Kristin Dýrfjörð

Sanngjörn, ákveðin, frek, glaðlynd, stúrin

DSC04028Ég var að lesa  grein eftir Ann-Marie Markström um foreldrasamtöl í sænskum leikskólum – reyndar kalla þeir samtölin þróunarsamtöl. Markmið þeirra er yfirleitt að greina foreldrum frá þróun og þroska barnanna og segja frá lífi þeirra í leikskólanum. Í greininni er farið yfir sviðið um hvernig þessum samtölum hefur verið háttað, hver hefur stýrt og á hvaða hátt.

Foreldrasamtöl eins og lagskipt terta

Samkvæmt fyrri rannsókn höfundar er algengast að samtalið sé byggt upp af þremur mismunandi þáttum eða lögum. Í Svíþjóð (eins og víða hér) fá foreldrar lista yfir það sem starfsfólk leikskólanna hefur áhuga á að ræða. Þetta er svona undirbúningsblað fyrir samtölin. Það virðist algengt að blaðið sé í formi spurninga sem annaðhvort foreldrar eða foreldrar og börn eiga að svara. Þegar kemur að sjálfu samtalinu, er það gjarnan byggt upp þannig að leikskólakennarinn byrjar á A) að draga upp sína mynd af barninu, þetta getur varað í nokkrar mínútur, B) síðan spyr hún/hann foreldrana út frá blaðinu og C) svo tekur hún/hann aftur yfir og fer yfir sín svör við blaðinu og lokar. Ljóst er að valdið og stjórnun þessara samtala liggur alveg hjá leikskólakennaranum.

Önnur leið við uppbyggingu samtala

Rannsókn Markstöm beindist að tilraun til að fara aðra leið við þróunarsamtölin, aðferð sem byggist á því að nota styrkleikakort, „Svona er ég, sem undirstöðu samtalanna. Styrkleikakortin eru úr fjöldaframleiddum 54 korta spilastokk þar sem hvert spil inniheldur eitt lýsingarorð.  Dæmi um lýsingarorðin eru, sanngjörn, ákveðinn, hamingjusöm, varkár og næm, samheiti orðanna er líka að finna í kortunum. Kortin virðast vera nokkuð algeng í Svíþjóð og þá notuð til að ræða m.a. um tilfinningar. Leikskólakennararnir sem tóku þátt virtust ekki hafa hugsað aðferðina til enda þegar að samtölunum kom. Þeir byrjuðu á að leggja niður um 20 kort og báðu svo foreldrana að velja þrjú kort sem þeir teldu lýsa sínu barni. Orðin voru síðan notuð sem útgangspunktur samræðnanna. Foreldrum virðist hafa verið gefin ágætur tími til að velja og ræða kortin.

Foreldrar í prófi

Markström greinir síðan tvö samtöl og skoðar út frá orðræðu um vald og stofnanavæðingu.

Hún kemst að því að kortin geta virkað á foreldra eins og þeir séu að taka próf og að þeim finnist þeir e.t.v. ekki vera að gefa sanngjarna mynd af barninu, jafnvel verulega einfaldaða mynd. Í verkefninu er ljóst að foreldrar voru ekki með tilgang þessara korta og gerðar samtala á hreinu. Jafnframt er ljóst að heilmikill tími fór í aðferðina sjálfa en ekki samræðu um barnið. Má jafnvel líta svo á að þrátt fyrir nýja nálgun sé það áfram stofnunin sem skilgreini orðræðuna bara á annan hátt.

Leikskólakennarar ánægðir – enginn merkimiði

Frá sjónarhóli leikskólakennarans sá höfundur aftur töluverða kosti, leikskólakennarinn fær e.t.v. betri mynd af barninu og fjölskyldunni eins og hún er heima fyrir. Margir leikskólakennarar vilja forðast að setja merkimiða á börn, í þessu tilfelli er það ekki leikskólakennarinn sem setur merkimiða á barnið, það gera foreldrar. Það er þeirra vald að velja og hafna. Leikskólakennarinn grípur bolta foreldrana og dripplar honum áfram. Væntanlega, (af því að það er heimsmeistaramót í handbolta þegar þetta var skrifað), væntanlega hefur leikskólakennarinn ákveðið hvaða marki hún spilar í átt að. Ég á ekki von á öðru en að áfram þurfi og vilji leikskólakennarar koma tilteknum upplýsingum á framfæri og ræða. En hér er opnað á að stjórn foreldra á umræðunni og áferð samtalanna.

Mikilvægi foreldrasamtala

Að endingu ræðir höfundur um mikilvægi þróunarsamtalanna og hvað þau spila stórt hlutverk í þróun og mótun leikskólastarfs í Svíþjóð.

Mér fannst þessi grein áhugaverð, á Íslandi eins og í Svíþjóð eru leikskólakennarar að hugsa nýjar leiðir til að þróa samstarfið við heimilin og samtölin við foreldra. Eru að hugsa nýjar leiðir til að gefa foreldrum aukið eignarhald og stjórn á því hvernig samstarfið á sér stað. Ég hugsa að margir leikskólakennarar þekki lýsinguna á dæmigerðum foreldrasamtölum hér að ofan. Og þrátt fyrir að hugtakið gagnvirkur eigi að vera lykilhugtak, held ég að reynslan sé að oft er þetta einhliða upplýsingamiðlun. Reyndar fannst mér það breyta miklu fyrir um 1995 þegar við (í Ásborg þar sem ég var þá leikskólastjóri), settum saman lista yfir það sem við vildum ræða við foreldra og sendum þeim heim nokkrum dögum fyrir samtalið. Auðvitað var það svo að við settum saman listann og ég man ekki til þess að við höfum yfirhöfuð rætt hann við foreldra. Ég held svona alveg án þess að hafa nokkra heimild aðra en eigin tilfinningu að svo sé enn á flestum stöðum. Það eru leikskólakennararnir sem skilgreina samstölin og það sem þar á að fara fram. Oft er stuðst við alla vega þroskalista og próf. Þannig að í raun má velta fyrir sér hugtakinu samtal, samræða, held meira að segja að viðtal næði því ekki. E.t.v. mætti segja miðlun upplýsinga.

Virkja foreldra

Ég veit hinsvegar að víða er verið að leita leiða til að virkja foreldra til samstarfs. En slík virkjun getur varla verið einhliða, foreldrar verða auðvitað líka að axla þá ábyrgð sem á þá eru sett í lögum og reglugerðum að vilja vera í samstarfi og leita eftir því á einhvern hátt. T.d. var hlutverk foreldraráða í leikskólum styrkt sérstaklega með aukin áhrif í huga.

Ég sé fyrir mér að hægt sé að nota kort sem þessi á einhvern hátt með foreldrum, líka sem leið til að brjóta ís, til þess að opna á umræðu og ná að sjá þá mynd foreldranna. Ég tek hins vegar undir áhyggjur höfundar að aðferðin getur farið út um víðan völl og misst marks. Það gæti hins vegar verið áhugavert að ræða við foreldra eða hóp þeirra um slíka aðferð.

Foreldrasamtölin, þróun þeirra og framgangur eru áhugavert rannsóknarefni, sem ég vona að einhver sé að skoða.

Markström. A. 2011. To Involve Parents in the Assessment of the Child in Parent-Teacher Conferences: A Case Study. Early Childhood Education Journal, Birt á neti 30. nóvember

__________

Birtist áður á blogginu mínu roggur.is

Tags: , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar