Kristin Dýrfjörð

Viðurkennd stærðfræði

SAM_0151

Börn nálgast viðfangsefni í umhverfi sínu á mismunandi hátt, tilhneigingar þeirra til náms eru ólíkar og birtast á ólíkan hátt. Dæmi um það er hvernig þau nálgast stærðfræði. Sum börn nálgast hana á hátt sem okkur fullorðna fólkinu finnst í raun vera „stærðfræði“ á meðan að önnur nálgast hana í gegn um leik og sköpun. Í pistlinum ælta ég að segja sögu af tveimur telpum og nálgun þeirra á stærðfræði.

Akademísk nálgun

Ég þekki tvær telpur önnur er nýorðin fjögurra ára og henni finnst gaman að reikna. Hún er orðin nokkuð fær í hugareikning ef tölurnar eru upp í svona 12 -14, þá getur hún lagt saman, dregið frá og skipt í t.d. þrennt. Hún þarf ekki að telja punktana á teninginum þegar hún er að spila, hún sér fimm punkta og veit að það er fimm og hún þekkir töluna fimm og getur hlutbundið hana. Hún er líka fær í að para saman og ákveða hvaða tala sé stærri eða minni. (Ef mamma á 5 bíla en þú 3, hvor á þá fleiri bíla er t.d. dæmigerð spurning, önnur er hvort er meira 7 eða 9). Reikningur liggur sem sagt nokkuð vel við þessari telpu – en getur verið að hún hafi áhuga á tölum af því að hún fær athygli fyrir að vera „góð“ að pæla í þeim eða … þarf að fara saman einhver innri hvöt (tilhneiging) og ytri skilyrði?

 Stærðfræði og sköpun

Hin telpan sem er ári eldri, hún virðist ekki hafa sama áhuga á stærðfræði. Hún virðist ekki upptekin við að telja, reikna, para saman og áætla. En merkir það að hún sé með minni áhuga á stærðfræði? Eldri telpan er upptekin af myndlist. Hún teiknar eins og vindurinn, mjög flóknar teikningar með ótal smáatriðum (sem fullorðna fólkinu í umhverfi hennar finnast stórkostlegar). En meðal þess sem hún er upptekin af eru samhverfur (annað stærðfræðihugtak), hlutföll (líka stærðfræði) og fjöldi (putta, glugga krónblaða). Hún er sem sagt að vinna með stærðfræði á allt annan máta en yngri telpan.

… og hvað með það?

Ég hinsvegar velti fyrir mér hvað gerir það að verkum að þessar tvær telpur nálgast efnið á jafn ólíkan hátt? Er það eðilslægt – háð umhverfi og áhuga þeirra sem þar eru eða er þetta blanda að hvorutveggja (og jafnvel enn fleiri þáttum)? Það má líka velta fyrir sér hvor hátturinn skyldi vera viðurkenndari af þeim skólum sem þær eiga eftir að sækja á lífsleiðinni? Á önnur þeirra eftir að upplifa að hennar tilhneigingar til náms sé viðurkennd á meðan hin á eftir að finna að hennar háttur sér „aukagrein“.  Eitthvað til að dást að en ekki talið skipta máli í skólasamhengi?.

Öguð og þæg

Víða um lönd er metið hvort börn séu „tilbúin“ fyrir grunnskóla, hluti af því að vera tilbúin er að þekkja stafi og tölur. Hafa undirstöðu í því sem við köllum gjarnan akademískir þættir menntunar. Minna er lögð áhersla á að börn kunni að leika sér ,vera góð við önnur börn, sýna umhyggju og tillitssemi. Sýna samhjálpi í verki.  Að vera skapandi og nálgast viðfangsefnið frá því sjónarhorni hefur heldur ekki átt upp á pallborðið. Öguð og þæg börn (þægileg börn) sem eiga auðvelt með að fylgja hópnum og hugsa svolítið eins og hópurinn eru hinsvegar eftirsótt.

Prófin sem við notum

Þau próf sem notuð eru til að meta hversu börn eru tilbúin fyrir grunnskólann eru flest hönnuð með áherslur á hina akademísku þætti, hversu marga bókstafi kunna börn, hvernig er skilningur þeirra á tölum, hvað kunna þau sem telst til almennrar þekkingar? Rannsóknir sýna að börn eru talin á hátindi sköpunar sinnar rétt áður en þau hefja grunnskólagöngu og að sköpun (eins og hún er mæld í rannsóknum) hefur almennt farið aftur. Fólk er almennt minna skapandi nú en áður. (1)

Sköpun eða akademía

Nú ætla ég ekki að segja að þetta geti ekki farið saman,  sköpun og akademísk nálgun. Hinsvegar  er gott að benda á að það sem við veitum athygli það á til að þróast, börn sem fá athygli fyrir að standa vel á þeim mælikvörðum sem flokkast undir „tilbúin“ fyrir áherslur grunnskólans þeim á sennilega eftir að farnast betur í því kerfi en börnum sem eru að nálgast viðfangsefnið á eigin forsendum í eigin heimi, sem við því miður skiljum ekki alltaf.

og svo er það spurning um bakgrunn foreldra

Svo er það hin hliðin, hinn félagslegi bakgrunnur og menntun foreldra. Hver er hinn félagslegi arfur? Hvaða áhrif hefur hann? Hvaða áhrif hefur það að sumir foreldrar kunna leikinn miklu betur en aðrir, hafa bæði menntun og fjárhag sem gerir þeim kleift að tryggja eigin barni sæti í fremstu röð í skólum landsins?

Heimild

1. Kim, K. H. (2006). Can We Trust Creativity Tests? A Review of the Torrance Tests of       Creative Thinking (TTCT). Creativity Research Journal. 18(1), 3—14.      http://www.tandfonline.com/doi/abs/10.1207/s15326934crj1801_2

Tags: , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar