Kristin Dýrfjörð

Leikskólinn og kirkjan

Forsjárhyggja leikskólakennara í trúmálum

Erindi flutt á safnaðarheimili Akureyrarkirkju þann 8. mars 2008

Í upphaf erindis um skóla og trúmál er ekki úr vegi að minna á að í dag er 8. mars alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Þennan dag árið 1910 lagði Clara Zetkin þýsk kvenréttindakona fram tillögu að því að tileinka einn dag á ári konum, það gerði hún í hinu fræga ungdomshusi sem rifið var í Kaupmannahöfn fyrir ekki svo löngu síðan.

En Clara Zetkin gerði fleira hún hafði tæpum tuttugu árum fyrr á stofnfundi Annars alþjóðasambands sósíalista bent á nauðsyn þess að samfélagið tæki ábyrgð á börnunum, það væri leið til að tryggja jafnrétti og mannréttindi kvenna. Á 120 árum hefur margt áunnist en enn erum við að ræða um mannréttindi. Nú meðal annars út frá réttinum til trúar.

 Þrátt fyrir að ástæða þess að ég var boðin hingað til samræðu sé nýtt frumvarp til laga um leikskóla og þeirri breytingu sem er þar er boðuð um að fella út ákvæði um kristilegt siðgæði er ekki ætlun mín að fjalla um frumvarpið sérstaklega.

EN ég vil nota tækifærið og benda á að leikskólinn á sem fyrr að ala börn upp til að vera, umburðarlynd, víðsýn, bera umhyggju fyrir sjálfum sér og öðrum. Leikskólinn á sem fyrr að stuðla að sterkri siðferðisvitund barna. Breytingin felur í sér að þessi siðferðisvitund á ekki að vera lagalega sérstaklega kennd við kristna trú.

Áfram á að byggja leikskólastarf á sterkum lýðræðisgildum, á gildum sem teljast vera ein grunnstoða okkar samfélags. Þegar fjallað er um lýðræði eru ákveðin viðhorf og skilyrði jafnan talin til grunngilda. Sjálf hef ég í mínum skrifum litið til m.a. Mörtu Nussbaum. Marta Nussbaum hefur verið afar virk í umfjöllun um mannréttindi.  Hún leggur áherslu á það sem hún kallar nauðsynlega skilyrði til að þess að byggja upp mestu mögulegu hæfni hverrar manneskju. Skilyrði hennar kristallast í því sem kalla má kjarna mennskunnar. Meðal þeirra eru að hvert og eitt okkar eigi skilyrðislausan rétt til að :

  • Að geta nýtt skynfæri okkar, til að ímynda okkur, hugsa og íhuga. Að við höfum möguleika til að leita að merkingu í lífinu á eigin hátt.
  • Hún leggur áherslu á hvert og eitt okkar hafi möguleika til að geta tengst hlutum og fólki utan við eigið sjálf.
  • Að við höfum leyfi til að elskað þá sem bera umhyggju fyrir okkur og annast okkur. Og almennt að við getum elskað, saknað, syrgt, átt langanir og þrár og sýnt bæði þakklæti og réttláta reiði.
  • Að við þurfum ekki að búa við hræðslu og/eða angist.
  • En líka að hvert og eitt okkar eigi möguleika til að búa yfir hugmynd um hið góða og að vera þátttakendur í gagnrýninni ígrundun um eigið líf.
  • Mannréttindi felast í að geta lifað í sátt og samlyndi við sjálfan sig og aðra. Að sýna öðrum umhyggju, að vera þátttakandi í félagslegum samskiptum, geta sett sig í spor annarra og sýnt þeim samkennd.
  • Að geta auðsýnt bæði réttlæti og vináttu. Að bera virðingu fyrir sjálfum sér og lifa ekki við skömm. Að komið sé fram við þann sem í hlut á af virðingu og jafnrétti.

Fyrir mig sem leikskólakennara segir svona upptalning mun meira, en hugtakið kristilegt siðgæði eitt og sér. Ég efa ekki að allt það sem fram kemur í skilyrðum Mörtu Nussbaum eru þættir sem flestir fella undir hugmyndir um kristilegt siðgæði en tel að þeir sem játa önnur trúarbrögð og þeir sem velja að játa ekki trú geta líka skrifað upp á slíka upptalningu – geta gert hana að sinni lífsjátningu.

 Umfjöllun minni um kjarna mennskunnar var fyrst og fremst ætlað að vekja athygli áheyrenda á  þeim hugmyndum sem ég vil leggja til grundvallar siðferðisuppeldi í leikskólastarfi. Í raun að orða þau siðferðisgildi sem ég tel að verði að vera undirstaða leikskólastarfsins.

En hvernig snýr kristnin að leikskólanum í dag?  Ég nefndi erindi mitt er það forsjárhyggja að hálfu leikskólans að vilja eða vilja ekki „sunnudagaskóla“ innan veggja leikskólans. Til að skoða það nánar vil ég byrja á að fara yfir þau rök sem ég heyri gjarnan í umræðunni. Með sunnudagaskóla á ég við þá starfshætti sem hafa verið að nema land í leikskólum víða, að prestar viðkomandi sókna komi inn í leikskóla reglulega á leikskólatíma og séu með kristilega samverustund með börnunum. Þar sem notað er efni, bæði brúður og söngvar frá kirkjunni. Mér er sagt að þessi „ásókn“ hafi byrjað eftir að Stöð 2 hóf að sjónvarpa barnaefni á laugardags- og sunnudagsmorgnum upp úr 1990. Allt í einu tæmdust sunnudagaskólarnir og sumir prestar hafi farið að huga að því hvar best væri að hitta börnin. En ég veit líka að leikskólakennarar höfðu í einverjum tilvikum frumkvæði að þessu samstarfi.

 Þegar ég ræði við fólk um aðkomu presta að leikskólanum er sagt við mig  og notað sem rök fyrir samstarfi kirkju og leikskóla að íslenska þjóðin sé meira og minna kristin, því til sönnunar eru nefndar til prósentutölur frá Hagstofunni. Það er sagt að við eigum okkar “ríkistrú”, að það sé ekki í reynd aðskilnaður ríkis og kirkju. Að flest börn séu skírð og þar með hafi foreldrar gengist undir forræði kirkjunnar og forsjón við kristilegt uppeldi barna sinna. Aðrir benda á að kirkjan og lýðræðið hérlendis sé órofa heild, að ef við leggjum „niður“ hið kristilega siðgæðishugtak í skóalöggjöfinni sé hættan sú að allt siðferði samtímans fari jafnvel þráðbeina leið til helvítis. Úr verði einhversslags siðferðislegt rof og sinnuleysi. Það er jafnvel hægt að túlka orð Biskups Íslands, um Íslands forna fjanda, þann andalega hafsís sem lónar undan landi, sem hluta þeirrar umræðu.

Ég hef talað við leikskólakennara  sem segja mér að í leikskólanum þeirra séu ÍSLENSK börn sem þekkja ekki bænir og jafnvel ekki Jesús Krist. Þeir segja mér að jafnvel þó viðkomandi séu sjálfir ekki trúaðir, skipti það ekki máli. Þeim finnist að börn eigi ekki að líða fyrir það sem þeir telja vera andlegt andvaraleysi foreldra. Það sé réttur barnsins að fá þessa fræðslu. Og hver er betri til þess en presturinn í hverfinu.

Svipuð sjónarmið komu sterklega fram í leikskóla einum í Reykjavík sem fær prest reglulega í heimsókn,  til að vera með samverustund, eða SUNNUDAGASKÓLA. Það kom skýrt fram að rök fyrir samstarfinu byggist á því að því að VIÐ Íslendingar eru trúuð þjóð, flest séum við í Þjóðkirkjunni. Jafnframt voru dregin fram rök um að börn skaddist ekki af því að heyra frásagnir úr Biblíunni og á það bent, að seinna þegar þau hafi aldur til geti þau valið hvort þau fermast, því sé ekki verið að taka neitt val frá þeim. Það sjónarmið kom líka fram að með því að hafa helgistundir sé verið að kenna börnum á samfélagið, því kirkjan sé sannarlega ákveðin stofnun í samfélaginu.

Með því að fá prest inn í leikskólann sé verið að gera trúarlegu uppeldi barna hátt undir höfuð, fá þá aðila sem hafa sérstaka menntun til starfans til að sinna því.

Ég hef heilmikið velt málunum fyrir mér, bæði þeim rökum sem þeir sem vilja samstarf við kirkjuna sem mest halda uppi, þeim rökum að það sé skylda leikskólans að sjá til þess að börn séu alin upp í einhverri trú, en líka rökum þeirra sem telja að með því að standa að samstarfinu á þann hátt sem gert er, sé verið að brjóta grundvallarmannréttindi á fjölda barna og fjölskyldum þeirra. Að það sé fyrst of fremst skylda og hlutverk foreldra að setja þau trúarlegu viðmið og framfylgja sem foreldrar vilja að börnin alist upp við.

Í ýmsum bæjarfélögum er að skapast hefð fyrir samstarfi kirkju og leikskóla. Samstarfið er með ýmsu móti, sumstaðar byggir það á því sem ég lýsti hér að framan að prestar koma inn í leikskóla og eru með það sem ég vil nefna sunnudagaskóla á leikskólatíma, annarstaðar sækja börn kirkju fyrir stórhátíðir, eða að prestur kemur í leikskólann og er með hugvekju fyrir stórhátíðir þá aðallega fyrir jólin.

En við skulum heldur ekki gleyma að í mörgum leikskólum er ekkert formlegt samstarf við kirkjuna.

Ég hef orðið vör við að margir virðast eiga erfitt með að skilgreina á milli þess hvenær fræðslu og menningarhlutverki leikskólans lýkur og hvenær það sama hlutverk er orðið að því sem kalla mætti trúarlegu uppeldi til kristinnar trúar.

 Eru skilin skýr eða geta þau verið skýr?

 Er það að halda upp á jól, hluti af trúaruppeldi eða er það hluti af menningu, er það bæði? Er það að fara með börn í kirkju til þess að skoða hana og velta fyrir sér hlutverki hennar í samfélaginu, trúarlegt eða menningarlegt?

Er það að syngja sálma eins og suma sálma sem ég sjálf held mikið upp á trúarlegt eða menningarlegt? Sálmatexta eins og þann sem fyrrum prestur hér á Akureyri samdi.

Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól,
hún flytur líf og líknarráð,
hún ljómar heit af Drottins náð.

Viljum við útiloka texta sem þessa, vegna þess að í þeim koma fyrir trúartengd stef eða orð? Erum við þá ekki að svipta börn rétti til menningar?

Það er hægt að velta því fyrir sér hvort ekki megi vera tilvísun í guð, æðri máttarvöld eða  Jesúm Krist í neinu því sem við gerum í leikskólanum? Ég veit um leikskóla sem hafa valið þá leið. Þar eru börn sem vilja syngja slíka texta beðin um að velja aðra og veraldlegri.

 Ég er fylgjandi því að í leikskólanum fögnum við fjölbreytileika. Tókum á móti honum opnum örmum.

En til þess að vera trú eigin sannfæringu verð ég líka að viðurkenna að ég sjálf gæti aldrei fellt mig við að starfa í leikskóla þar sem prestur sæi um sunnudagaskóla innan leikskólans. En samtímis tel ég það vera hlutverk leikskólans að fræða um trú og trúarbrögð. Ef ég ætla að vera sönn sjálfri mér þá skal viðurkennt að ég legg mikið upp úr því hlutverki leikskólans að viðhalda hluta af menningu okkar, hluta sem byggir m.a. á hefðum eins og jólahaldi, þulum og vísnasöng.

Ég hef löngum prédikað um gildi barnamenningar og þátttöku leikskólabarna í ákvörðunum sem snúa að þeim. Ég hef sagst vera á móti því að útiloka hluta af lífi barna í leikskólanum. Venjulega hef ég verið að tala um það sem okkur í leikskólanum finnst erfitt eins og það að ræða stríð, fátækt og mannvonsku við börn, eða um hlut dægurmenningar í lífi barna.

Ég hef verið á móti því að í leikskólanum búum við til lítið samfélag sem er allt öðruvísi og alls enginn spegill af samfélaginu utan skólans. Þetta viðhorf hefur sennilega með afstöðu mína til barna að gera, afstöðu sem byggir á trú mína á getu barna, trú á að börn séu hugsandi verur sem bæði vilji og geti tekið þátt og mótað umhverfi sitt. Þessari afstöðu fylgir að ég vil að við viðurkennum áhrifavalda í lífi barna, hvort sem þeir eru Superman, pet shop  eða Jesú. OG Að við séum tilbúin að ræða þær hugmyndir sem börnin eru að fást við hverja stund. Hugmyndir sem geta tengst því sem ég nefndi hér að framan.

Stundum eru hugmyndir og vangaveltur barnanna okkur fullorðna fólkinu óþægilegar, við fyllumst öryggisleysi og vanmætti. Við viljum ekki að börn hafi hugmyndir um ljótleika lífsins. OG það er einmitt þegar börn vilja ræða slíkt við okkur sem okkur leikskólakennurum hættir til að falla í gryfju forsjárhyggjunnar. Við ákveðum hvað hæfir og hvað ekki. Oft byggt á okkar eigin þæginda eða aðallega óþægindaþröskuldi.

Ég skal fúslega viðurkenna að ég sjálf  myndi aldrei velja að setja texta eins og Djúp og breið á söngskrá leikskóla og hef aldrei gert það. Ekki frekar en að ég setti jafn óhugnanlegan texta og Á Mýrdalssandi á dagskrá. En í leikskóla sem ég starfaði settu börn  báða þessa texta á dagskrá. Þau hafa sungið af jafnmikilli innlifun

 Það er rigning og myrkur og meinlegir skuggar

á mýrdalssandi og hvergi skjól að fá

Það er yfirgefinn bíll útí vegakanti

og ekki hræðu neinstaðar að sjá

Ísköldu hlekki, ísköldu hlekki,

ísköldu hlekki, og þú sleppur ekki

og þau sungu

Djúp og breið, djúp og breið,
það er á sem rennur djúp og breið.:,:
Og hún rennur til þín
og hún rennur til mín
og hún heitir lífsins lind, hallelúja
hún er djúp og breið, djúp og breið,
það er á sem rennur djúp og breið..

Ég eins og ýmsir aðrir hef áhyggjur af auknum fordómum í samfélaginu. Leið til að vinna gegn fordómum byggist á því að kynna okkur það sem hræðir okkur. Við þurfum öll á því að halda í samfélagi sem hefur, svo ég vitni aftur í Mörtu Nussbaum, kjarna mennskunnar að leiðarljósi, VIÐ þurfum öll að gera okkur far um að kynnast og kynna meðal annars trúarlegan fjölbreytileika.

 Í leikskólanum þurfum við að fagna hátíðum og skoða fleiri trúarbrögð en þau evangelísku lútersku. Þannig viðurkennum við og fögnum þeim fjölbreytileika sem 21 öldin einkennist af.

Ég tel að hlutverk kirkjunnar sé fyrst og fremst að styðja við fjölskyldur í trúarlegu uppeldi barna. Það gerir hún best með því að styrkja starfið í kirkjunni. Ég held að kirkjan sé ekki lengur í samkeppni við barnaefni sjónvarpstöðvana, eins og hún var þegar ásókn inn í leikskólanna hófst, ég tel að þvert á móti sé hún í dag valkostur um annarskonar samveru barna og foreldra.

 Nýlega var ég viðstödd barnaskírn í fjölskyldunni minni, presturinn bað öll börnin að koma upp að skírnarfontinum og svo spurði hann þau hvort þau kynnu að spenna greipar, og biðja. Sum kunnu það en ekki öll. Hann sýndi börnunum hvernig átti að gera og bað þau eldri að hjálpa þeim yngri. Mér fannst þetta falleg athöfn, mér fannst þetta vera staður og stund, þetta er skírn sem ég á eftir að muna lengi. En hefði sami prestur komið inn í leikskóla og talað við börn á sama hátt, hefði mér verið misboðið.

Akureyrarkirkja er kennileiti hér á Akureyri, það er varla nokkur sem annaðhvort vill eða reynir að halda öðru fram. Börnin hér i bænum þekkja þetta kennileiti líka, og leikskólarnir hljóta að fjalla um kirkjuna sem slíka eins og aðrar samfélagslegar stofnanir. Spurningin er hins vegar hvernig. Að lokum vil ég minna á tvö verkefni sem hafa verið unnin hér á Akureyri, verkefni sem hafa sannarlega byggst á samstarfi kirkju og leikskóla en á forsendum leikskólanna. Verkefni sem byggðust á að tengja saman skóla og samfélag. Eldra verkefnið er það sem kallast kirkjuverkefni Iðavalla. Fjallaði um heimsókn barna hingað í Akureyrarkirkju og hvernig þau unnu úr heimsókn sinni. Hitt verkefnið tengdist verkefni hér í bænum sem flestir leikskólarnir tóku þátt í og  nefndist Bær í Barnsaugum. Sem hluti af því verkefni kynntu tveir leikskólar sér starf kirkjunnar og unnu út frá því myndverk.

 Bæði þessi verkefni tel ég vera dæmi um jákvætt raunverulegt samstarf.

 Takk fyrir góða áheyrn,

Tags: , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar