Kristin Dýrfjörð

Að nota sögusteina

sögusteinar í kassa.Í nýlegri færslu hér sagði ég frá sögusteinum sem ég hef verið að sjá á bloggum leikskólakennara víða um heim. Í framhaldið ákvað ég að tína nokkra steina og mála á  einfaldar myndir. Í framhaldið ákvað ég að prófa þá í sögugerð með Sturlu sem er nýorðinn fimm ára. Sturla er vanur að hlusta á mig segja sögur, hann er líka vanur því að ég móti sögurnar eins og skapið leiðir mig hverju sinni.

Sögupersónur

Þegar ég segi honum sögur (sem ég hef gert frá því að hann var nokkra mánaða) hef ég gjarnan beðið hann um skoðun á söguþræði og sögupersónur. Einu sinni voru hann og afi í flestum sögum t.d. að gefa öndunum brauð eða leita að kisu. Núna eru það hættur og ævintýri sem tilheyra sögunum en líka vinátta og góður endir.

Málað á gráa steina

Sögusteinarnir okkar er ekki mjög margir (enn sem komið er) og myndirnar eru ekki þær fallegustu í heimi (málaði þær með akrýlmálningu). En steinarnir og myndirnar virka. Ég ákvað líka að þessar sögur alveg eins og þær sem ég spinn  með honum endi alltaf á „Köttur úti í mýri setti upp á sig stýri og úti er ævintýr, Smjörið rann, roðið brann og sá sem ekki geldur mér sögulaun honum enga þökk ég kann.“ * Með þessum fasta endi áttar Sturla sig á að það þýðir ekkert að biðja mig um að lengja söguna (stundum þegar hann skynjar að ég ætla að fara að fara með romsuna stoppar hann mig og segir við verður að bæta einu við, það virkar líka stundum).

Reynslan

Sturla féll strax fyrir steinunum og gerði sér grein fyrir út á hvað hugmyndin gekk. Við höfum nú notað þá i nokkur skipti og ég sé að sögugerðin er að þróast. Í fyrstu sagði ég sögurnar alfarið og lagði út stein fyrir stein. Á næsta stigi fór hann að ákveða hvaða steinar áttu að vera í sögunni. Valdi byrjunarsteininn og ákvað hvaða og hvenær næsti steinn átti að bætast við. Í fyrstu voru sögurnar spunnar í anda þeirra sagna sem ég sagði. En smá saman eru þær að verða hans sögur. Í dag var t.d. tveggja ára snót hluti af hans sögu (hann á litla systur á fyrsta ári).

Þróunin

Sturla leggur núna út steina og semur söguþráðinn sjálfur og svo skiptumst við á, hann leggur út stein og ég bý til sögu, þegar næsti steinn er lagður út segir hann söguna, en við spinnum við hvers annars sögu. Með því helst þráður. Sagan verður líka samstarfsverkefni okkar. Við ákváðum líka að hafa tvo steina sem ekkert er málað á (við völdum fallega gráa steina) sem má breyta í hvað sem er. Þannig að ef vantar sögupersónu inn í er ekkert mál að bæta henni við. Ég málaði einn steininn mjög skrautlega og sagði í fyrsta sinn sem við notuðum hann að hann væri hið alsjándi auga Óðins. Nú þýðir ekkert að hafa hann sem neitt annað. Í ævintýrunum okkar lenda persónur í vanda við að komast að auganu eða að augað sendir þær í vandasama ferð.

Söguþráður spuninn

Sögurnar okkar (bæði þessar og hinar sem ég hef sagt honum frá því að hann var smápatti) byrja á lágum nótum en smám saman gerist eitthvað hættulegt og svo enda þær allar vel. Ég reyni líka að hafa þrítekningu í sögunum, fara yfir sjö skóga, tína sjö tegundir af sveppur og komast yfir sjö vötn sem dæmi. Söguþráðurinn er líka oft byggður á ævintýrum og þjóðsögum og jafnvel norrænni goðafræði. En þá fært í nútímabúning.

Framhaldið

Í dag ákváðum við að áður en ég hitti hann um næstu helgi verði hann búinn að finna tvo steina sem við ætlum að mála á. Annar á að verða dreki.

 * Hluti romsunnar um sögulaun er mismmunandi -ég virðist t..d hafa stytt eftirfarandi: Smjörið rann, roðið brann, sagan upp á hvern mann, sem hlýða kann. Brenni þeim í kolli baun, sem ekki gjalda mér sögulaun

Tags: , , , , , , , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar