Kristin Dýrfjörð

Lýðræðisuppeldi og agi og örlítið tengt núvitund

Kristín Dýrfjörð, apríl 2014

Á Íslandi hefur umræða um aga og agavandmál verið vinsæl hjá hverjum samtíma. Þegar horft er til baka virðist sem sömu álitamálin og jafnvel lausnir komi fram aftur og aftur. Börnin eru óhlýðin og fyrtin og öllu siðferði virðist fara aftur. Hver kynslóð telur að sú sem á eftir kemur sé agalausari og ver upp alin en hún sjálf. Stjórnlaus börn og kannski valdalausir foreldrar virðist vera arfurinn okkar dýri.

Ég var eitt sinn að taka til á skrifstofunni minni. Fór þá í gegn um nokkuð af pappírum. Hér áður þá ljósritaði ég oft greinar og bókarkafla sem ég taldi áhugaverða til að nota eða lesa seinna. Megnið af þeim pappír er nú orðið aðgengilegt í stafrænuformi og lítill ávinningur af að geyma. Tekur bara pláss og svo skal viðurkennast að sumt er ekki oft lesið. En stundum þá rekst maður á grein og grein sem maður skilur svo vel að hafa geymt. Eina slíka fann ég einmitt nýlega. Það er bókarkafli um Aga úr Mannbótum eftir Steingrím Arason, fyrsta formann Sumargjafar, en það er félagið sem stofnaði fyrstu leikskóla borgarinnar af miklum metnaði og framsýni og síðar Fóstruskóla Sumargjafar. Steingrímur var vel menntaður og framsýnn þó hann ætti líka til að vera forpokaður á okkar mælikvarða. Steingrímur fylgdist vel með straumum og stefnum í alþjóðaheiminum og má sjá trú hans á vísindi og vísindastjórnun birtast í skrifum hans. En fyrst og fremst var hann skólamaður með einlægan áhuga á að bæta skólastarf og aðstæður barna.

Kaflinn sem ég fann fjallar um hugmyndir hans um aga og hvernig hægt er að ná honum fram með tilteknum vinnuaðferðum í skólum. Hann tengir t.d. saman umræðuna um; aga og lýðræði, aga og siðfræði og aga og umhverfi. Skilur t.d. ekki tilgangs snauðs umhverfis, líkir því við fangelsi.

Steingrímur var lipur penni og mikið í mun að fræða og koma með góð ráð. Hann var einlægur í trú sinni á mannlegar aðferðir í uppeldi og ræðir um börn sem borgara í skrifum sínum. Í dag tölum við um lýðræðislegt uppeldi, en Steingrímur ritaði um lýðveldisuppeldi, enda íslenska lýðveldið rétt nýstofnað þegar hann ritar eftirfarandi texta.

Lýðveldisuppeldi þarf að stefna að því að ala upp sjálfstæða, hugsandi, þjóðfélagsborgara. Uppeldið þarf að stefna að því þeir eignist þær siðferðishugsjónir sem sameiginlegar hafa verið hinum mestu og beztu andans leiðtogum allra tíma, og venjist ungir á að lifa samkvæmt þeim. Megintakmark alls uppeldis ætti að ver það að hver borgari læri að vera þeim hugsjónum trúr og hlýðinn.

Hann ræðir síðan um yfirboðara eða þjóðir þar sem það teldist til dyggða að óhlýðnast og um hversu slæmt það er þegar í uppeldi er lögð áhersla á temja börnum að hlýða fljótt og skilyrðislaust valdboði annars manns. Hann bendir á að það hafi leitt til falls heilu þjóðanna, þar sem skaðræðismenn hafa náð yfirhöndinni. Afleiðingin er að fólkið verður auðvelt herfang lýðskrumara og slunginna fjárplógamanna.

Steingrímur bendir á mikilvægi þess að kennarar skýri hversvegna þeir vilji að hlutir séu gerðir og að þeir leitist við að vekja áhuga hjá börnum. Með því hefur kennarinn fengið barnið til að hlýða en það sem meira er að hans mati. Kennarinn „hefur stofnað til þeirrar venju [hjá barninu] að hugsa sjálfstætt og stjórna sér sjálfur.“ (Í dag ræðum við um valdeflingu og mikilvægi hennar) Hann ræðir svo um hversu slæmt það er þegar í uppeldinu er beitt ógnunum og hótunum, þegar barnið hefur t.d. áhuga á að vera að gera annað en kennarinn vill og hann þá; „kippir því úr starfi, þar sem það var upptekið af áhuga og dregur það þangað, sem því er nauðugt að fara. … Með þessu lærist að skoða aflsmun sem hæstarétt í hverju máli.“

Dýrasta arf Íslendinga telur Steingrímur vera róleg íhygli. Telur hann að um það fjöregg þurfi að standa vörð. Hann telur að hlutverk ráðamanna sé að „tryggja hverju barni umhverfi með áhugavekjandi og fjölbreyttum verkefnum.  … til að knýja fram sjálfsaga og atorku.“ Það er líka gaman að geta þess að í dag köllum við þessa rólegu íhygli, núvitud.

Steingrímur telur að á Íslandi hafi viðgengist harðstjórnaragi gangvart börnum sem leiði til einskins nema ills.

Hann vill skóla þar sem börnin eru ekki þolendur, með því á hann við að þau þurfi að sitja kyrr, þegja og taka á móti því sem að þeim er rétt. Í skóla þar sem agi í anda Steingríms ríkir er vinnugleði og börnin fást við raunveruleg verkefni. Þar sem kennarar gera ekki fyrir börnin það sem þau geta sjálf. Kennarinn er verkstjórinn, sem hefur heildasýn og gefur sér tíma til að vita og skilja hvernig hverju barni líður.

Nú er nýútkomin Aðalnámskrá fyrir leikskóla. Margt af því sem Steingrímur var að rita fyrir mannsaldri er enn í fullu gildi og má sjá í aðalnámskrá. Þar er nú heill kafli um þátttöku barna og lýðræði í leikskólastarfi, þar er kafli um áhugasvið og samþætt námssvið í leikskólum. Þar er áhersla á að kennarar ígrundi, ástundi rólega íhygli, við erum e.t.v. búin að bæta inn gagnrýnni íhygli. Við ætlum kennurum tíma til að skoða og skrá, að sjá og skilja hvert barn. Þetta heitir víst einstaklingsmiðun náms.

Steingrímur var undir mjög sterkum áhrifum frá Dewey og má ljóslega sjá það í fleiri ritum hans. Hjá mér er Stjórnbylting á skólasviðinu sem hann ritar 1919 í miklu uppáhaldi. Línurnar hér að neðan eru hluti af upphafi þeirrar greinar og ætla ég að enda þessa færslu um tiltekt á skrifstofunni á henni.

Í baráttunni við þessa örðugleika verður mörgum kennaranum það á, að kefja það bezta í fari barnsins, sem sé áhugann og lífsþróttinn. Verður þá skólastarfið oft fremur tamning en uppeldi, og fræðatroðningur með próf eitt að takmarki. Siðgæðið, sem kept er að, er þá oft ekki annað en að sitja kyrr, þegja, spyrja ekki. Er þessu siðgæði náð með utanaðkomandi þvingun, fremur en innri hvöt barnsins. Fellur svo skólastarfið í þröngar skorður vanans, og fær á sig einkenni dauðans fremur en lífsins. Er þá brýn þörf á nýjum lífsstraumum, nýjum takmörkum til að keppa að, nýjum aðferðum við að nálgast þau og fremur öllu öðru góðri samvinnu.

______________________-

kd skrifaði og örbreytti í april 2014

Tags: , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar