Kristin Dýrfjörð

Kaffiheimsóknir foreldra í leikskóla

Kristín Dýrfjörð skrifar

Foreldrasamstarf er hornsteinn í leikskólastarfi og lykilþáttur í vellíðan og námi barna. Þegar foreldrar fá tækifæri til að taka þátt í starfi leikskólans, jafnvel með einföldum hlutum eins og kaffiheimsóknum, skapast sterkara samband milli heimilis og leikskóla. Hér er fjallað um mikilvægi þess að halda í hefðir í tengslum við ýmsa menningartengda daga eins og Sumardaginn fyrsta, 17. júní og já bóndadag og konudag, dagar sem tengjast fornu dagatali og hefðum. Tilefnið færslunnar er að í mörgum leikskólum eru þessi dagar nýttir til að efla samfélag foreldra, barna og starfsfólks auk þess að fjalla um hvers vegn aþeir eru hluti af tímatali okkar og hefðum.

Foreldrasamstarf og dagar sem tengjast sögu og menningu
Leikskólar hafa lengi haft þá hefð að bjóða foreldrum í heimsókn í tilefni ýmissa daga, til dæmis bóndadags og konudags. Þessar hefðir hafa ekki einungis þann tilgang að fagna íslenskri menningu heldur einnig að skapa rými fyrir samveru og samræður. Það skiptir máli að bjóða foreldrum á þessum dögum, ekki bara til að njóta kaffis, heldur einnig til að eiga óformleg samtöl við starfsfólk og aðra foreldra. Börnin upplifa gleði og stolta þegar þau fá að sýna foreldrum sínum hvað þau eru að gera í leikskólanum og að þeir hitti vini þeirra.

Hvers vegna að halda í slíkar hefðir?

  1. Efling tengsla: Kaffihittingar tengdirákveðnum dögum bjóða upp á náttúruleg tækifæri til að byggja upp tengsl. Það er sérstaklega mikilvægt í samfélögum þar sem fjölskyldur koma úr ólíkum menningarheimum.
  2. Menningarvitund barna: Þegar kastljósinu er beint að ákveðnum dögum gefst tækifæri til að kenna börnum um mikilvægi hefða og menningar í leikskólum og í fjölskyldulífi.
  3. Aðgengi feðra: Aðeins um bóndadagskaffi. Saga bóndadags í leikskólum sýnir hvernig hægt er að beina kastljósinu að feðrum (eða öðrum karlmönnum/fólki í lífi barna) sem sérstaklega hér áður voru minna tengdir leikskólastarfinu.

Áskoranir og tækifæri
Eðlilegt er að foreldrar séu oft á tíðum uppteknir í daglegu lífi. Þess vegna þurfa leikskólar að vera sveigjanlegir og hugsa skapandi um hvernig þeir geta gert þessa daga aðgengilega fyrir sem flesta. Það hefur til dæmis verið gert með því bjóða upp á stuttar heimsóknir í morgunsárið eða í lok dagsins.

Til að hugsa um
Foreldrasamstarf er ekki sjálfsagt, það þarf að rækta það og hlúa að því. Dagar tengdir menningu eins og bóndadagur og konudagur bjóða upp á tækifæri til að koma foreldrum og börnum saman á einstakan hátt. Það er hins vegar mikilvægt að starfsfólk leikskóla ræði hvert markmiðið er með þessum dögum og hvernig þeir þjóna hagsmunum barna og fjölskyldna og auðvitað leikskólans. Það er ábyrgð þeirra sem starfa í leikskólum að skapa rými fyrir fjölbreytta samvinnu við foreldra og tryggja að það verði áfram hluti af leikskólamenningunni. Það má vera að breyttar aðstæður kalli á einhverskonar endurskoðun á framkvæmd, en samstarf þarf að vera einn lykilþátta. Að lokum langar mig að benda á að það er líka ábyrgð foreldra að vilja vera í samvinnu við leikskóla og forgangsraða tíma til þess.

Tags:

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar