Kristin Dýrfjörð

Sögusteinar

sögusteinar í kassa. Á ferð minni um netið hef ég rekist á margar skemmtilegar hugmyndir til að vinna með í leikskólum og/eða heima. Ein þeirra hugmynda sem ég sé víða getið þessa daga er sögusteinar. Sögusteinar eru bara venjulegir steinar sem fólk málar einfaldar myndir á, akrýlmálning virðist gefast vel, Aðrir hafa sett klippimyndir og tau á þá. Sumstaðar eru taupokar (söguskjóður)  notaðir og steinarnir geymdir í, stundum eru það körfur, stundum eitthvað annað.

Hvernig

Það er hægt að setja ákveðna steina markvisst fram, en líka er hægt að byrja söguna með því að draga stein úr skjóðu. Steinarnir eru þá notaðir sem kveikjur að sögum og sem vörður á sagnarleiðinni. Þeir verða stuðningur barnanna þegar þau semja eigin sögur því þeir geta ýtt undir og leitt söguna áfram. Sumir vilja bara hafa myndir af raunverulegum hlutum aðrir vilja líka mála ímyndaða hluti eins og töfrasprota eða álfavængi, já eða töfrasteina. Ég hef ekki útbúið sögusteina en ætla að prófa á næstunni. Það verður verulega áhugavert að reyna þá bæði út í leikskóla og svo með börnunum í fjölskyldunni.

Markmið

Markmiðið er m.a. að efla ímyndunarafl og skapandi hugsun hjá börnum. Að sjá möguleika og tengja saman ólíka hluti. Ég sé fyrir mér að með eldri börnum sé hægt að mála bókstafi og tengiorð – ef ég dreg t.d. stein með bókstafnum A verða allar söguhetjur að hafa A í nafninu sínu eða … já ég sé ótal möguleika til að leika mér. Ég held að það sé ágætis hugmynd að tengja sögusteina við gönguferðir, leita að sérstökum steinum til að mála á, eða biðja börn og fjölskyldur þeirra að huga að því. Hvert barn gæti t.d.  komið með þrjá steina úr sumarfríinu sem fer í söguskjóðuna. Í barnahópnum er hægt að ræða um myndirnar og velja saman tákn til að mála.

Að safna steinum

Í mörgum fjölskyldum er steinum safnað. Á þá er jafnvel skrifuð dagsetning og staðarnöfn. Þeirra hlutverk er að segja sögu og varðveita minningar. Steinar og sögur eru líka hluti af menningu okkar. Sjálf er ég alin upp við söguna af Drangey – tröllkerlinguna og tröllkarlinn sem voru á leið yfir Skagafjörð með kúnna þegar sólin kom upp og þau urðu öll að steinum.

Að semja sögur

Eitt af því sem ég geri mikið af er að semja sögur fyrir háttinn. Stundum byggi ég þær á þekktum ævintýrum en set á minn snúning. Breyti hlutverkum og jafnvel að ég skelli saman minnum úr fleiri en einni sögu. Sjálf man ég nú ekki alltaf hvaða snúninga ég set á sögurnar en á mér ungan hjálparsvein sem man mjög vel fyrir mig. Ég tel sögusteina falla vel að þessari sagnahefð minni og meira að segja nokkuð líklegt að þeir stuðluðu að því að ég muni mínar eigin sögur. Vinsælasta sagan þessa daga er um hann Bláhatt sem þarf að bjarga afa sínum um matarbita. Hann tínir ekki blóm en stundum sveppi og köngla og svona. Afinn í sögunni er bæði brögðóttur og snar og sér við ljóta úlfinum.

Litil uppdiktuð dæmisaga ´- Fótspor

Upp úr söguskjóðunni dreg ég stein með fótspori.  Hefst sagan:

Á dimmu vetrardegi var Sigga ein að leika í garðinum heima hjá sér, henni var litið niður í dimma moldina í blómabeðinu og sá þar móta fyrir fótspori. Þetta var ekkert venjulegt fótspor og Sigga hafði aldrei áður sér svona fótspor. Sigga velti fyrir sér hver hefði skilið það eftir og hvort hún gæti kannski fundið fleiri. Hún lagðist niður á fjóra fætur og rýndi í jörðina. Hana vantaði sárlega vasaljós. …

Tenglar á sögusteina eru hér og hér og svo HÉR og fleiri og fleiri stöðum.

 Hér er fjallað um frekari þróun á notkun sögusteina hjá sjálfri mér

Tags: , , , , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar