Kristin Dýrfjörð

Hæglátt leikskólastarf = meiri vellíðan

Kristín Dýrfjörð skrifar

Leikskóldagurinn getur verið mjög annasamur og oft mikil asi. Víða er dagskipulagið afar þétt og bútað í marga bita, börn og barnahópar fara oft á milli skipulagðra verkefna og tími til að dvelja í djúpum leik virðist jafnvel af skornum skammti. En hvað ef við stöldrum við og gefum okkur rými og tíma til að njóta dagsins í stað þess að flýta okkur?

Í nýlegri rannsókn sem birtist í European Early Childhood Education Research Journal er dregin fram áhrif hæglátrar kennslufræði (slow pedagogy) á vellíðan og faglega þróun leikskólakennara. Rannsóknin sýnir að þegar kennarar fá tíma til að ígrunda starf sitt, vinna saman í lærdómssamfélagi og leyfa börnum að kanna heiminn á sínum hraða, þá eykst ekki bara gæði leikskólastarfsins – heldur líður starfsfólki líka betur í starfi.

Hvers vegna hæglátt leikskólastarf?

Í rannsókninni var lögð áhersla á að draga úr álagi og skapa rými fyrir ígrundun, könnun og sköpun – bæði fyrir börn og kennara. Með því að fjarlægja óþarfa hraða og skipulagða dagskrá gafst kennurum betra tækifæri til að styðja við börnin á þeirra eigin forsendum. Þetta hafði margvísleg jákvæð áhrif:

Börn fá lengri tíma til að dvelja í leik – Þau ná að dýpka skilning sinn á viðfangsefnum í stað þess að hoppa á milli verkefna.
Kennarar upplifa meira faglegt sjálfstæði – Þeir fá meira svigrúm til að taka ákvarðanir byggðar á áhuga barnanna fremur en stífu námskrárskipulagi.
Minni streita í starfi – Í stað þess að keyra áfram verkefni, læra kennarar að treysta ferlinu og fylgja flæði dagsins með börnunum.
Betri tengsl milli kennara og barna – Þegar kennarar hafa tíma til að hlusta og fylgjast með börnum í rólegu umhverfi myndast dýpri tengsl.

Hvernig birtist hæglátt starf í daglegu leikskólalífi?

Í rannsókninni lýsa leikskólakennarar því hvernig þeir tóku meðvitaða ákvörðun um að hægja á starfinu og fylgjast betur með börnunum í þeirra eigin leik.

Þeir slepptu því að ofskipuleggja verkefni – Í stað þess að stýra leik barnanna, veittu þeir þeim rými og efnivið til að kanna sjálfstætt.

Þeir gáfu börnum lengri tíma til að vinna í verkefnum – Í stað þess að brjóta daginn upp í mörg stutt verkefni fengu börn tækifæri til að snúa aftur að sama verkefni yfir lengri tíma.

Þeir lærðu að staldra við – Í stað þess að grípa inn í leikinn með leiðbeiningum, fylgdust kennarar með, spurðu opinna spurninga og leyfðu börnunum að finna sínar eigin lausnir.

Einn kennari sagði frá reynslu sinni eftir að hafa sleppt því að stýra ákveðnu verkefni eins og hún hafði hugsað það.

Fyrstu skráningar mínar beindust að frosti og ís. Smá íhlutun (kveikja) af hálfu fullorðinna (að setja vatn út kvöldið áður) skapaði fjölmörg tækifæri til könnunar. Ég verð að viðurkenna að ég varð örlítið vonsvikin þegar börnin brugðust ekki strax við með undrun og aðdáun gagnvart fallegum mynstrum eins og loftbólum í ísnum, heldur nutu þess í stað að brjóta ísinn í minni og minni búta! En þá minntist ég alls þess sem ég hef lært um hvernig börn læra og mikilvægi þess að veita þeim frelsi og þau skemmtu sér svo sannarlega. Það komu hins vegar aðrir dagar og önnur tækifæri þar sem þau gátu beint athyglinni að fagufræðinni.

Stundum þarf að enduhugsa og skipta um stefnu

Þegar ég var ungur leikskólakennari kölluðum við það hvernig viðkomandi kennari brást við óvæntum aðstæðum uppeldisfræði dauðu músarinnar. Byggði það á sögu um norska leikskólakennara sem ætluðu út í skóg með börnin, kennararnir voru með ákveðin markmið í huga, skoða skóginn, laufblöð og svo framvegis, en á leiðinni inn í skóg fund börn dauða mús. Börnin vildu jarða músina og skreyta gröfina. Þarna stóðu norsku kennararnir frammi fyrir vandamáli. Áttu þeir að taka músina með? Ýta börnunum áfram og láta músina eiga sig? Staldra við og í stað þess að ferðin snérist um að safna plöntum og skoða tré, snérist hún um músina? Kennararnir spurðu sig (kannski ekki með þessum orðum alveg), en spurðu sig hvaða námstækifæri og þroskakostir felast í þeim kostum sem við höfum. Hvar liggur áhugi barnanna, er hægt að sameina upplifun barna af músinni og ferðina í skóginn? Leikskólakennarar standa frammi fyrir slíkum valmöguleikum og tækifærum stundum oft á dag. Kennarinn í rannsókninni valdi að gefa börnum svigrúm til að skoða klakann á eigin forsendum, það merkir ekki að hún hafi gefið upp hugmyndina um að skoða ískristalla, en á þessari stundu var upplifun barnanna og undrun henni meira virði. Þessi hægláta nálgun gaf börnum færi á að taka frumkvæði í sínu eigin námi, en krefst þess líka að kennarar endurhugsi hlutverk sitt í starfinu, séu tilbúnir að bæði sjá og grípa námstækifæri.

Að blómstra – vellíðan í starfi skiptir máli

Eitt af því sem kom skýrt fram í rannsókninni var hvernig hægari taktur í starfi hafði jákvæð áhrif á vellíðan kennara. Þegar þeir fengu meira svigrúm til ígrundunar og faglegra samtala upplifðu þeir sig faglega sterkari, minna stressaða og með aukna starfsánægju.

Minni kulnun – Engin streitutengd veikindafjarvera var skráð hjá kennurunum sem tóku þátt í rannsókninni.
Aukin starfsánægja – Kennarar fundu fyrir meiri stjórn á starfi sínu og upplifðu sig sem virka þátttakendur í þróun leikskólastarfsins.
Dýpri skilningur á starfinu – Með aukinni ígrundun varð til sameiginleg þekking innan teymanna um hvað virkaði best fyrir börnin.

Hvaða lærdóm getum við dregið fyrir okkur á Íslandi?

Nú hefur í á þriðja ár (haust 2025) verið í gangi þróunarstafið Stilla sem snýst um svipuð markmið og komu fram í rannsókninni. Við vitum að hæglætið hefur skipt þá leikskóla máli og aukið vellíðan starfsfólks. Í þátttökuleikskólunum okkar er allstaðar unnið eftir ákveðnum stefnum, ekki þeim sömu en stefnum. Við höfum séð að hæglætið virkar afar vel með viðkomandi stefnum, það er eins og geisli sem hægt er að nota til að ljóma upp starf og starfshætti, er verkfæri til að skoða, ígrunda og ræða starfið. Þó að íslenskir leikskólar búi við öðruvísi aðstæður en þeir sem tóku þátt í rannsókninni, er margt sem við getum tekið með okkur:

  • Gefum börnum (og okkur sjálfum) meiri tíma – Hægjum á dagskránni og gefum börnum tækifæri til að dvelja í leiknum.
  • Tökum meðvitaðar ákvarðanir um hvað er nauðsynlegt – Er t.d. nauðsynlegt að fara í gegnum allt sem er á dagskipulaginu í dag? Eða getur eitt verkefni dugað til að skapa djúpa námsreynslu?
  • Ræðum fagmennsku og vellíðan kennara í teymum – Höfum opnar samræður um hvernig við upplifum vinnuna okkar og hvernig við getum skapað vinnuumhverfi sem styður bæði börn og starfsfólk.
  • Leyfum hlutunum að gerast á sínum hraða – Hver sagði að við þyrftum alltaf að flýta okkur?

Að lokum

Þessi rannsókn sýnir að hæglátt leikskólastarf er ekki bara gott fyrir börnin – það er líka lífsnauðsynlegt fyrir kennara. Þegar við gefum okkur tíma til að njóta augnabliksins, verður bæði leikurinn og starfið dýpra og þýðingarmeira. Kannski eigum við eftir að fá um það rannsóknarniðurstöður í framtíðinni að hæglæti hafi áhrif á t.d. klunun í starfi.

Hugsaðu um hvernig þú getur hægt á í þínu starfi í dag

Heimild:

Pascal, C., Bertram, T., Cave, S., Bruce, T., Lyndon, H., Bennett, S., & Denham, A. (2024). Praxeological action research: a Froebelian approach for professional development, flourishment and wellbeing. European Early Childhood Education Research Journal32(6), 1059–1078. https://doi.org/10.1080/1350293X.2024.2427849

Tags: , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar