Kristin Dýrfjörð

Kenningarleg sjónarhorn í leikskólafræðum, Barad og ný- efnishyggja

Kristín Dýrfjörð, skrifar 12. maí 2024

Karen Barad og ný-efnishyggja er aðalviðfangsefni færslunnar. Allt vegna þess að ég hef þessa viku verið að skoða, breyta og umskrifa fyrirlestur um jarðleir í leikskólastarfi. Ég var í raun alls ekkert óánægð með hann, en þar sem ég verð í leyfi frá kennslu næsta haust ákvað ég að taka fyrirlesturnn upp þar sem glæururnar einar og sér standa ekki undir sér. Þegar ég hóf endurskoðunina ákvað ég í leiðinni að breyta fyrirlestrinum og tengja við hugmyndir um hæglæti í leikskólastarfi (e. slow pedagogy), en áður hafði ég meðal annars tengt hann við kenningar Karen Barad um gagnvirk áhrif efnis, umhverfis og barns. Þar sem megináherslan er jarðleir, ákvað ég að taka út umfjöllun um kenningar Barad um hugtakið bylgjubogun í tenglsum við leikskólafræði. En bylgjubogun tengist umfjöllun um það sem hefur stundum verið nefnt ný-efnishyggja (e. new- materialism) og hefur verið nokkuð til umfjöllunar innan leikskólafræða. Hins vegar fannst mér leitt að missa út Barad og ákvað því að búa til sérstakan fyrirlestur um hvernig hægt er að tengja kenningu hennar við leikskólastarf og kannski ég tengi hann líka við ný-efnishyggjuna og hvernig hún gæti birst í leikskólastarfi. Slíkur fyrirlestur gæti staðið einn og raunar verið góð kenningarleg undirstaða fyrir fyrirlesturinn um jarðleirinn.

Karen Barad

En hver er Karen Barad, hún er bandarísk, femíniskur fræðimaður á sviði eðlisfræði, nánar tiltekið skammtafræði, en í dag er hún sennilega mun þekktari fyrir femínískar kenningar sínar. Sem eru nokkuð notaðar í m.a. menntunarfræðum. Í leikskólafræðum hafa fræðikonur eins og Hillevi Lenz Taguchi, Mindy Blaise, Jayne Osgood og Anna Palmer lengi nýtt kenningar hennar. Hér að neðan má finna nokkrar heimildir sem vísa í hvernig þær vísa til og nota kenningar hennar.

Í viðtali við Barad frá 2012 í KVINDER, KØN & FORSKNING (Juelskjær og Schwennesen, 2012) kemur fram að Barad leggur áherslu á mikilvægi þess að vera gagnrýnin á eigin hugmyndir og kenningar og að skoða stöðugt hvernig þær þróast í samspili við aðrar hugmyndir og samfélagslegar aðstæður. Hún kallar þetta ferli „diffractive reading“, þar sem hugmyndir eru skoðaðar í gegnum linsu annarra hugmynda til að sjá hvernig þær skarast og hvernig þær eru í raun innbyrðis háðar. Ekki ólíkt því að skoða ljósgeisla með mismunandi prisma og skoða hvernig ljósið brotnar á ólíkan hátt.

Eitt megin hugtak Barad er: „aðgerðahyggja“ (e. agential realism). Það byggist á þekkingarfræðilegri nálgun þar sem heimurinn er ekki samsettur af einstökum hlutum með eiginlegum mörkum og eiginleikum, heldur fremur fyrirbærum sem eru afleiðing samskipta.Samskpta milli efnis og barns sem dæmi.

Í viðtalinu skoðar Barad hvernig vísindin, og sérstaklega eðlisfræðin, geta haft áhrif á félagsskipan og hvernig hin svokallaða „efnislega vending“ (e. material turn) innan feminískra fræða getur opnað nýjar leiðir til að skilja veruleikann. Hún ræðir um mikilvægi þess að fella saman hugmyndir um efni og merkingu, og hvernig slík samþætting getur dýpkað skilning okkar á samskiptum og áhrifum þeirra. Sem dæmi gæti verið; hvar ljós er staðsett, hvernig geisla varpar það á efniviðinn (samskipti milli ljósgeislans og efnisins), hefur það áhrif á upplifun barns og leikskólakennara af efninu?

Í leikskólafræði gæti efnisleg vending átt við að starfshætti, rýmið sjálft og þá athafnakosti (efnvið) sem þar er og hafa sjálfstæð áhrif á nám og samskipti. Þetta getur leitt til þess að leikskólakennarar skipuleggja rýmið með það í huga hvernig það og hlutir í rýminu spila saman og hvetja til virkrar þátttöku barnanna og hvernig þau geta haft áhrif á námsferlið.

Hugmynd Barad (2009) um bylgjubogun, (e. diffraction) (og notkun kenningar hennar í félagsvísindum)

Sama bylgjan á mismunandi fleti

kemur úr eðlisfræði. Bylgjubogun tekur til þess þegar bylgja t.d. ljós lendir á fyrirstöðu þá hefur fyrirstaðan áhrif á hvernig ljósið ferðast í framhaldið. (Hvernig beygir ljós fyrir horn?). Byggist á að þegar bylgja verður fyrir fyrirstöðu bognar hún og það dreifist úr henni (hvernig, fer m.a. eftir fyrirstöðunni) og það hefur áhrif á þá hluti sem verða fyrir þeim bylgjum.

Innan leikskólafræða hefur verið horft til hugmynda Barad til að skoða samband t.d. umhverfis, efniviðar (e. matrials) og þess leiks/starfs sem skapast. Það er gangkvæm áhrif efnisheims, barnsins, leiksins og þeirra námstækifæra sem skapast eða tapast

Og tengls við leirinn

Ef ég varpa þessum hugmyndum yfir á fyrirlestur um leirinn, er ég í raun að skoða jarðleir sem efnvið í leikskólastarfi út frá mismunandi kenningum og aðferðum, áhrif leirsins á barnið og barnsins á leirinn, á skipulag kennara á námsumhverfi, eigin hegðun og samskipti og svo framvegis.. Fyrirlesturinn veitir aðeins smá innsýn oger ekki tæmandi, en fær kannski einhverja til að hugsa um jarðleir á nýjan hátt.

Fyrirlesturinn minn um leirinn er tilbúinn og upptekinn, en fyrirlesturinn um Barad og ný-efnishyggjuna verð ég örugglega að skrifa næstu daga og vikur. Og kannski á ég eftir að endurskoða það sem ég hef skrifað hér mörgum sinnum, eftir því sem ég hugsa meira um efnið.

Hér eru skrif sem hægt er að skoða um hugmyndir Karen Barad og sum tengjast beint við leikskólafræði:

 • Barad, K. (2012). Nature’s Queer Performativity*. Kvinder, Køn & Forskning, (1-2). https://doi.org/10.7146/kkf.v0i1-2.28067
 • Barad, K. (2007). Meeting the universe halfway: Quantum physics and the entanglement of
 • matter and meaning. Duke University Press.
 • Blaise, Mindy. „Playing it straight: Uncovering gender discourses in the early childhood classroom.“ Routledge, 2005.
 • Blaise, Mindy, and Affrica Taylor. „Queering early childhood studies: Challenging the bio-social partitioning of childhood subjectivities and learning.“ Gender and Education 27.1 (2015): 21-36.
 • Juelskjær, M., & Schwennesen, N. (2012). Intra-active Entanglements – An Interview with Karen Barad. Kvinder, Køn & Forskning, (1-2). https://doi.org/10.7146/kkf.v0i1-2.28068
 • Mohandas, S. & Osgood, J. (2023) Feminist New Materialist Approaches to Childhood Studies. H. Montogomery (ed.) Oxford Bibliographies. Oxford University Press
  (14) (PDF) Feminist New Materialist Approaches to Childhood Studies.
 • Taguchi, Hillevi Lenz. „Going beyond the Theory/Practice Divide in Early Childhood Education: Introducing an Intra-active Pedagogy.“ Routledge, 2010.
 • Palmer, A. (2016). ‘Is this the tallest building in the world?’ A posthuman approach to ethical dilemmas in young children’s learning projects. Global Studies of Childhood, 6(3), 283-298. https://doi.org/10.1177/2043610616665035

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar