Sköpun, sjálfbærni og líðan í leikskólum: Innsýn frá Íslandi og Slóveníu
Kristín Dýrfjörð skrifar

Greinin „Art for Well-being: Insights into Early Childhood Education in Slovenia and Iceland“ eftir Petru Štirn Janota og Kristínu Dýrfjörð birtist í Journal of Elementary Education í september 2025. Hún fjallar um hvernig list- og menningarstarf tengist vellíðan í leikskólum og ber saman reynslu og viðhorf leikskólakennara og leikskólakennaranema í Slóveníu og á Íslandi.
Samanburður á aðalnámskrárm
Í greininni er sérstaklega horft til þess hvernig aðalnámskrár leikskóla í löndunum tveimur skilgreina hlutverk lista og sköpunar.
- Slóvenía: Listir eru skilgreindar sem sjálfstæð fagssvið (myndlist, tónlist, dans og leiklist) með eigin efni, aðferðir og markmið. Áhersla er lögð á að listir móti fagurfræðilega næmni, sjálfsmynd og tilfinningatjáningu barna. Í haust (2025) tekur þó gildi ný námskrá sem nálgast norrænar hefðir.
- Ísland: Sköpun og menning eru skilgreind sem þverfaglegt svið sem fléttast saman við öll námsvið. Sköpun tengist sérstaklega leik, umhverfi, sjálfbærni og lausnaleit og styður þannig bæði tilfinningalegan og félagslegan þroska barna.
Þessi nálgun endurspeglar ólíkar menntahefðir: skipulögð og formbundin listkennsluhefð í Slóveníu annars vegar og opin, barnamiðuð og náttúrutengd sköpun á Íslandi hins vegar.
Tafla: Samanburður á aðalnámskrá leikskóla í Slóveníu og Íslandi
Þáttur | Slóvenska aðalnámskráin | Íslenska aðalnámskráin |
Aðaláhersla | Listir – myndlist, tónlist, dans og leiklist eru sjálfstæð fög með eigin efni, aðferðir og tjáningarform. | Sköpun og menning sem þverfaglegt svið sem fléttast saman við öll námsvið. |
Hlutverk í þroska | Listir móta sjálfsmynd og fagurfræðilega næmni barna og veita einstaka leiðir til náms og tjáningar. | Sköpun styður leik, félagsfærni, tjáningu tilfinninga og hæfni til lausnaleitar. Hún er samþætt öllum sviðum náms. |
Tenging við vellíðan | Vellíðan tengd andlegri heilsu; sjálfstjáning lykilatriði. Mikil áhersla á öruggt og stuðningsríkt umhverfi. | Vellíðan samþætt námskránni, tengd sköpun, leik og sjálfbærni. Áhersla á öryggi, tengsl og seiglu barna. |
Félagsleg þátttaka og inngilding | Óbein áhersla með jöfnum tækifærum, virðingu fyrir margbreytileika, fjölmenningu og lýðræði. | Bein áhersla með samvinnu, sameiginlegum verkefnum og samfélagslegri/umhverfislegri ábyrgð. |
Sameiginleg markmið
Þrátt fyrir ólíka áherslu líta báðar námskrárnar á listir sem mikilvægan þátt í heildrænu námi og vellíðan barna. Markmiðin eru að styðja við tjáningu tilfinninga, efla félagsfærni, auka siðferðisvitund og tengja nám við sjálfbærni.
Rannsóknargögnin
Könnunin náði til 374 þátttakenda (kennara og nema).
- Kennarar, einkum í Slóveníu, sýndu meiri meðvitund og reglubundna þátttöku í listum.
- Nemar í báðum löndum voru almennt óöruggari um hvernig listir tengjast vellíðan og óskuðu eftir meiri leiðsögn.
Listir sem uppspretta vellíðunar
Í niðurstöðunum kemur fram að listir geta:
- stuðlað að streitulosun og sjálfstjáningu,
- skapað rými fyrir ígrundun og samkennd,
- styrkt siðferðilega meðvitund og félagslega tengingu.
Áskoranir í kennaramenntun
Bæði löndin glíma við skort á fræðilegri og hagnýtri þjálfun í að samþætta listir og vellíðan í leikskólastarfi. Nemar óska eftir grunnleiðsögn, en kennarar vilja fremur dýpri, aðferðarfræðilega þjálfun sem styður faglegt starf.
Niðurstöður og ályktanir
Greinin sýnir að listir eru lykilþáttur í heildrænu námi, vellíðan og samfélagslegri þátttöku leikskólabarna. Munurinn á milli landanna endurspeglar ólíkar menntunarhefðir, en bæði lönd leggja áherslu á að börn fái að nýta listir til sjálfstjáningar og lærdóms. Til að styrkja áhrif listar í leikskólum þarf að efla kennaramenntun, bæði með eigin listupplifun og með hagnýtri þjálfun sem tengist sjálfbærni og félagslegu réttlæti.
Sorry, the comment form is closed at this time.