tilurð þátttökuaðlögunar má samkvæmt Mantovani (2001) rekja til þess að leikskólakennarar í Reggio Emilia veltu fyrir sér nýjum aðferðum við aðlögun barna í kjölfar þess að þeir höfnuðu því hlutverki að vera staðgenglar mæðra – hlutverki sem þeim fannst þeir fastir í og tengist að hluta ríkjandi hugmynd um að börn yfirfæri tengsl frá móður til leikskólakennara. Þeir vildu skapa aðstæður þar sem börn og foreldrar kynntust saman nýju umhverfi og nýju fólki. Aðstæður sem styddu samtímis við nám, þekkingarleit og öryggi. Hugmyndin um leikskólakennarann sem staðgengil móður er ekki óþekkt hérlendis. Dóra Bjarnason (1988) taldi margt líkt með starfi leikskólakennara og húsmóðurstörfum og þar með hlutverki mæðra. Reyndar má telja umræðuna um litla og heimilislega leikskóla vera af sama meiði. Í Reggio Emilia hófst umræða um að aðlaga hóp barna og foreldra að leikskólanum, þar sem foreldrar og börn lærðu á leikskólann saman og uppgötvuðu bæði skipulag og námstækifæri (Mantovani, 2001). Þessi umræða rataði til Svíþjóðar þar sem margir leikskólar, sem starfa í anda Reggio Emilia, ákváðu að taka upp nýtt aðlögunarform sem hér hefur fengið nafnið þátttökuaðlögun. Í Svíþjóð hefur þróunin víða orðið sú, að tiltekinn dagur er upphafsdagur leikskólans og þann dag mæta foreldrar og börn, sem eiga að byrja á sömu deild, saman í leikskólann (Sundström, 2009). Nokkrum dögum áður er fundað með foreldrum og þeim sagt frá því sem framundan er. Foreldrar eru með börnunum í þrjá daga frá klukkan níu til þrjú. Sumir skólar fara þá leið að foreldrar mæta með börnin milli hálf tíu og hálf tólf fyrsta daginn en næsta dag allan daginn. Foreldrarnir eru inni á deild með börnum allan tímann (nema þegar þau sofa). Foreldrar sinna eigin börnum, skipta á þeim, gefa þeim að borða, leika með þeim og eru til staðar. Starfsfólkið tekur að sjálfsögðu líka þátt, skipuleggur daginn, deilir út verkefnum (og skráir). En á fjórða degi koma börnin um morguninn, kveðja foreldrana og eru svo allan daginn. (Arnesson-Eriksson, 2010; Björkman, 2003; Engdahl, 2012; Sundström, 2009) samskonar fyrirkomulag hefur líka þróast hérlendis (Kristín Dýrfjörð, 2009; 2010).

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar