Kristin Dýrfjörð

3. Aðlögun og áhrif streitu

sulluker stulraHvaða form aðlögunar sem fólk aðhyllist þá geta allir verið sammála um og rannsóknir styðja að tími aðlögunar getur valdið streitu. Hvort streitan er hæfileg eða of mikill er síðan umdeilanlegt. Rannsóknir á streituhormóninum Kortisól hafa verið nokkuð fyrirferðamiklar undafarinn áratug. Innan leikskólafræðanna tengjast þær rannsóknum á áhrifum langvarandi streitu á starfsemi heilans og þykja hafa rennt stoðum undir kenningar um mikilvægi þess að börn búi við öryggi og traust. Þær hafa m.a. leitt í ljós að í heila barna, sem búa við langvarandi streitu, safnast hormónið Kortisól og að það getur haft ýmis slæm áhrif á námsmöguleika þeirra, getu og þroska (Dettling og félagar, 2000; Eliassen, 2012; Nygaard-Christoffersen, Höjen-Sörensen og Laugesen, 2014; Watamura, Kryzer og Robertson, 2009; Watamura og félaga, 2003; Young, 2014). Kortisól er hormón sem er manninum nauðsynlegur og sveiflur í magni yfir daginn eru eðlilegar, en óeðlilegt og uppsafnað magn hans er hinsvegar talið skaðlegt. Það er nokkuð auðvelt að mæla Kortisól í munnvatni og hafa slíkar rannsóknir verið gerðar á meðal leikskólabarna (Watamura, Kryzer og Robertson, 2009).

Gæði starfs

Á síðari árum hefur athyglinni verið beint að tengslum gæða þess starfs sem fer fram í leikskólum og magni Kortisóls í munnvatni barna. Rannsóknir Watamura, Kryzer og Robertson (2009) hafa sérstaklega beinst að áhrifum samskipta á milli barna og starfsfólks. Í rannsóknum þeirra hafa komið fram vísbendingar um tengsl á milli Kortisóls og gæða leikskóla. Meðal þess, sem hefur komið fram, er vísbending um að í leikskólum þar sem mikil áhersla er á samskipti og einstaklingsbundna athygli (meiri gæði leikskóla) er ákveðin dagssveifla Kortisóls sem síðan jafnast út að kveldi á meðan að sveiflurnar eru stærri og tíðari í leikskólum þar sem gæðin eru minni (Simms og fél., 2006; Watamura, Kryzer og Robertson, 2009). Niðurstöður Dettling og félaga (2000) hafa bent til þess að einstaklingsbundin atriði hjá börnum, eins og neikvæðni og/eða minni sjálfstjórn, geti haft áhrif magn Kortisóls og hversu langan tíma það tekur líkamann að vinna úr því.

Í rannsókn Xu (2006) koma fram vísbendingar um að bæði hegðun foreldra og starfsfólks hafi áhrif á hversu vel börn á aldrinum 18 – 30 mánuða aðlagast starfinu í leikskólanum. Þar kom fram að tengsl voru á milli þess hversu auðvelt börnin áttu með að koma sér inn í daglegt starf og þess að foreldrar gáfu sér smá tíma á morgnana til að rabba og vera með börnunum þegar þeir komu með börnin og jafnframt að gott samband var á milli foreldra og starfsfólks. Í yfirlitsrannsókn Eliassen (2012) kemur fram að rannsóknir séu mjög misvísandi og að rannsóknir á tengslum Kortisóls og gæða séu ekki allar í eina átt. En hvernig sem á það er litið er ljóst að ekki er sama hvernig staðið er að leikskólastarfi og að börn sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður þurfa meira á stöðugleika að halda í leikskólanum en önnur börn.

Tengill á pistil 4 hefðbundin aðlögun

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar