Kristin Dýrfjörð

Borðið, magnarinn, reipið – myndlíkingar til að ræða um leikskóla

Kristín Dýrfjörð (2016)

Flestir sem vinna að málefnum barna finnst eftirsóknarvert að koma sem mestum og bestum upplýsingum á framfæri við foreldra. Það er hluti af því að fólk átti sig á mikilvægi gæða leikskóla og verði til að það sækist eftir og styðji við slíka leikskóla. Rannsóknir í Ástralíu hafa sýnt fram á að leikskólafólk og aðrir sem starfa að málefnum ungra barna eru ekkert alltaf mjög klárir í að koma upplýsingum á framfæri.

Í viðamikilli rannsókn sem gerð var  á vegum The Centre for Community Child Health í Ástralíu, kom í ljós að það var heilmikið gap á milli þess sem  sérfræðingar vissu um börn og þess sem hinn almenni borgari taldi. Sem dæmi þá telur stór hluti foreldra aðalhlutverk leikskóla vera að sjá til þess að börn fái gæslu í öruggu umhverfi á meðan þeir sinna vinnu sinni. Leikskólakennarar líta hinsvegar fyrst og fremst á leikskólann sem stað þar sem börn þroskast og dafna á. Þessi rannsókn fékk fólk til að íhuga hvers vegna erum við „sérfræðingarnir“ ekki betri í að koma upplýsingum byggðum á rannsóknum á framfæri við foreldra. Hvar stendur hnífurinn í kúnni?

Hluti af vandamálinu er að koma upplýsingum á framfæri á mannamáli, sérfræðingar eru oft dálítið uppteknir af fagmálinu. Fyrir áratugum síðan fórum við hjónin með barnið okkar til sérfræðings sem spurði um eitt og annað. Ein spurningin var, „skreið hann krossað?“ – af því að ég er leikskólakennari og hafði lesið um hreyfifærni barna í náminu mínu vissi ég um hvað verið var að spyrja. Maðurinn minn (sem þó hafði sína háskólamenntun á sviði félagsvísinda) horfði bara á manninn og vissi ekkert um hvað spurningin snerist. Ég nota þetta atvik oft til að koma á framfæri við leikskólakennaranema hvað það skipti miklu að við tölum mál sem allir skilja. Fagmál, getur staðið í foreldrum.

Í Ástralíu stóð fólk frammi fyrir sama vandamáli, að eiga erfitt með að koma mikilvægum upplýsingum til foreldra á mannamáli.  Miðstöð barnarannsókna; The Centre for Community Child Health, þróaði þá verkfærakassa sem á að hjálpa fagfólki. Þeir tóku nokkur lykilatriði er varða velferð og þroska barna og pökkuðu inn í myndlíkingar sem þeir reyndar líka útbjuggu myndaspjöld til að hjálpa fagfólki til að muna. Ástralarnir rannsökuðu líka hvaða myndlíkingar höfðuðu til landa sinna, þeir töldu mikilvægt að þær hefðu menningarlega tilvísun þannig að fólk skyldi og tengdi við þær.

Tölum mannamál

Eitt af því sem þeir bentu á er tilhneiging fagfólks til að tala fagmál við foreldra, tala vísindamál, kannski af því að viðkomandi telur sig svo faglegan með því. Sem dæmi mætti nefna; hljóðkerfisvitund, hljóðeyðing, hljóðtenging, umskráning? Ég hef heyrt leikskólakennara segja foreldri að barnið sé svo lélegt í umskráningu, en hvað merkja þessi orð fyrir foreldrum? Þetta eru sérhæfð hugtök sem tengist máltöku og lestrarfræðum er víst að foreldrar átti sig á því?

Ef hægt er að upplýsa foreldra (og kannski í leiðinni ungt fólk sem starfar í leikskólum landsins) um leiðir til að ræða fræði á merkingabæran hátt, væri það ekki eitthvað sem væri vert að pæla í? Sem dæmi þá segja vísindin að börn læri í gangvirkum samskiptum við umhverfi sitt og það fólk sem þar er. Að börn í raun nýti sér þekkingu hinna fullorðnu til að móta sér sína eigin. Og þrátt fyrir að við vitum að börn eru fædd með færni til að læra, þá gerist það ekki sjálfkrafa. Þau þurfa  örvun, áskoranir og athygli. Þau þurfa fólk sem hefur áhuga á þeim og því sem þau eru að fást við. En hvernig komum við þessum að okkur finnst sjálfsögðu sannindum á framfæri?

Af hverju skiptir þetta máli

Í Ástralíu er um 1 af hverjum 5 börnum það sem kalla mætti viðkvæm eða í áhættuhóp er varðar þroska. Hérlendis eru þetta svipaðar tölur, borgin lét gera könnun árið 2005 og þar koma í ljós; „að alls voru tæplega 20% nemenda í sérkennslu og sérúrræðum í Reykjavík á ári. Um 14% nemenda voru að meðaltali í almennri sérkennslu, þó misjafnt eftir árgöngum og skólum[i].“ Þannig að þegar upp er staðið erum við ekki svo ólík andfætlingum okkar. Og eins og hér hefur fólk þar áhyggjur af hvernig þessum börnum reiðir af í framtíðinni, hvort þau séu t.d. í meiri áhættu með ýmsa þætti t.d. að hætta í skóla eða ströggla við námið og eða eiga í fjölþættum vanda síðar á lífsleiðinni. Það er því til mikils að vinna – að hafa góða leikskóla, að fólk skilji mikilvægi þeirra og styðji við þá. Til dæmis með stuðningi við forgangsröðun fjármuna til leikskólans. Að fólk átti sig á mikilvægi þess að þar starfi vel menntað og hæft fólk sem hefur metnað og þekkingu að leiðarljósi.

Málþroski barna – að fara niður á gólf

Meðal þess sem fólk hefur áhyggjur af í Ástralíu er málþroski barna og fagfólk veit að það eru leiðir til að vinna með málþroskann. Meðal þess sem skiptir máli eru gæða samskipti.  Að við hin fullorðnu förum niður á gólf til barnanna, lesum fyrir þau, ræðum innihaldið, syngjum með þeim, segjum þeim sögur, förum með kvæði og þulur. Ræðum við börnin, við hlustum á það sem þau hafa að segja. Hvetjum þau áfram og finnum athafnir sem stuðla að betri bæði fín- og grófhreyfingum. Og viti menn þetta gerist ekki sjálfkrafa ekki einu sinni í leikskólum.

Lestur á undanhaldi

Fyrir um ári síðan gerði Nanna Marteinsdóttir rannsókn í tengslum við meistaraprófsritgerð sína[ii]. Hún skoðið m.a. samverustundir í leikskólum. Ég fékk nett sjokk þegar ég áttaði mig á að það er alls ekki lesið fyrir öll börn í leikskólum daglega. Það er líka merkilegt að það að segja sögur af munni fram virðist samkvæmt hennar niðurstöðum vera á undanhaldi í leikskólum okkar, eitthvað sem einu sinni þótti jafn sjálfsagt og að drekka vatn. Það er líka áhyggjuefni að ekki er lesið daglega fyrir allt að þriðjung leikskólabarna og það sem er lesið er valið hippsum happs, helst að næsta bók úr hillu sé gripin. Lítið er um markvisst val og enn minna um að börnin séu virkir þátttakendur í að velja þær bækur sem lesnar eru. Innihald bókanna virðist líka lítið rætt. Enda oft erfitt að koma því að þar sem hópar í samveru eru gjarnan mjög stórir.  Að eiga í gefandi samræðu við hópinn er svona álíka auðvelt og fyrir prest að eiga í gefandi samræðu við söfnuð úr predikunarstól.

Myndlíkingar – borðið

þrífætt borð

Meðal myndlíkinga sem hafa verið þróaðar er ein um borðið. Hún er notuð til að lýsa geðheilbrigði barna. Stöðuleiki og jafnvægi = geðheilbrigði og vellíðan.

Ef geðheilsu barna er líkt við borð, borð geta verið stöðug eða svolítið völt. Þau geta verið svo völt að ekki er hægt að setja neitt á þau allt rennur af. Sama á við um börn, geðheilsa þeirra er ekkert sem verður bara seinna á lífsleiðinni. Vandamál eiga oft djúpar rætur í bernsku. Ef myndlíkingin um borðið er notuð er ýmislegt sem getur komið í veg fyrir að börn upplifi stöðuleika og jafnvægi í lífinu. Þættir sem hafa áhrif á geðheilsu þeirra. Til að ræða geðheilsu barna út frá borðinu er hægt að taka um hvað gerist þegar einn fótur er fjarlægður af borði. Borðið verður gangslaust, á sama hátt ef börn fá ekki þann stuðning og þann stöðuleika sem þau þurfa í líf sitt getur það leitt til vandamál, lífið verður efiðara. Hvort sem þau þurfa að einbeita sér að viðfangsefni eða hegða sér.

Það er líka hægt að ræða um hversu erfitt það er ef undirlag borðsins er ekki slétt og traust. Eins og þegar börn búa við öryggisleysi í sínu lífi, þar er ekki fólk sem það treystir og getur tengst, slíkt hefur áhrif á geðheilsu barna til lengri eða skemmri tíma.

Og ef borðið brotnar, t.d. af því fótur. Borðið getur ekki lagað sig sjálft. Sama á við um börn, þau geta ekki borið ábyrgð á eigin geðheilsu til þess þurfa þau hjálp og stuðning.

Magnarinn  – reipið – boltinn

Markmiðið með myndlíkingunum er að fjalla um þætti í líf barna á þann hátt að sem flestir skilji. Setja líf þeirra og þroska í daglegt samhengi. Dæmi um myndlíkingar er magnarinn – að góður leikskóli sé eins og magnari sem magni upp það sem fyrir er hjá barninu – geri því kleift að nýta alla hæfileika sína. Magnarinn hefur ekki það hlutverk að bæta við – heldur að styðja og gera það fyrir er skýrt og klárt svo við heyrum.

reipi

Önnur er um reipið, til að reipi sé gott þarf það að vera samofið, þriggja þátta. Hver og einn hluti þarf að vera í jafnvægi við aðra þætti. Í þessu tilfelli er myndlíkingin um reipið notuð til að skýra að til að barna þroskist og dafni verður að huga að vitrænum,  félagslegum og tilfinningalegum þáttum til jafns. Þriðja er um boltaleikinn – það að samskipti eru eins og boltaleikur – það verður einhver að grípa boltann og senda hann (þess vegna skiptir svo miklu að fara á „gólfið“ með börnunum. Vera í samskiptum við þau þar sem þau eru á þeirra forsendum sem þeirra fullorðnu). Boltinn í myndinni er öll tjáning barnsins, í hvaða formi sem hún kemur. Augntilliti, gretta, undrun, óp, öll þau tæki sem börn nota til samskipta eða ósk um samskipti. Börn þurfa að vera í umhverfi sem styður við og ber kennsl á að þau séu þar. Ef það er ekki má búast við að eitthvað fari úrskeiðis og börnin nái ekki að þroskast eins og þau hafa möguleika til.

Á meðal myndlíkinga er heilinn sem arkitektúr, þar sem fjallað er um hvernig heilinn þroskast og hvað er gott fyrir hann og hvað skaðlegt. Til dæmis er rætt um góða og slæma streitu og muninum þar á milli.

Myndlíkingarnar eru ofnar inn í dagleg samskipti og lögð áhersla á að þær séu tamar öllu starfsfólki. Þannig að starfsfólk tali nokkurn veging sama tungumál við foreldra til að skýra hina ýsmu þætti starfsins og hvers vegna þeir eru mikilvægir fyrir þroska barna.

Til að leikskólinn og það sem hann stendur fyrir virki sannfærandi skiptir máli að starfsfólk geti skýrt í hverju starfið felist og að að hafi orðaforða til þess, orðaforða sem er sameiginlegur þeim sem þar starfa, er lýsandi og fær fólk til að átta sig.

Að lokum þá finnst mér þetta áhugaverð nálgun og held að við getum af henni lært alveg heilan helling.

Fyrir ykkur sem viljið lesa meira bendi ég á síðuna http://frameworksinstitute.org/toolkits/australia/

KD – Sumardaginn fyrsta 2016

[i] SÉRKENNSLUKÖNNUN í almennum grunnskólum vorið 2005. http://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_utgefid_efni/serkennslukonnunlokaskyrsla.pdf

[ii] Nanna Marteinsdóttir. (2015). Samverustundir í leikskóla – Lestur, sögur og samræður. Meistaraprófsritgerð við Háskólann á Akureyri.

 

 

Tags: , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar