Kristin Dýrfjörð

Pappírsgerð

Börnum finnst yfirleitt gaman að búa til pappír, þau elska mörg drullumallið sem fylgir pappirsgerðinni. Undrið við að sjá pappír verða til er líka mikið.  Ég lærði fyrst að búa til pappir fyrir rúmum 25 árum. Þá var þetta ný list hér og fáir sem ástunduðu, síðan hefur margt breyst. Á sínum tíma smíðum við okkar eigin ramma, strengdum koparnet á hann og svo hófst framleiðslan – við notuðum risamálningarhrærur framan á borvélar til að tæta pappírinn – þetta var fyrir tíma töfrasprota.

Nú er þetta almenn þekking og flestir sem vinna með börnum búa til pappír fyrr eða seinna. Rammarnir hafa líka breyst og þó svo að þeir sem eru að búa til pappír til t.d. listrænna nota vilji hafa á þeim koparnet, duga stíf nælonnet í flesta barnaramma.

Stundum er þörf á að rifja upp,  ég hafði ekki búið til pappír að ráði nokkuð lengi. Fannst þess vegna betra að rifja handbragðið upp áður en ég leiddi kennaranema í allan sannleika um pappírsgerð. Ég fann fljótt að þetta er eins og að að hjóla, kemur undir eins og hafist er handa. Ég gerði ekki svo lítið af pappír með börnum á árunum mínum í Ásborg. Þar var gerður pappír úti og inni, sumar og vetur. Þar var pappírsgerð sjáfsagður hluti af leikskólastarfinu eins og að mála og byggja úr kubbum.

Stig fyrir stig

Sturla aðstoðaði mig við pappírsgerðina. Ég ákvað að skella inn færslu um pappírsgerð og vona að upplýsingarnar gagnist fleirum. Ég set ferlið upp í skrefum.

1. Að safna pappír. Best er að nota gæðapappír  (t.d. ljósritunarblöð) eins og er í flestum pappírstæturum – það er líka kostur að slíkan pappír þarf ekkert að rífa – hann kemur tilbúinn. Dagblöð og auglýsingabæklingar koma líka vel til greina þó pappírinn verði ekki sterkur. Glanstímarit eru síst. Á myndunum hér að neðan eru auglýsingbæklingar uppistaðan.

2. Ef pappírinn er ekki tættur, þarf að rífa hann í litlar ræmur/búta (ca. 2×2)

3. Leggið pappírinn í bleyti – best að setja hann í volgt vatn – hann verður gegnsósa fyrr. Klukkutími ætti að duga ef bútarnir eru nógu smáir en annars lengri tími.

4. Setjið massann í skál eða fötu með vel af vatni og tætið með töfrasprota.

5. Bætið 1-2 matskeiðum af veggfóðurslími eða kartöflumjöli (ég notaði reyndar gúmmíarabikum þegar ég var ung). Þið finnið fljótlega rétt hlutfall vatns og massa. En um að gera að gera tilraunir með það. Límið er sett í til að pappírinn haldist betur saman t.d. þegar verið er að mála á hann.

6. Hrærið vel í vatninu – dýfið römmunum láréttum ofan í og hreyfið varlega – efri ramminn er nú fullur af vatni sem er látið  seytla út. Hægt að vera með svamp/tusku og strjúka undan rammanum til að flýta fyrir ferlinu og til að tuskurnar sem hvolft er á verði ekki eins blautar. Muna að vinda svampinn vel á milli.

7. Athugið að stundum þarf að bæta massa út í vatnið. Þegar blöðin sem er verið að búa til, fara að verða mjög þunn – er betra að bæta pappamassa út í vatnið. Þess vegna er búinn til meiri massi en sá sem haldið er af stað með í upphafi.

8. Ef hlutir – laufblöð, glimmer pappír/mynd eða annað er sett út í pappírinn er það gert áður en allt vatnið seytlar út – jafnvel t.d. ausa notuð til að bæta smá massa ofan á svo að laufblöðin verði hluti af blaðinu.

Það er hægt að bæta spottum, garni, sagi og ýmsu öðru út í rammana á þessu stigi. Gætið þess að það fari í rammann en ekki vatnið.

9. Setjið á t.d. gömul handklæði eða fíltklúta (tuskur). Hvolfið rammanum og þerrið botninn með svampi eða tuskubút og reynið að losa þannig við aukavatn.

10. Ég er nota stundum gamla storisa og legg yfir pappírinn – rúlla svo yfir með kökukefli /grafíkkefli. Pappírinn loðir illa við nælonið í storisum.

11. Líka hægt að setja ýmislegt gróft undir pappírinn t.d. gamlar blúndur og dúka, eða aðra hluti sem skemmtilegu munsti og valta svo yfir til að ná munstri(vatnsmerki) í pappírinn.

12. Láta pappírinn þorna – hægt að færa hann yfir á dagblöð þegar mesta bleytan er farin úr honum.

13. Mála – leika með búa til hluti hvað sem er .

14. Hægt er að lita massann með matarlit/bleki. Eða setja silkipappír í lit saman við. Silkipappírinn litar massann.

15. Sigtið pappír frá vatninu – með t.d. að hella í gegn um sigti eða grisju (stóris) – þrýstið vatni úr pappanum hnoðið í kúlur og látið þorna er hægt að nota næst. Það á ekki að hella afganginum í vask – hætta á að stífla vaskinn.

Til að sjá myndir stærri þarf að smella á hvern ramma fyrir sig. Á tenglasíðunni eru tenglar á ýmsilegt sem tengist pappírsgerð.

málar

Vatnslitað á heimagerðann pappír

pappírsgerð

Pappír sigtaður upp úr balanum

pappír með rósum

Rósarblöðum bætt við pappírinn

pappírsýnishorn

Sýnishorn af pappír

 

pappírsýnishorf

Rammar og sýnishorn af tilbúnum pappír.

 

Tags: , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar