Kristin Dýrfjörð

Leikskóli er ekki sama og leikskóli

Nú á sér stað mikil umræða um yngstu börnin og leikskólann. Margir eru þeirrar skoðunar að best sé að lengja foreldraorlof og gefa þannig foreldrum sjálfum kost á að sjá um sín börn fyrstu æviárin. Aðrir telja að það þurfi að byggja fleiri leikskóla sem eru sérhannaðir fyrir yngstu börnin og svo eru sumir sem álíta að því fé sem varið er í að reka leikskóla fyrir yngstu börnin eigi að renna til foreldranna sjálfra í formi einhverskonar heimgreiðslu.

kubbar

Leikur með segulkubba

Allar eru þetta pólitískar og vinnumarkaðstengdar ákvarðanir. Fyrsta valið er auðvitað á hendi ríkis og vinnumarkaðs að semja um og setja lög og fjármagna. Um slíka ákvörðun þarf að ríkja sátt og útfærslan þarf að tryggja jafnrétti í víðum skilningi. Sjálfri finnst mér hún eftirsóknarverð.

Bygging leikskóla fyrir yngstu börnin, og eða að bæta við slíkum deildum í leikskóla er á höndum sveitarfélaga. Á bak við slíkar ákvarðanir eru margar mismunandi forsendur og þarfir sem geta verið mjög mismunandi á milli sveitarfélaga.
Þriðji kosturinn sem er heimgreiðsla er líka á valdi sveitarfélaga. Hún er að mínu mati versta mögulega ákvörðunin. Í mínum huga er leikskólinn ekki bara menntun, hann er líka hluti af barnavernd, hann er jöfnunartæki og stuðningur við marga foreldra. Heimgreiðslur leysa ekki allan vanda og í mörgum tilfellum geta þær ýtt undir og búið til nýjan vanda. Hann getur ýtt undir fátækragildru ákveðinna þjóðfélagshópa og ýtt undir jaðarsetningu og einangrun barna og foreldra. Rannsóknir sýna að börn foreldra með tiltekna félagslega stöðu eru t.d. líklegri til að hafa lélegri málskilning og orðaforða en börn milli- og efristétta. Fyrir þessi börn er leikskólinn mikilvægt jöfnunartæki til framtíðar.

Hvernig leikskólastarf skiptir máli

Rannsóknir sýna hins vegar líka að það skipti máli hvernig starfið í leikskólanum er til þess að hann virki sem jöfnunartæki. Í nýlegri rannsókn í Bandaríkjunum kom í ljós að börn sem byrjuðu í leikskóla 4 ára (í tilteknu prógrammi í einu fylki) stóðu ekki betur en börn sem byrjuðu beint í grunnskóla (Gray, 2022; Weiland, og fl. 2022). Þegar farið var að skoða málið betur koma í ljós að leikskólarnir sem um ræðir byggðu á því sem kallað hefur verið akademískum vinnubrögðum þar sem börn sátu lengi við borð og leystu verkefni, en leik var gefinn lítill gaumur og tími. Eitthvað sem því miður er ekki óalgengt þar og rannsóknir hafa sýnt að hefur aukist mikið á undaförnum tveimur áratugum eða svo. Í annarri rannsókn (Miller og Saenz, 2021) sem ég var að lesa er fjallað um vísindanám barna, þar var nám barna í 4 ólíkum leikskólum borið saman og niðurstaðan, leikskóli sem byggði á sjálfsprottnum leik og löngum leiktíma barna kom best út varðandi nám barna á svið náttúruvísinda. Þannig að það hvernig leikskólinn sem um ræðir er skiptir miklu máli.

Í rannsókn þeirra Miller og Saenz (2021) kemur fram að leikur sé nauðsynlegur þáttur í námi ungra barna. En til þess að börn læri og þroskist í gegn um leik þurfa þau aðgengi að tíma, góðu rými, efnivið og uppeldisfræðilegri sýn sem styður við leik. Flestir leikskólar bjóða upp leik, en samkvæmt þessari rannsókn er misskipt í hvaða hlutverki leikurinn er og trú fólks á honum.

Að lokum

Ég viðurkenni skort á fagfólki í leikskólum, enda ekki annað hægt. Ég held hins vegar að það sé hægt vinna með starfsþróun þeirra sem starfa í leikskólum, að hlutverk þess fagfólks sem þar er sé að leiða, mennta og fræða samstarfsfólkið. Að átta sig á að lítil börn lifa í núinu og þurfa fólk sem sinnir þörfum þeirra af bestu mögulegu þekkingu og mannkærleika. Þannig, meðal annar sköpum við leikskóla sem skipta máli fyrir okkar yngstu borgara.

Stuðst við:

Gray, P. (31. janúar 2022). Research Reveals Long-Term Harm of State Pre-K Program: In this first-ever controlled study of public pre-K, the control group did best. Psychology today. https://www.psychologytoday.com/intl/blog/freedom-learn/202201/research-reveals-long-term-harm-state-pre-k-program?fbclid=IwAR2lovUA32GXnTZpSpjoRA8ajrhU3Wrraex0OuGqLuiFPLAmt6GjD02sQHQ
Miller, R. A. og Saenz L. P.(2021). Exploring relationships between playspaces, pedagogy, and preschoolers’ play-based science and engineering practices. Journal of Childhood, Education & 2(3), 314-337. https://www.j-ces.com/index.php/jces/article/view/121
Weiland,C., Bassok, D. Phillips, D.A., Cascio, E.U. Gibbs, C. and Stipek, D. (10. febrúar 2022). What does the Tennessee pre-K study really tell us about public preschool programs? https://www.brookings.edu/blog/brown-center-chalkboard/2022/02/10/what-does-the-tennessee-pre-k-study-really-tell-us-about-public-preschool-programs/

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar