Kristin Dýrfjörð

Foreldrar spyrja börn

Sigga Vala tók myndinaNýlega heimsótti ég leikskóla í Óðinsvéum. Hitti þar meðal annars fólk sem vinnur í ráðgjöf og yfirstjórn. Tilgangur ferðarinnar var að funda um verkefni sem Skagafjörður og Óðinsvé eru að leggja saman að stað í. Það var margt sem vakti athygli mína. Meðal annars eru yfirvöld að þróa þátttöku barna í mati á starfi leikskólanna. Leggja þau spurningalista á netinu fyrir tvo elstu árgangana í leikskólunum. Börnin svara heima með foreldrum sínum. Samkvæmt því sem við heyrðum hefur þetta leitt til að foreldrar hafa öðlast nýja sýn á starfið – þeir hafa eignast sameiginlegan grundvöll til að ræða starfið við börnin.

Það er ekki óalgengt að foreldrar sem spyrja börnin hvað þau hafa verið að gera í leikskólanum fái hið sígilda svar, leika. En hvað merkir að leika? Við segjum að í leikskólum læri börn í gegn um leik. Að leikurinn sé námsleið barnsins. En ef satt skal segja, þá er leikur og leikur ekki endilega það sama í hugum margra leikskólakennara. Auðvitað læra börn t.d. ýmislegt í gegn um alla vega borðleiki (spil t.d.) en við leikskólafólk, en ef börn sætu og spiluðu allan daginn þætti okkur þau ekki vera að leika sér. Við setjum iðulega aðra tegund leiks ofar öllu og það er ímyndunarleikur barna, úti og inni. Við teljum líka mörg að starfsfólk eigi að vera þátttakendur í leik barna að ákveðnu marki. Hvort það er raunin er svo önnur saga. Á meðal þess sem foreldrar spyrja börnin í Óðinsvéum er einmitt þátttaka í leik.

Fjölmargir leikskólar (hér og erlendis) hafa aðgengilegar skráningar og myndir úr starfinu. Þær gefa foreldrum hugmynd um hvað gerist innan veggja leikskólans. En það eru fleiri leiðir færar.  Hluti af þeim spurningum sem foreldrarnir í Óðinsvéum fara í gegn um með börnum sínum gefa enn aðra mynd. Þeir spyrja t.d. við hvern barnið leikur sér, hvort það geti sjálft, nálgast efnivið og bækur. Hvort einhver huggi það ef það meiðir sig.  Hvort leikskólakennarar leiki við börnin, hvaða leiki þá helst. Svörin nýtast vonandi bæði leikskólanum og foreldrum og leiða á endanum vonandi til betra starfs.

Að lokum samkvæmt nýju aðalnámskránni á að tryggja aðkomu barna að m.a. mati og námskrágerð. Ég held að leiðin sem farin er í Óðinsvéum geti líka gagnast íslenskum leikskólum.

Tags: , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar