Kristin Dýrfjörð

4. Hefðbundin aðlögun

dukkaHefðbundin aðlögun er aðlögun sem á sér stað yfir nokkra daga og allt að tveimur vikum hérlendis, en allt að þremur vikum í Svíþjóð (Arnesson-Eriksson, 2010; Broberg, Hagström og Broberg, 2012; Engdahl, 2012; Niss, 1988). Skipulag hennar er gjarnan sett upp á þann hátt að barnið kemur í leikskólann með foreldrum og stoppar stutt við fyrsta daginn. Næstu daga eru foreldrar með barninu en bregða sér frá, fyrst stutt en tíminn síðan lengdur smám saman. Aðlögunarferlið tekur sem fyrr segir gjarnan frá viku til tíu virkra daga.

Stundum eru fleiri en eitt barn í aðlögun í einu (hópaðlögun) samtímis en sömu aðferð beitt. Þrátt fyrir að stundum séu fleiri en eitt barn samtímis í aðlögun getur tekið töluverðan tíma, allt að nokkrar vikur, að aðlaga börn inn á heila deild í leikskóla. Almennt er ekki talið æskilegt að aðlögun barna að yngstu deildunum sé of þétt í tíma (Niss 1988). Þau börn sem nýlega hafa lokið aðlögun eru talin viðkvæm fyrir ytri áhrifum, m.a. frá gráti þeirra barna sem eru enn í aðlögun. Afleiðingin er gjarnan sú að þegar barn, sem er að hefja aðlögun, byrjar að gráta verður það til þess að þau sem fyrir eru gráta með. Grátur nýju barnanna er talinn rífa þunnt skæni ofan af tilfinningasárum þeirra sem fyrir eru. Vegna þessara þekktu áhrifa er aðlögun nýrra barna oft dreift á nokkuð langan tíma (sjá m.a. Niss, 1988).

Hugmyndafræðilega byggist hefðbundin aðlögun á tengslakenningu Bowlby. hann rannsakaði aðskilnaðarkvíða á meðal barna og tengsl barna við umönnunaraðila (Bowlby, 2005). Samkvæmt kenningunni upplifa börn kvíða við aðskilnað frá foreldrum og bregðast sum sterkt við ókunnugu fólki og ókunnugum aðstæðum (Bowlby, 2005). Margir telja að tengslakenningin hafi fengið vísindalega staðfestingu með síðari tíma rannsóknum á heilanum (Moullin, Waldfogel og Washbrook, 2014; Nygaard-Christoffersen, Höjen-Sörensen og Laugesen, 2014; Young, 2014). Vísbendingar eru um að börn sem búa við tilfinningalegt öryggi eigi auðveldar með að aðlagast bæði starfsfólki og börnum í leikskólum en þau sem ekki njóta þess. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á félagslegum aðstæðum og líðan barna í leikskólum sem styðja þetta sjónarmið (Kienig, 2002; Pianta og Stuhlman, 2004). Eins og tengslakenningarnar hafa verið túlkaðar er það jafnvel talið geta haft slæmar afleiðingar fyrir tilfinningaþroska barna og möguleika til náms ef aðskilnaðurinn við foreldra er of snarpur eða að börnin ná ekki að mynda tengsl (Goldschimied og Jackson, 1994).

Nýrri rannsóknir benda líka til þess að börn sem ekki mynda örugg tengsl við umönnunaraðila beri skarðan hlut frá borði. Í nýlegri breskri samantekt á rannsóknum um tengslamyndun voru niðurstöður í þá átt að um 40% barna í Bretlandi búi við lélega tengslamyndun (Moullin, Waldfogel og Washbrook, 2014). Niðurstöðurnar eru áhyggjuefni m.a. vegna áhrifa á framtíðarmöguleika barna. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni eru börn sem búa við tengslaskerðingar líklegri til að vera ofvirk, eiga í ýmsum hegðunarerfiðleikum og seinna yfirgefa skóla á miðri leið. Þar kemur líka fram að hægt sé að tengja saman tengslaskerðingar við lélegri málþroska, félagsþroska og að örugg börn eru líklegri til að búa yfir meiri seiglu, vera ónæmari fyrir óstöðuleika í fjölskyldum sem og streitu foreldra og þunglyndi.

Ef litið er til aðalnámskrárinnar frá 1999 (Menntamálaráðneytið, 1999) má sjá að einstaklingssjónarmið eru sterk. Þar er m.a. ýjað að mikilvægi lykilpersónu og talað um náin tilfinningatengsl barna og starfsfólks

Aðlögun hefur verið viðfangsefni örfárra þróunarverkefna hérlendis. Meðal þess sem skoðað hefur verið í leikskólanum er umgjörð aðlögunar og útfærsla á einstaklingsaðlögun yfir í það sem nefnt hefur verið hópaðlögun, (Menntamálaráðuneytið, 1997. Sjá um hópaðlögun hjá Niss, 1988), en hún kom fyrst fram hérlendis fyrir um 20 árum. Á þeim tíma þótti hún byltingarkennd og miklar umræður áttu sér stað á meðal leikskólakennara um kosti hennar og galla. Kostirnir eru að hægt er aðlaga 3-4 börn á sama tíma sem hefur í för með sér ívið styttri heildaraðlögunartíma fyrir leikskólann og börn sem byrja saman ná oft að tengjast vel. Á sínum tíma voru gallarnir hinsvegar þeir, að mörgum leikskólakennurum fannst þeir ekki kynnast börnum og foreldrum jafn vel og með fyrra formi. Að öðru leyti var aðlögunin sjálf lítt frábrugðin hinni hefðbundnu aðlögun enda byggt á sama hugmyndafræðilega grunni.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar