Kristin Dýrfjörð

Leikskólinn? Er hann svo frábær?

Ég er afar stolt yfir því að hafa valið mér að verða leikskólakennari. Ég hef verið í baráttuliðinu lengi. Barist fyrir tilveru og viðurkenningu fyrir bæði leikskólann og fyrir nám leikskólakennara. Ég hef líka tekið þátt í kjarabaráttunni. Þegar ég var ung var ég bjartsýn og taldi skilning og viðurkenningu handan við næsta horn. Ég er ekki alveg jafn bjartsýn núna, ég er nefnilega slegin niður aftur og aftur. En auðvitað stend ég jafnhraðann upp og held áfram.

Ég er þeirrar skoðunar að til að geta breytt verðum við að kortleggja og viðurkenna vandann. Ef við horfumst ekki í augu við hann þá breytist ekkert og við höldum áfram að hjakka í sama hjólfarinu og vandinn fær frið til að vaxa enn nú meira. Verða torfæra.

Hlutverk leikskólans – fyrir börnin eða atvinnulífið?

Það má spyrja hvert sé hlutverk leikskólans í samfélaginu? Leikskólakennarar börðust fyrir lengingu leikskóladags barna þeim fannst mörgum erfitt að sjá börn tætt á milli margra staða yfir daginn. Fyrir þeim var leikskólinn vissulega menntmál en málið snérist jafnframt um félagslegt réttlæti til handa börnum. Fyrir aðra sérstaklega utan leikskólans snerist heilsdagsleikskóli um að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði, að tryggja atvinnulífinu greiðan aðgang að stöðugu vinnuafli. Hér í borginni var stóra skrefið tekið með R-listanum sem þorði að setja málefni fjölskyldna í forgang. Lyfta grettistaki. En það er stundum svo með okkur Íslendinga að við erum annað hvort í ökkla eða eyra. Við vorum í ökkla – en höstuðum okkur í eyra. Og á hverra kostnað skyldi það hafa verið?

Á örfáum árum breyttist leikskólinn frá því að vera takmörkuð gæði fárra til að vera almenn gæði allra. Frá því að vera hálfdagstilboð fyrir gift fólk til þess langa leikskóladags sem er veruleiki margra barna.

Klemma leikskólakennara

Ég ætla að segja ykkur að við leikskólakennarar höfum iðulega verið í klemmu. Okkur finnst flestum leikskólinn vera góður og nauðsynlegur fyrir öll börn. ( Það er ekkert leyndarmál að okkur finnst hann flestum vera það allrabesta fyrir ung börn utan veggja heimilisins), það er líka þess vegna sem við áttum og eigum mörg erfitt með að segja við foreldra: „það er gott að hafa barnið í leikskóla en ekki endilega megnið af vökutíma þess“. Mörg höfum við nefnilega viðurkennt að lengd leikskóladagsins var komin út yfir það sem gæti talist börnum hollt. En til að stíga til baka þarf samstillt átak í samfélaginu, það þarf að viðurkenna að fjölskyldur ungra barna hafi sérstöðu, líka á vinnumarkaði. Leikskólinn er bæði menntamál og hluti af þvi að tryggja félagslegt réttlæti til handa börnum.

Nálarpúði sem allir mega stinga í

Ég held að það hvernig leikskólinn hefur verið bitbein hinna ýmsu hópa hafi í reynd veikt stöðu hans. það hefur orðið til að við leikskólakennarar höfum svo lengi verið að berjast fyrir málefnum hans á allt of mörgum stöðum samtímis. Leikskólinn, hann á að vera þjónusta, hann á að vera félagslegt úrræði, á að vera menntastofnun. Hann á að vera stuðningur við atvinnuþátttöku kvenna, vera baráttutæki í jafnréttisbaráttu kvenna. Hann á að styðja við atvinnulífið og fyrir marga á hann fyrst og fremst að styðja við og halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Leikskólinn hann er að mörgu leyti eins og nálarpúði samtímans, allir hafa skoðun og allir mega stinga sínum nálum og leikskólinn hann á bara að taka við. (Hér ræddi ég aðeins um hvernig atvinnulífið fer reglulega á haus yfir skipulagsdögum leikskóla, hvernig það nær að snúa umræðunni sér í hag).

Þöggun – Leikskólinn er svo frábær að við þurfum ekkert að ræða hann

Orka leikskólakennara hefur farið í að skýra fyrir ólíkum hópum að; jú við viðurkennum hlutverk leikskólans í samfélaginu og við áttum okkur á að hann er ekki eyland, en, en, en. Við höfum líka barist fyrir að verja starfið og halda gæðum þess og helst viljum við auka þau. Gera leikskólann okkar eins góðan og hann getur mögulega orðið. Og við höfum alla burði til þess. Uppskeran út á við er að almennt virðist fólk telja að allt sé með svo miklum ágætum í leikskólanum. Um það vitna rannsóknir á ánægju foreldra með leikskólann. Afleiðingin er að margir þar á meðal stjórnmálafólk telur að það þurfi kannski ekki að eyða mikilli orku í að ræða hann og hann er settur út á jaðarinn og þar gleymist hann. Sjálf er ég farin að upplifa þessa eilífu umræðu um að allt sé svo gott í leikskólanum sem leið til að þagga umræðuna um leikskólann og þann alvarlega vanda sem hann stendur frammi fyrir. Því eins stolt og ég er yfir leikskólunum okkar er ég líka áhyggjufull.

Vinnuaðstaða í leikskólum

Í umræðu um leikskólann er oft talað um vinnuaðstöðu starfsfólks. Sumir halda að það snúist um fjölda barna af því að leikskólakennarar vilji hafa svo fá börn. En málið er flóknara en það. Vitið þið að hestum er ætlað meira pláss en börnum í leikskóla. Vitið þið að það er sett lágmarksrými fyrir búfé en enginn lágmarksfermetrafjöldi er settur fyrir leikrými barna í núverandi reglugerð. Einu sinni var viðmiðið þó 3 fermetrar. Vitið þið að þið sem vinnið á skrifstofum ykkur er ætlaður lágmarksfermetrafjöldi í vinnurými?

Í reglum um húsnæði vinnustaða segir: „Sömuleiðis skal tekið tillit til þess rýmis sem vélar, húsgögn og efni taka. Séu skilyrði sérlega góð getur Vinnueftirlitið veitt leyfi til að nota starfsrými sem er minna en 12 m á hvern starfsmann. Loftrýmið má þó aldrei vera minna en 8 m. Minnsta stærð vinnuherbergis, sem unnið er í að staðaldri meginhluta vinnudags, skal vera 7 m.“ Vitið þið að í útreikningum um fermetrafjölda í leikskólum eru bara börnin reiknuð inn í fermetrana ekki starfsfólkið. Þannig að í leikskóla þar sem dvelja segjum 100 börn og heildarfermetrafjöldi er 6,5 á barn er ekki búið að reikna inn húsgögn og tæki eða STARFSFÓLK ekki heldur í þess þrjá fermetra sem hverju barni er ætlað í leikrými. Vitið að í grunnskólum mega börn ekki borða heita matinn í kennslustofum á borðunum sínum af heilbrigðisástæðum en í leikskólum er börnum ætlað að leika sér, lita og leira á sömu borðum. Getið þið ímyndað ykkur loftgæðin rétt eftir mat. Mér finnst líka vont að segja að borgin hefur þegar samþykkt undir 6 m2 í heildarrými í nýjum leikskóla. Reglugerð sem átti að vinna með leikskólanum er nú tæki til að skerða vinnuaðstæður barna og starfsfólks.

Þegar leikskólakennarar tala um vinnuskilyrði eru þeir líka að tala um þessar staðreyndir.

 Öryggismörk leikskóla

Einn leikskólakennari sagði við mig, Kristín, ef það dettur barn í kastalanum, ef það er grjót á vitlausum stað í garðinum hjá mér verða allir vitlausir og rætt um skort á öryggi og farið fram á úrbætur í einum grænum. En ef það vantar helming af starfsfólki dag eftirdag, þó stór hluti starfsfólks skilji varla íslensku, þó varla séu leikskólakennarar í stjórnunarstöðum, þá talar enginn um skort á öryggi barna. Er þetta ekki skrýtin forgangsröðun?

Eru leikskólakennarar deyjandi stétt?

Ég heyri stundum (og tek líka þátt í þannig umræðu sjálf og hef áhyggjur) að stétt leikskólakennara sé deyjandi stétt. Sumir kenna lengingu námsins í fimm ár um. Það má vera að það spili eitthvað inn í þó mér finnist það ólíklegt – ég tel að vinnuskilyrði og viðhorf samfélagsins til leikskólans og þeirra sem þar starfa aðal áhyggjuefnið. Í nýlegri rannsókn Örnu Jónsdóttur mátti skilja að stjórnmálafólk taldi mikilvægara að í leikskólanum starfaði gott fólk (nóta bene góðar konur, mömmur og ömmur) frekar en fagfólk. Að menntun þeirra sem þar væru væri ekki stóra málið, aðallega að það væri gott fólk. Einn leikskólastjóri hvíslaði að mér „ég á sem sagt frekar að biðja um persónuleikapróf en prófskyrteini“.

Fimm ára námið er það tímaskekkja?

Ég tel raunar að ef nám leikskólakennara verður stytt, en annað kennaranám látið halda sér þá gangi það að leikskólakennarastéttinni dauðri. Með því er gefið í skin að það sé minna merkilegt að vinna með yngri börnum en eldri. Það þurfi minni menntun til að vinna með börnum á mótunarárum þeirra en þegar þau eru orðnir þroskaðir einstaklingar. Leikskólakennarar hafa barist of lengi við að vera settir til jafns öðrum kennarastéttum til að það komi til greina að setja leikskólakennara skrefi aftar öðrum kennurum. Ég er ekki að útiloka umræður um breytingu á kennaranámi og að námið geti þróast í ýmsar áttir, en við verðum að ganga í takt.

Frábært starf í leikskólum

Ég hef ekki dregið neitt sérlega jákvæða mynd upp, það væri falskt að minni hálfu að koma hér og segja ykkur bara frá því góða starfi sem verið er að vinna og já það er verið að vinna gott starf. Vegna þess að ef fólk fer ekki í alvöru að skoða aðstæður í leikskólum landsins þá er ég hrædd um að þetta frábæra starf sem víðast er, það víki. Mig langar að segja ykkur frá því að ég hef alla vikuna verið að kenna hópi verðandi leikskólakennara. Þar sem ég hef meðal annars fjallað um mikilvægi starfsins, gleðina og ástríðuna sem fylgir að vera leikskólakennari. Hef verið að fjalla um að hver kennari er mikilvægasta kennslutæki sem hann hefur völ á. Fjallað um hvílíkir snillingar börn eru.

Leikskólinn staður tækifæra og möguleika

Að lokum leikskólinn er ekki fyrst og fremst mikilvægur fyrir samfélagið svo hjól atvinnulífsins nái að snúast , hann er fyrst og fremst mikilvægur fyrir börnin sem þar eru hverju sinni. Leikskólinn á að vera staður það sem börn fá tækifæri. Hann á að vera staður þar sem börn takast við áskoranir þar sem þau leika og læra í samfélagi við önnur börn og fullorðna. Hann á að vera sá staður þar sem börn læra um lýðræði í lýðræði. Staður þar sem allir eiga að eiga hlutdeild. Þar sem hlustað er á sjónarmið, það sem allir finna að þeir tilheyra. Og öll þess hlutverk hafa flestir leikskólar leitast við að uppfylla. Líka þegar þegar blásið hefur á móti. Til að geta þetta þarf leikskólinn á öllu sínu fólki að halda. Hann þarf á því að halda að fólkið þar geti einbeitt sér að því mikilvægasta starfinu með börnunum. Hann þarf líka á bandamönnum úr heimi stjórnmálanna að halda.

(Svo ræddi ég eitthvað um að umbylting og þróun kerfa ætti sér stað innan frá en að þeir rammar sem stjónmálamenn skapa þeir hafi áhrif og séu raun forsenda þess að slík þróun eða bylting geti átt sér stað).

Erindi samið fyrir Hugmyndaþing Samfylkingarinnar um menntamál sem haldið var í Reykjavík 22. september 2012. Að vísu fór ég ekki alveg handritinu en að mestu er það samhljóða. Bætti inn í efni þar sem ég vitnaði í aðra fyrirlesara (það er ekki hér).

 

Tags: , , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar