Kristin Dýrfjörð

Það sem veldur álagi í leikskólum

Hér er fjallað um niðurstöður könnunar sem lögð var fyrir 22 – 25 september 2017 um undirbúningstíma og álagsþætti í starfi í leikskólum. Sérstaklega var spurt um óskafyrirkomulag og tímafjölda í undirbúning og svo það sem hvíldi á fólki varðandi vinnuaðstöðu og vinnutíma í leikskólum. Könnunin var gerð á Surrwey monkey og var með öllu nafnlaus.

Svörunin fór fram úr væntingum mínum  en 329  gáfu sér tíma til að svara og margir skrifuðu langa texta við opnar spurningar. Svörin skiptast þannig að um 27% þeirra sem svöruðu starfa í Reykjavík, 39% á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur og um 34% á landsbyggðinni. Rúmlega 80% svarenda voru leikskólakennarar, 15% fólk með aðra háskólamenntun og tæplega 5% voru ófaglærðir.

Eitt af því sem ég lofaði var að birta fljótlega niðurstöður, hvað fólk hefði að segja. Það verður að segjast alveg eins og er að þessi góða svörun gerði það að verkum að ég varð smástund að vinna úr opnum svörum og á örugglega eftir að vinna betur úr hluta þeirra. Ein spurning hljómaði: Hvað er það helst varðandi vinnutíma og vinnuaðstæður sem þér þykir erfitt, nefndu 3-5 atriði? Henni svöruðu 300 manns og skrifuðu að meðaltali 25 orð. Svörin við spurningunni flokkaði ég í nokkra flokka, sem síðan sumir hafa undirflokka. Þeir flokkar sem ég geri grein fyrir í þessari færslu eru; BörninUndirbúningur, Vinnuaðstaða í undirbúningYtri  kröfur,  Virðingarleysi,  Starfsmannamál.

Nokkuð er misjafnt hversu margar undirflokka hver flokkur ber með sér. Ég valdi á þessu stigi ekki að skoða sérstaklega hvort fólk svaraði mismunandi á milli t.d. höfuðborgar, höfuðborgarsvæðið og landsbyggðar, þó vissulega geti það verið áhugavert og vert verkefni fyrir síðari tíma. Hinsvegar leit ég á svörin eftir hópum og þar virðist fólk nokkuð samtaka, sömu atriði varðandi aðstæður og börn birtast í svari fólks óháð starfsheiti.

 Börnin

Hér fyrir neðan eru undirflokkar sem tengjast börnum og starfi með þeim. Það er ljóst að mörg börn í þröngu rými er fólki hugleikið. Þetta þrönga rými hefur og í för með sér áreiti í formi hávaða og þess að ekki er hægt að skipta hópum upp. Sem dæmi nefna um 50% þeirra sem svara spurningunni (300) að of mörg börn í of litlu rými valdi álagi.

Börn

Dæmi

Mörg börn í þröngu rými

„Of mörg börn á svæði, of mörgum börnum “troðið” inn í skólana, mættu vera færri börn á starfsmann og pottþétt færri börn í hóp/á deild, sveitafélög taka of lítið tillit til aðstæðna á hverjum leikskóla fyrir sig, hugsa bara um að koma öllum börnum að.“

Léleg hljóðvist

„Einnig er mikill hávaði og tíð veikindi starfsfólks mikill streituvaldur.“ „Hljóðvist þ.e. vegna fjölda barna er mikill hávaði í leikrýmum“. „Hávaði.“ „Úrvinda þegar heim er komið langar ekki að hafa kveikt a sjónvarpi né útvarpi.“

Langur vistunartími

„Langur vistunartími þreytt börn“ „Of langir dagar hjá börnunum, sem eru stundum örþreytt, of margir í of litlu rými.“ „Viðverutími barna er svo mikill að sum börn eru alveg búin á því í lok vikunnar.“ „Börnin eru yfirleitt lengur í “vinnunni” en starfsfólkið.“

Stuðningur vegna barna á gráu svæði

„Gera ráð fyrir aukastarfsmanni vegna tvítyngdra barna sem hefur fjölgað gífurlega, þau mál eru alls ekki í góðum málum en skiptir gríðarmiklu máli fyrir framtíð barnanna og þjóðfélagsins (sbr læsi allra barna).“ „Stuðningur við börn með mikla hegðunarerfiðleika er nánast enginn.“ „Stundum þarf aukastuðning til að sinna málörvun og fleiru sem börnin þarfnast til að ná að þroskast og dafna“

Stuðningur

„Þau börn sem þurfa stuðning fá hann að skornum skammti.“„Það að börn með stuðning “hætti” að þarfnast stuðnings á ákveðnum tima dags.“„Àlag vegna fjölda barna à starfsmann sem leiðir til þess að erfitt er að mæta börnum sem eru með sérþarfir.“

Efniviður barna

„Skortur á efnivið til að vinna með v/ of lítils fjármagns til leikskóla.“

Undirbúningstímar

Flokknum hef ég valið að skipta í tvennt annar fjallar um undirbúningstímana sjálfa og hinn um vinnuaðstöðu í undirbúningstímum. Hvorutveggja fólki mjög hugleikið. Það er erfitt að vita ekki hvort fæst undirbúningur, hvort deildin er þá undirmönnuð og hvernig tíminn í undirbúning er, vegna bæði truflana vegna aðstöðuleysis og hinsvegar vegna þess að aðbúnaður og rými til undirbúnings býður upp á mikið ónæði og áeiti. Annað sem dregur úr er að víða virðast bæði tölvumál og húsgögn vera í lamasessi. Fáar og seinar tölvur og húsgögn sem ekki er gott að vinna við.

Undirbúningstímar

Dæmi

Fást ekki – langt síðan síðast

„Undirbúningur fellur niður.“„En lítið um undirbúning, enn sem komið er af vetri.“„Óstöðugur undirbúningur.“

Eru fyrstir að víkja þegar er undirmönnun

„Stjórnendur þurfa að virða betur kjarasamningsbundinn undirbúning, það er ekki sjálfsagt að undirbúningur falli niður endalaust.“„Þar sem undirbúningur starfsins er með því fyrsta sem víkur þegar starfsfólk vantar, safnast verkefnin upp og erfitt er að komast yfir þau svo vel sé.“„Maður missir oft undirbúning vegna manneklu.“ „Of lítill undirbúningur sem dettur oft uppfyrir vegna manneklu.“

Truflaðir – sundurslitnir – kallað úr undirbúning

„Skortur á næði í undirbúningi“„Mikill erill í undirbúningsherbergi.“ „Að fá tækifæri til að vinna undirbúning í friði og ró.“„Ónæði, undirbúningsherbergið er alveg við deildina svo maður hleypur oft fram.“„Vöntun á vinnufriði á undirbúningstímum!“„Að ná ekki samfellt öllum undirbúningi, fer tími í að græja sig og frágang. Betra að ná samfelldum tíma þegar ég er að bæta við mig þekkingu t.d. lesa greinar, rannsóknir eða búa til efni og námskrár.“

Óvissa um hvenær næsti undirbúningur fæst

„Það er ekki sjálfsagt að undirbúningur falli niður endalaust.“„Óvissa um hvenær undirbúningur næst.“

Fer fram heima – utan vinnutíma

„Undirbúningur fer fram heima.“„Undirbúning þarf mjög oft að vinna utan vinnutíma. Deildarstj. eins og kennarar þurfa oft að taka vinnu með heim og þá er tíminn sem fer í vinnuna ekki sýnilegur á stimpilklukku.“

Skortur á afleysingu

„Ekki alltaf sem inn kemur afleysing í staðinn.“„Að ekki er gert ráð fyrir afleysingu vegna undirbúnings!“

Samviskubit að fara af deild

„Finnst alltaf erfitt að fara frá deild í undirbúning“„Erfitt að skilja deildina eftir með einni manneskju minna en á að vera vegna undirbúnings.“

 Vinnuaðstaða í undirbúning

Nokkuð algengt er að fólk fjalli um vinnuaðstöðu, bæði inn á deild en ekki síst í undirbúningsherbergi.  Þar kom fram að húsgögn eru úr sér gengin, tölvur gamlar og hægar, nettenging er hæg. Víða eru fáar tölvur þannig að þegar undirbúningur fæst er ekki víst að viðkomandi komist í tölvu. Hljóðvist og vinnuaðstað slæm, sumstaðar eru undirbúningsherbergi hluti af kaffistofu starfsfólks og annarstaðar hafa þau verið tekin fyrir sérkennslu sem þá gengur fyrir um not. Almennt kvartar fólk yfir miklum truflunum og umgangi í vinnurými sem ætlað er til undirbúnings.

 Virðingarleysi

Margir upplifa það sem ég hef valið að nefna virðingarleysi sem hluta af álagi. Virðingarleysi hefur ýmsar birtingarmyndir. auknar kröfur, sem koma að ofan án þess að bjargir fylgi. Virðingarleysi innan leikskólans frá samstarfsfólki og yfirmönnum. Virðingarleysi sem birtist í skorti á fagfólki og þátt yfirvalda, sem ekki taka málið nógu alvarlega eða föstum tökum.

Virðingarleysi

Dæmi

Skilningsleysi utan frá

„Það vantar líka oft upp á skilning menntamálayfirvalda á því um hvað starfið okkar snýst og hvernig börn læra og þroskast. Mér finnst leikskólakennarar stöðugt þurfa að vera í harðri varnarstöðu fyrir frjálsan leik sem mikilvægustu námsleiðina.“

Innan veggja leikskólans

„Að við erum háð fólki í vinnu sem ætti ekki að vinna með börnum en er að því samt að eigin vali en er óánægt og stundar míkrópólitík.“„Hvað nauðsynlegur réttur kennara til kaffi- og matartíma er talaður niður sem neikvæður þáttur í leikskólastarfinu.“„Sama rými notað fyrir sérkennslu og undirbúning starfsfólk.“
„Undirbúningstímar teknir af ef eitthvað annað kallar á.“„Veikindi hjá fólki sem nennir ekki að vinna“„Starfsfólk sem kann ekki að umgangast eða tala við börn.“„Þegar maður fær afleysingu en afleysingin þekkir ekki börnin.“

Skortur á fagfólki

„Mjög alvarleg fáliðun í okkar stétt miðað við lögin. Þetta þarf að skoða og greina og laga, án tafar. Stjórnvöld þurfa að fá skýr skilaboð frá okkur, um hversu mikilvæg og hversu verðmæt okkar störf eru í því samfélagi sem við búum í. Við eigum ekki að samþykkja að hlaupa alltaf hraðar og róa endalausan lífróður.“„Hræðsla við að viðurkenna að allir sem vinna með börnum eiga að hafa uppeldismenntun.“

 Auknar kröfur – nýliðaþjálfun

Nýjar námskrár, nýjar áherslur í starfi, sérverkefni, sérstakir dagar um eitt og annað, upplifa margir sem auknar kröfur ofan á það sem fyrir er. Öðrum finnst foreldrar vera kröfuharðir. Síðasti flokkurinn í þessu lið nefni ég hins vegar nýliðaþjálfun. En sá þáttur hefur orðið sífellt meira áberandi og gerir mörgum erfitt fyrir í starfi. Það veldur álagi að vera að eltast við skottið á sér, koma nýju og nýju fólki inn í störf. Vera oft með starfið á deildinni á byrjunarreit.

Auknar kröfur

Dæmi

Frá yfirvöldum

„Að margar utanaðkomandi kröfur á verkefni eru ekki í samræmi við það sem hægt er að koma fyrir.“„Kröfur um þátttöku í alls kyns verkefnum og átaksverkefnum sem ákveðin eru af t.d. stjórnvöldum eru í engu samræmi við raunverulegan undirbúningstíma starfsfólks.“„Meiri kröfur en lítill undirbúningstími.“

Foreldra

„Allt of umfangsmiklar skráningar og miðlun upplýsinga hingað og þangað (texti, ljósmyndir, myndbandsupptökur, persónumappa, foreldraviðtöl og fleira) og kröfur um þétta stundaskrá með börnunum á deildinni.“

Nýliðaþjálfun

„Að margir sem ég vinn með vinna í skamman tíma eitt eða tvö ár og það er alltaf verið að byrja svo mikið uppá nýtt til að nýliðarnir nái vagninum.“„Stanslaus nýliðaþjálfun- lítil tími til sérhæfingar.“„Að vera sífellt að leiðsegja nýju fólki s.s. að aðlaga fólk og kenna starfið. Eitthvað sem ég hafði alltaf mikla ánægju af þegar það gerðist sjaldnar en 5 sinnum á ári. Nú er þetta í hverjum mánuði.“„Stöðug þjálfun nýs starfsfólks.“„Enginn tími til að leiðbeina um faglegt starf. Ekki tími fyrir þig til að undirbúa leiðsögn.“„Endalaus nýliðaþjálfun og fer mun meiri timi i starfsfólkið en börnin.“

 

 Binding í starfi

Það var nokkuð algengt að minnst væri á erfiðleika við að vera fastur inn á deild. Að vinnutími væri ósveigjanlegur og félli oft illa að fjölskyldum. Kaffitímar og matartímar eru fólki líka hugleiknir, t.d. kom fram hjá einum þátttakenda að fyrsta pása á deginum væri ekki fyrr en kl 13.20.

Binding

Dæmi

Vinnutími viðvera

„Lítill sveigjanleiki vinnutíma, aukið álag vegna ónógrar afleysingar, löng viðvera.“„Vinnudagurinn of langur.  Ein pása yfir daginn.“„ Vantar veikindaafleysingu. Vantar undirbúningsafleysingu.“„Of mörg börn á deildum og í hópum. Vantar pásur til þess að ná að anda.“

Sveigjanleiki

„Lítill sveigjanleiki vinnutíma, aukið álag v ónógrar afleysingar, löng viðvera/kennsla.“

Kaffi/matur

„Lítið rými til að hvílast aðeins og fá td matarhlé.“„Undirmönnun í kaffitímum“

 

Starfsmannamál

Skortur á fagfólki og almenn mannekla kemur fram sem álagsþáttur hjá mjög mörgum svarendum. Að sjálfsögðu helst það í hendur við flokkinn hér að ofan þar sem fjallað er um nýliðaþjálfun. Starfsmannamálin eru þó meira en mannekla og skortur á fagfólki, þar eru líka flokkar sem snúa að stjórnun, óskýrum mörkum á milli stétta, að fólk sem næstum gangi inn af „götunni“ sé ætlað stór verkefni og svo framvegis.

Starfsfólk

Dæmi

Veikindi og fjarverur

„Álag og mannekla sem kemur niður á starfinu hjá þeim sem eru í vinnu. Vegna þessa þurfum við að hlaupa hraðar og gæði starfsins minnkar“„Aukið álag vegna fjarveru starfsmanna.“

Skortur á samráði

„Að ná samráði við kollega … ræða starfið“

Skortur á fagfólki

„Fátt starfsfólk, sem leiðir til þess að maður er endalaust á hlaupum og meira stressaður. „„Faglegar umræður: of fá tækifæri til þess að tala við aðra menntaða leikskólakennara á faglegum nótum.“„Skortur á fagmenntuðu fólki/hæfu starfsfólki.“„Vöntun á leikskólakennurum.“

Óskýr mörk á milli leikskólakennara og ófaglærðra

„Flatur strúktur, allir eiga að gera allt, of óljósar línur milli þess sem hefur menntun og þess sem hefur hana ekki.“„Að ætlast til að fólk sem ekki hefur uppeldismenntun gangi í sömu störf að jöfnu og þeir sem hafa menntun.“

Mannekla

„Álag vegna manneklu.“
„Skortur á undirbúning vegna manneklu.“„Skortur á góðu starfsfólki, hver sem er fær vinnu á leikskóla.“

Erfitt að vera einn

„Mér þykir erfiðast að vera eini fagaðilinn á deildinni. Of mörg verkefni fyrir vikið.“

Álag á þá sem eru

„Álag, þar sem margir starfsmenn eru í hlutastarfi þá raðast margir starfsmenn fh. en fáir eh.“„Ótryggt starfsfólk.“„Álagið að vera með börnunum í of litlu rými með of mörg börn í rúma 8 tíma á dag 5 daga vikunnar.“

Að eldast í starfi

„Með hækkandi aldri leikskólakennara er mjög erfitt að vera enn í fullu stafi á deild, kennsluafsláttur eða aukin undirbúningstími þyrfti að komast á móts við eldri kennara.“

Óskafyrirkomulag á undirbúningi

Einn þáttur könnunarinnar snéri að því að spyrja um æskilegt fyrirkonulag á undirbúningstímum ef þeir væru t.d. 8 vikulega. Ég gaf upp nokkra lokaðað svarmöguleika og má sjá svörin hér að neðan. Ljóst er að flestir telja að æskilegast væri að hafa undirbúning daglega á eftir vinnu, það kom sterkt fram í svörnum annað, að fólk vildi frekar enda daginn með undirbúning en hefja hann. Vil klára daginn og setja niður verkefni næsta dags. (Smellið ámyndina til að sjá hana stóra)

Slide5

Að lokum var svo opin spurning ef fólk fengi að ráða hvað það teldi sig þurfa í undirbúning og fundarsetur vikulega. Þegar ég var búin að fara yfir hvert einasta svar og taka út meðaltal (ef fólk t.d. svaraði 8-10 tímar, tók ég 9), þá er niðurstaðan 8,8 tímar vikulega.

(Kristín Dýrfjörð, gert í Reykjavík, 26 september 2017)

Viðbót : 2006 og 2013 létu Félög leikskólakennara og Samband íslenskra sveitarfélaga gera afar umfangsmikla kannanir á afstöðu til undirbúningstíma, vinnurýmis og fleira sem ég bara hreinlega vissi ekki af. Margt í þessari könnun rýmar við þær kannanir. Munurinn er hinsvegar að þær eru mun viðameiri og þar er spurt um þætti sem hér koma svör við í opnum spurningum. Sú könnun var og send á vinnunetfang allra leikskólakennara og er því auðvitað áreiðanlegri í alla stað. Það sem könnunin sem er fjallað getur talið sér til tekna er að hér hljóma raddir þeirra sem eru á vettvangi. þeirra eigin orð, sem ég nota til að lýsa aðstæðum.

FYRIR þÁ SEM ÁHUGA HAFA ÞÁ ERU UPPLÝSINGAR SAMANTEKNAR Í PDF SKJALI HÉR:  Álagþættir í starfi leikskólakennara samantekt

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar