Kristin Dýrfjörð

Leikskólinn og félagslega réttlætið

Ljósaborð með perulaga plastskálum og stækkurnagleri

Ég segi stundum að ég hér áður fyrr hafi leikskólakennarar í borginni skipst í tvo hópa, annarsvegar þá sem unnu í leikskólum með hálfdagsbörn gifta fólksins og svo við sem unnum á dagheimilum með börn einstæðra foreldra og námsmanna. Heimur okkar og veruleiki var  um margt ólíkur. Við sem vorum á dagheimilunum upplifðum meira fátækt og erfiðleika á heimilum barnanna en leikskólafólkið. Starfið okkar snérist oft um það sem kalla má félagslegt réttlæti. Að það var leikskólans að tryggja börnum ákveðinn jöfnuð. Sjálf starfaði ég á dagheimili sem mörg börn áttu undir högg að sækja. Leikskólinn var þeirra vin, staðurinn sem þau voru jöfn og þar sem þau fengu ýmsar þarfir uppfylltar sem stundum var erfitt að uppfylla heima. Sum þessara barna bjuggu við skert félagslegt tengslanet og þá greip dagheimilið iðulega inn. Á þessum árum átti ég t.d. í nánu samstarfi við heimilislækna, félagsráðgjafa, sálfræðina og fleiri. Stundum var þvegið af börnunum í leikskólanum og stundum voru þau þrifin. Leikskólastjórar fóru heim til sumra barna og sóttu þau í leikskólann og fóru með foreldrum að versla fatnað á önnur.  Leikskólinn var tæki til að jafna aðstæður barna í borginni og ég held að hann hafi að mörgu leyti gert það vel. Þetta var fyrir tíma hinna mörgu nýbúa.

Fyrsta skólastigið – menntaorðræðan

Þegar dagheimilin urðu að leikskólum, skilgreindust sem fyrsta skólastigið var eins og þetta hlutverk og kannski öllu heldur hugmyndafræði hafi verið skilin eftir. Við fengum námskrár og menntunarorðræðan varð okkar orðræða.  Starfshættir okkar á gömlu leikskólunum féll í gleymskunnar dá. En nú má spyrja hurfu þessi börn við formbreytinguna, urðu aðstæður þeirra allt í einu gullnar? Auðvitað ekki, en sýnileikinn minnkaði, þau féllu inn í hópinn, sum týndust þar.  Hugmyndin um leikskólann sem verkfæri til að tryggja félagslegt réttlæti vék fyrir hugmyndinni um menntastofnun.

Með áherslu á það sem nefnt er velferð barna í nýjum námskám er verið að viðurkenna þetta hlutverk á ný og lyfta því á loft.

Staðið vörð um velferð barna

Nú hef ég haft uppi ýmislegt um aðstæður leikskólakennara hjá borginni til að sinna starfi sínu og það sem mér hefur fundist ákveðin aðför að leikskólanum. Það er ekki sanngjarnt að fjalla bara um það sem miður fer en geta þess ekki sem vel er gert. Um hvað hefur borgin staðið vörð? Að vissu leyti má segja að þau hafi staðið vörð um hið félagslega réttlæti. Gjöldin sem foreldrar borga hjá borginni eru með því lægsta borgað er.  Um það munar. Það eru líka í gangi merkileg verkefni sem snúa að samþættingu skólastiga, þjónustustofnana og aðila utan borgarkerfisins eins og Landlæknis í Fellahverfi.  Þar sem einmitt er hugað að því sem ég vil nefna félagslegt réttlæti. Sjálfri finnst mér að hverfi (og þau eru til) þar sem aðstæður eru nokkuð langt frá því sem kalla mætti normið fái veglegri fjárveitingar. Sem dæmi þarf barn sem á báða foreldra af erlendum uppruna og er kannski líka frá mjög ólíku málssvæði meira en klukkutíma á viku í málörvun, aðalmálumhverfi barnsins er í leikskólanum og á því mun framtíðarskólagang þess hérlendis hvíla. Að leggja mikið í á fyrstu árunum er þess vegna spurning um skynsemi og félagslegt réttlæti. Við vitum að ástandið er mismunandi á milli leikskóla og við þurfum að vinna með það.

Borgin hefur líka staðið vörð um þá sem taka samning t.d. Eflingar, það fólk heldur sínu neysluhléi og er væntanlega betur borgað en sambærilegum störfum í öðrum bæjarfélögum. Um það var sátt á sínum tíma. Reyndar var neysluhléið ekki tekið af leikskólakennurum hjá borginni á sama tíma og hjá öðrum sveitarfélögum. Þar sem það var gert strax í upphafi kreppunnar.

Það er að birta til og gleðilegt merki þess er að borgin hefur bætt við sjötta skipulagsdeginum til að gefa leikskólum svigrúm til að skipuleggja sig og væntanlega vinna að betra starfi. Vonandi fylgja verkefnastjórastöður og fleira með í vetur.

Annað sem er til fyrirmyndar hjá borginni er þróunarsjóðurinn sem öll skólastigin geta sótt í. Þegar hann varð til á sínum tíma var hann lyftistöng fyrir leikksólastarf og þar hafa mörg frábær verkefni litið dagsins ljós. Verkefni sem hafa haldið orðstý borgarleikskólanna á lofti.

Sumum finnst ég stundum ósanngjörn við borgina, það má vel vera. En hinsvegar þá vann ég þar lengi var leikskólastjóri á tíunda ár og ég er kjósandi þar. Svo er ég líka í Samfylkingunni og verð að viðurkenna ég er viðkvæmari fyrir gjörðum sem hún kemur að en aðrir.

Tags:

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar