Kristin Dýrfjörð

Grunnþátturinn lýðræði

Erindi flutt á málþingi félags heimspekikennara 13. apríl 2013

forsíðaLýðræði er ekki bara stoð eða þáttur heldur er lýðræði sá grundvöllur sem allt skólastarf hlýtur að verða að byggja á. Sá grundvöllur sem allt starf skóla verður að vera rótarfast í. Fræg er hugleiðing eins mesta hugsuðar menntaheimspekinnar, John Dewey sem velti fyrir sér þeirri þverstæðu sem birtist í að skólar sem á þeim tíma voru meðal ólýðræðislegustu stofnana samfélagasins ættu að standa vörð um og vinna að framgangi lýðræðisins. En þrátt fyrir ýmis vandamál sem tengjast lýðræði og skólastarf er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir að á endanum skipta skólar máli.

Árið 2005 samþykktu Sameinuðu þjóðirnar ályktun um Barnasáttmálann þar sem fjallað er um að sáttmálinn nái til leikskólabarna og að leikskólinn sé mikilvægur til að tryggja börnum réttindi sín. Sérstaklega fjallaði nefndin um rétt barna til eigin skoðana og hugmynda. Að börn ættu kröfu til að á þau væri hlustað og hugmyndir þeirra teknar alvarlega. Ályktunin styður við þau vinnubrögð að börn eigi að vera þátttakendur í bæði mati og námskrárgerð. Gengið er út frá því að börn séu álitin hæfileikarík og full getu til að takast á við það flókna verkefni að móta eigið sjálf.

Lýðræðislegir samtímaskólar

Osler og Starkey (2005) hafa gert tilraun til að lýsa lýðræðislegum samtímaskóla. Þau telja lýðræðislegan skóla bjóða upp á tækifæri til mikilla samskipta og samvinnu. Í slíkum skóla er áhersla á mannréttindi og jafnrétti ofin inn í daglegar athafnir og reynslu. Þar er fólk ábyrgt gagnvart og fyrir hvort öðru jafnt sem sjálfu sér. Leið til að lýsa slíkum skóla er að það sé skóli í mótun, sé skóli sem er tilbúin til þess að skilgreina sig aftur og aftur. Skóli sem er tilbúin að endurnýja sig í samræmi við nýjar hugmyndir, menningu og samfélagið sem hann er hluti af. En sem gerir það á grundvelli mannréttinda og jafnrar stöðu allra og gegn mismunun. Þetta er skóli sem er tilbúin til að líta á börnin, foreldrana, kennara og samfélagið sem heild en ekki sem sundurleit brot. Skóli sem starfar í anda Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem börn eru þátttakendur í að móta námskrána, skóli sem er næmur gagnvart eigin menningu barnanna og sjónarhorni þeirra.

Valdleysi barna

Sumum finnst þetta vera útópísk mynd  og þær raddir heyrast að eðli skólastarfs sé í þá átt að þar sé nauðsynlegt að skólastjórnendur og kennarar hafi ákveðið agavald og þess vegna geti í raun aldrei orðið neitt raunverulegt lýðræði í skólum. Það sé bara skinhelgi að halda því fram. Að vegna þeirrar yfirburðastöðu sem starfsfólk er í gagnvart börnum og ungmennum verði leikurinn ávallt ójafn og því sé e.t.v. best að viðurkenna það strax og tileinka sér vinnubrögð sem kenna um lýðræði en ástunda ekki lýðræði.

Í sjálfu sér er alveg hægt að taka undir hluta þessara raka. Að börn eru í ákveðinni stöðu gagnvart fullorðnum, að fullorðnir hafi völd og svo framvegis. En ef það er gert er verið að horfa til ákaflegra þrönga skilgreininga á hugtakinu lýðræði.

Það er rétt að í skólum eru börn oftar en ekki sett í aðstæður og umhverfi sem þau hafa litla sem enga stjórn á. Fullorðnir taka flestar ákvarðanir fyrir þau. Ólíkt hinum fullorðnu, sem oft geta komið sér hjá eða forðast aðstæður sem þeim finnast óþægilegar, verða börnin sífellt að takast á við þessar aðstæður. Börnin verða líka stöðugt að þróa með sér hæfni til að takast á við og læra af þeim aðstæðum sem þau finna sig í. Barn, sem ekki líkar í leikskólanum/skólanum eða á deildinni/bekknum sem það er í, getur ekki valið að vera á annarri deild eða skipt um leikskóla. Við fullorðna fólkið höfum hins vegar oftast möguleika á að skipta um vinnu ef okkur finnast aðstæður á vinnustað óbærilegar. Barnið nýtur heldur ekki friðhelgi einkalífsins í skólanum. Barnið getur ekki valið að vera eitt með sjálfu sér nema að mjög takmörkuðu leyti þar sem það er nær alltaf undir eftirliti eða í nálægð starfsfólks. En þrátt fyrir þetta er barnið ekki fullkomlega valdalaust því börn skapi sér sinn eigin heim, sitt eigið samhengi innan fullorðinsheimsins og oft er þessi heimur ósýnilegur hinum fullorðna.

Lýðræði er hlustun

Í leikskólanum felst lýðræði í að hlusta. Hlusta með öllum líkamanum á allan líkamann. Ekki bara hin sögðu orð – heldur líka það sem er sett fram í svipbrigðum, í tónum, í myndum, í byggingum, í snertingu og á milli orða. Með því að þróa tæki og tækni, þróa næmni byggða á faglegum forsendum til að hlusta á fjölmargar og fjölbreyttar raddir barna er röddum þeirra gefið rými. Þannig getur óyndi tveggja ára barnsins eða gleði orðið til að styrkja eða breyta starfsháttum. Þannig geta árekstrar eða áhugi orðið til að nýjum efnivið sé bætt við, til þess að nýjar sögur og aðferðir verða til.  Að leggja sig eftir að kynnast börnum, að bera virðingu fyrir hugmyndum þeirra og leik – fyrir þeim tíma sem þau þurfa til að geta kafað í viðfangsefni sín – er hluti af því að ástunda lýðræði í leikskólum.

Lyklar og skráargöt

Stundum þurfum við lykla til að hjálpa okkur að hugsa og framkvæma. Lyklar gegna margvíslegum hlutverkum, þeirra er bæði að opna og að loka. Lyklar nýtast kennurum oft til að opna dyr að nýjum hugsanahætti – geta orðið vegvísir að leið til að sjá starf sitt í öðru og jafnvel nýju ljósi.  Kenningar og fræðileg skrif um t.d. lýðræði geta verið slíkur lykill. Lyklar sem gagnast til að skoða bæði umhverfið og starfshætti.

Það hefur lengst af verið lenska í umræðu á Íslandi að skilgreina hugtakið lýðræði þröngt. Það er ekki fyrr en nú á síðustu árum að einhver alvöru umræða hefur átt sér stað um hvað felist í lýðræðinu. Það var ekki óalgengt að horfa helst til hugmynda um þingræði þegar rætt var um lýðræði en minna gert úr öðrum þáttum þess. Þetta hefur þó breyst og nú er það ekki bara vald meirihlutans yfir minnihlutanum sem rætt er um þegar rætt er um lýðræði. Það eru ýmsir sem skilgreina lýðræði víðar en meirihlutaræði. Á meðal þeirra sem hafa leitast við að setja fram  heildstæð hugmyndakerfi um lýðræði er Marta Nussbaum, sem sett hefur fram kenningu um nauðsynleg skilyrði lýðræðis

Marta Nussbaum

Það er áhugavert að skoða hugmyndir Nussbaum (2000) um það sem hún nefnir kjarna mennskunnar (e. capability approach). Nussbaum telur að hægt sé að setja fram lista með nauðsynlegum skilyrðum um hæfni eða möguleika sem hver manneskja hefur rétt til. Skilyrði sem saman móta það sem nefna mætti kjarna mennskunnar og eru að hennar mati og fleiri undirstaða lýðræðis og réttláts þjóðfélags. Nussbaum bendir jafnframt á að þessi eða slíkir listar um nauðsynleg skilyrði séu og geti ekki verið tæmandi. Ég ætla ekki að gera grein fyrir öllum nauðsynlegum skilyrðum Nussbaum. Fyrst og fremst atriði sem hægt er að tengja starfi leikskóla.

Meðal þess sem Nussbaum telur nauðsynlegt er að hvert manneskja hafi möguleika til að þroska:

 • Skynfæri, hugmyndaflug og hugsun:
 • Að geta nýtt skynfæri sín, til að ímynda sér, hugsa og íhuga – og hafa sannarlega tækifæri til þess á mannlegan hátt sem byggir á fullnægjandi menntun.
 • Að geta nýtt ímyndunarafl og hugsanir í tengslum við reynslu og geta sett reynslu sína fram í verkefnum byggðum á eigin vali.
 • Að hafa möguleika til að leita að merkingu í lífinu á eigin hátt.

Tilfinningar:

 • Að geta tengst hlutum og fólki utan við eigið sjálf.
 • Að geta elskað þá sem bera umhyggju fyrir okkur og annast okkur.
 • Almennt að geta elskað, saknað, syrgt, átt langanir og þrár og sýnt bæði þakklæti og réttláta reiði. Að þurfa ekki að búa við hræðslu og angist.
 • Hagnýt skynsemi: Að búa yfir hugmynd um hið góða og að vera þátttakandi í gagnrýninni ígrundun um eigið líf.

Tengsl:

 • Að geta lifað í sátt og samlyndi við sjálfan sig og aðra. Að sýna öðrum umhyggju, að vera þátttakandi í félagslegum samskiptum, geta sett sig í spor annarra og sýnt þeim samkennd. Að geta auðsýnt bæði réttlæti og vináttu.

Nussbaum telur að samfélagið beri ábyrgð á því að halda utan um og vernda þessa möguleika. Það sé meðal annars gert með því að standa vörð um stofnanir sem hafa framangreind gildi að leiðarljósi. Telja má að flestir leikskólakennarar séu að miklu leyti sammála um hvað einkenni góðan leikskóla. Sennilegt er að sú sýn sem þeir hafa til hvernig góður leikskóli á að vera, sé í stórum dráttum í takt við fyrrgreind skilyrði Nussbaum. En skilyrðin eru fleiri:

 • Að bera virðingu fyrir sjálfum sér og lifa ekki við skömm. Að komið sé fram við þann sem í hlut á af virðingu og jafnrétti.
 • Aðrar tegundir: Að geta lifað í sátt og samlyndi við náttúruna, bæði dýr og plöntur.
 • Leikur: Að geta leikið, hlegið og tekið þátt í endurnærandi athöfnum.

Nussbaum álítur að þegar verið sé að velja vinnubrögð og nálganir fyrir stofnanir samfélagsins, þær stofnanir sem okkur ber að verja og styrkja, verði að gera þá kröfu að þær fullnægi lágmarksréttindum hvers einstaklings til að geta uppfyllt eigin möguleika. Nú er hægt að velta fyrir sér hvort og hvernig leikskólum takist það almennt. Hægt er að spyrja:

Standa allir skólar jafn vel um þau réttindi sem kjarni mennskunnar byggir á? Það er hægt að velta fyrir sér hvaða tækifæri börnum eru búin til að ímynda sér, hugsa og íhuga, að nota ímyndunarafl og hugsanir í tengslum við eigin reynslu.

Er börnum gert kleift að vinna að verkefnum byggðum á eigin reynslu? Eða getur verið að það sé reynsla og val kennara sem ráði mestu um þau verkefni sem unnið er að í leikskólanum á hverjum tíma?

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Heimildir:

Osler, A. og Starkey, H. (2005). Changing citizenship: democracy and
inclusion in education.
Maidenhead: Open University Press

Nussbaum, M. (2000). Women and human development: The capabilities
approach.
Cambridge: Cambridge University Press.

Tags: ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar