Kristin Dýrfjörð

Loris Malaguzzi

Loris Malaguzzi fæddist þann 23. febrúar 1920 í Reggio Emilia og lést þar 30. janúar 1994. Malaguzzi var uppeldislegur leiðtogi og hugmyndafræðingur leikskólastarfins í Reggio Emilia, Samtímis því sem hann hafnaði þeirri hugmynd að hugmyndafræði gæti verið eign og að hún héldist óbreytt. Eðli hennar væri að þroskast og taka breytingum. Eftir honum er höfð þau orð að barn fæðist með hundrað mál en við tökum níutíu og níu frá því.

Malaguzzi  sagði að þegar hann hafi frétt af því að alþýðumæður hygðust byggja skóla úr húsarústum, þá hafi hann átt bágt með að trúa því og taldi þetta sögusögn. Hann fór og kannaði málið og heillaðist af krafti og bjartsýni kvennanna og ákvað að taka þátt í þessu ótrúlega ævintýri og frá þeim degi og ævina á enda eða til ársins 1994, var hann driffjöður leikskólastarfsins í Reggio.

Malaguzzi var gagnrýninn á skólakerfið, taldi að menning og skóli leituðust almennt við að skilja að líkama og huga, þar sem kennt væri að hugsa án líkama og framkvæma án hugsunar. Hann taldi að leikurinn og vinnan, veruleikinn og draumurinn, vísindin og hugmyndarflugið, hið innra og ytra væri gert að andstæðum. – Malaguzzi gagnrýndi vestræna menningu og skóla fyrir að afneita líkama og tilfinningum barnanna og upphefja kerfishugsun. Hér er hluti af ljóði hans um barnið.

Barn hefur hundrað mál

en frá því eru tekin níutíu og níu.

Skóli og menning

skilja höfuðið frá líkamanum.

Við neyðumst til að hugsa án líkama

og starfa án höfuðs.

Leikurinn og vinnan

veruleikinn og ímyndunaraflið

vísindi og hugarheimar

eru gerð að andstæðum.

(þýðandi:Aðalsteinn Davíðsson)

Malaguzzi leitaði víða fanga og byggist leikskólastarfið í Reggio Emilia meðal annars á hugmyndum Dewey, Piaget,  Popper, Peirce  og Vygotsky.  Malaguzzi  leit á menntun sem samfélagslegt ferli, hlutdeild í menningu og vildi sameina vísindi, listir, hugmyndaflug, líkama og sál.  Hann taldi að eðli heilans væri að rannsaka „að láta hugsanir spyrja“, og taldi fráleitt að hægt væri að „taka afrit“ af þekkingu. Öll raunveruleg þekking, ólíkt því sem aðeins er lært til að kunna utanbókar, krefjist aha-upplifunar og hún sé persónuleg.  Að nám án rannsóknar eða þróunar sé nám án áhuga.

Malaguzzi taldi nám eiga að vera ánægjulega reynslu þar sem börn taki virkan þátt í að afla fanga og túlka. Hann bendir einnig á að ekki er sjálfgefið að barn læri það sem því er kennt, heldur sé námið að stórum hluta afleiðing framkvæmda og íhugana. Barn búi yfir þeim hæfileikum að vera sífellt að rannsaka og reyna að skilja umheiminn án þess að greina tilfinningar frá visku, vinnu frá leik, nauðsynlegt frá ónauðsynlegu.

Malaguzzi  benti á hversu stórkostlega börn undrist yfir hlutum, þau séu eins og rannsakandi sem er í 100% starfi í þrotlausri sköpun atburða, hugmynda og kenninga, sem er aðalleið barnanna til náms og í að tileinka sér veröldina og lífið. Barn eigi rétt á og auðgist við að umgangast önnur börn, til að deila hugmyndum, skiptast á skoðunum og takast á við hluti sem þau geta einungis gert með öðrum börnum og fullorðnir geta ekki veitt þeim. Barn sem búi yfir slíku frelsi og skynji frelsið sem afl, þori að hugsa og framkvæma sjálfstætt. Frá fæðingu búi barnið yfir þekkingu og sé fært um að mynda hugsanir og viðbrögð. Barnið bíði ekki eftir leyfi til að hugsa! Börn séu að brjóta hugann um hugmyndir í tengslum við umheiminn og til þess nota þau mál – 100 mál. Hugsanir komi er þú leitar þeirra og þarft á þeim að halda.

Malaguzzi  taldi lítillækkandi að segja börn vera sjálflæg og einblína aðeins á hugsun og sálfræðilega þætti hjá þeim, hann taldi markvissa þjálfun sjónar mikilvæga í uppeldi og menntun, slík þjálfun bjargi ekki aðeins barninu frá því að verða þröngsýnn og sljór neytandi, heldur leiði hún einnig til lifandi og skapandi hugsunar  og auðveldi þeim skilning á umheiminum.

Malaguzzi  lagði áherslu á lýðræði, rétt einstaklingsins að vera einstakur/sérstakur. Samtímis er hver einstaklingur hluti af kerfi, í skólanum, í samfélaginu. Hvert kerfi er síðan tengt öðrum kerfum. Börn eigi rétt á að vera aðalpersónur eða viðfangsefni, um einstaklingsleg, lagaleg og félagsleg réttindi. Þess vegna eigi þau rétt á að vera viðurkennd sem virkir þátttakendur í að skapa eigin sjálfsmynd, sjálfstæði og hæfni. Þetta gerist í samskiptum við önnur börn, fullorðna, hugmyndir og hluti.

Malaguzzi taldi kennsluaðferð fela meðal annars í sér, sameiginlegar uppgötvanir barna og kennara sem setja fram tilgátur og ræða saman um viðfangsefnið.   Skólinn sé kerfi samskipta og víxlverkana á meðal þriggja aðalpersóna, barna, kennara og fjölskyldna, samþættur stærra félagslegs kerfis – samfélagsins. Skólanum beri að standa vörð um heildar velferð þessara þriggja hópa – hann sé samfélag þar sem þeir deila hugmyndum, eiga samræður og samskipti – til dæmis um gildi.

Kennarinn er hluti af hópnum og virkar frekar sem hlustandi en fræðari. Eða eins og Malaguzzi sagði eitt sinn, leikskólakennari þarf stundum að vera stjórnandi, hönnuður, í forsvari, baksviðs og hvíslari. Kennari þarf að vera bæði ljúfur og ákveðinn, sá sem veitir spennu og sá sem er Í leikskólastarfinu í Reggio Emilia er ekki um eiginlegt „prógramm“ að ræða, leikskólastarfið fjallar frekar um viðhorf til barna og lífssýn.  Malaguzzi leit á uppeldisfræði sem lifandi hugmyndafræði, sem fái kraft frá börnunum og sé í tengslum við raunveruleikann. Hann mælti gegn því að litið væri á uppeldisstarf leikskólanna í Reggio Emilia sem mótaða aðferð, það fælist frekar í sífelldum vangaveltum. Uppeldisfræði verði að breytast annars deyi hún – verði marklaus. Hún verði að þróast líkt og börnin og heimurinn. Árið 1993 sagði hann: „Ef til væri siðfræði yfir menntun, þá ætti það að vera að vinna verkefnatengt (project) í stað tilbúinna námskráa.“   (Guðrún Alda Harðardóttir tók saman fyrst  birt á vef  SARE).

Grein Peter Moss tileinkuð Malaguzzi

 

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar