Kristin Dýrfjörð

Skuggabrúður

dreki

Bæði ljósið og myrkrið eru okkur hér á landi hugleikið. Okkur sem búum í landi öfganna, þar sem sólin skín lengi, lengi og þar sem svartamyrkur ræður ríkjum daga langa. Við þurfum að læra að meta kosti beggja. Að umvefja myrkrið og möguleika þess eins og við tökum fagnandi á móti vorinu með sína björtu daga og nætur. Að kunna að leika með ljósið í myrkrinu og skuggana í sólinni.

Að leika með ljósið og skuggann

Ein leið til þess er að nálgast ljós og skugga er að leika með skuggabrúður, að búa til sitt eigið skuggaleikhús. Á bak við skuggaleikhúsið er einföld tækni og það er hægt að útbúa bæði einföld og flókin skuggaleikhús. og það er tilvalið að gera þau með börnum.  Það getur líka verið gott að eiga nokkrar einfaldar brúður sem hægt er að grípa til, í samveru, í ævintýrastund, hvenær sem er. Það þarf nefnilega ekki alltaf tjald, það er líka hægt að varpa brúðunum beint á vegg. Og ég get lofað að í flestum tilfellum heillast börn, bæði að segja sögur með brúðum og að vera sögð saga með brúðum, bæði er gefandi og hvetjandi.

Skuggbrúða Wayang

Skuggbrúða Wayang

En kannski er best að byrja á að segja frá að skuggaleikhús byggja á fornri frásagnarhefð þar sem flatar „brúður“ eru hluti af frásögninni. Þetta eru gjarnan brúður sem eru  gerðar úr pappa og leðri, jafnvel þunnum við. Þeim er haldið er upp í ljós á bak við gegnsætt efni eða pappír.  Uppruni skuggabrúðunnar er óljós en gjarnan tengdur Kína og Indónesíu. Wayang brúður og hefð þeim tengd frá Indónesíu eru á skrá hjá UNESCO um óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Þetta eru þunnar brúður, með fjölda liðamóta gerðar úr leðri sem er allt punktað í gegn með nálum og þannig er munstrið myndað í þær. Talið er að skuggabrúðuleikhús komi til Evrópu á 17 öld líklega í gegn um Ítalíu en áður voru þær þekktar í Óttómannveldinu á 14 öld (Tyrkjaveldi).

Er ávinningur að vinna með leikbrúður?

Það að skapa brúður er talið geta verið valdeflandi fyrir börn, að leika með nýskapaða brúðu og finna hvað hún getur skiptir máli og börn finna fyrir eigin mætti. En brúðan heldur áfram að skipta máli, eftir að hún er búin til. Því það að skapa brúðu snýst því ekki bara um ferlið við  að búa hana til, heldur að nota afurð sköpunarinnar í gefandi og skapandi leik.  Þannig heldur sköpunin áfram á nýjum stað. Það er ekki nóg að geta hreyft brúðuna, þó það sé auðvitað mikilvægt að hreyfa hana og prófa til dæmis með því að bera hana upp í ljósi. Börn verða líka að fá tækifæri til túlka brúðuna í gegn um leik. Og það gera flest börn, þau dragast að brúðunni, þau prófa hana og ósjálfrátt og áður en þau vita eru þau farin að leika. Talsmáti þeirra breytist, þau breytast í brúðuna og þau leika með hana saman og ein.

Brúður  (bæði hand- og skugga) hafa verið notaðar til að ná til barna sem eru til baka og barna sem eru á jaðrinum. Þá getur brúðan verið þeim skjöldur sem þau geta talað í gegn um og þannig átt samskipti við önnur börn og fullorðna (Majaron, 2012).

Hvernig bregðast börn við brúðum?

Einföld skuggabrúða, án liðamóta

Einföld skuggabrúða, án liðamóta, klippti munstrið í hana og setti sellófan, hægt að nota hvaða litaða plast sem er.

Kennarar sem nota brúður í starfi tala um afslappað og inngildandi samtal. Börn séu afslöppuð og auðvelt að ná athygli þeirra og halda henni. Kennarar verða jafnframt oft hissa á hvað börn taka mikið frumkvæði, hvað þau eru dugleg að undirbúa og framkvæma til dæmis leiksýningar sjálf. Þau tala sig saman um hlutverk, söguþráð og svo spinna þau leikinn.

Þegar börn leika með skuggabrúður eru samskipti bæði lárétt (á milli jafningja) en líka lóðrétt (við fullorðna eða þá sem hafa meiri völd). Samskipti í gegn um skuggaleik eru sjálfsprottin og byggja mikið á samtali, börn fari á milli hópa, kynni sína brúðu og leika saman með brúðurnar, gjarnan stutt þykjustuleikatriði eða að leika senur sem þau þekkja. (Korošec, 2012).

 Brúðan sem miðill

Þegar verið er að leika (skugga)brúðuleikhús er brúðan aðalatriðið, leikarinn hverfur í skuggann en brúðan tekur yfir, hún hefur málið, hún er sögumaður.  Sama getur gerst þegar börn eru að búa til sínar eigin brúður, hún getur orðið miðill í samtali barna og barna og kennara og hún getur stutt við sjálfstal barna (e privat speach).

Fyrir nokkrum árum heimsótti ég leikskólakennara sem átti litla tösku með handbrúðum sem hún hafði útbúið og safnað, hún notaði þær þegar kom upp ágreiningur á meðal barna. Börnin komu saman í  litlum hóp þar sem hún ræddi við þau með hjálp brúðanna. Þau áttu auðveldara með að tala við brúðurnar og fjalla saman um ágreiningsefnin og sem og að koma með hugmyndir að lausnum. Hún lék stundum atvikið með brúðunum, eða að þau töluðu við brúðurnar beint um viðkomandi atvik. Henni fannst aðferðin henta vel og notaði mikið. Á þessum tíma  starfaði hún á deild fyrir 3-4 ára börn.

 Eifaldar brúður, dæmi

Hér fyrir neðan má sjá dæmi um einfalda brúðu sem ég bjó til. Ég nota grillpinna til að halda henni  uppi eins og sjá má í fyrstu tveimur myndunum í færslunni. Þegar verið er að gera brúður er hægt að fara ýmsar leiðir. Dæmi að útbúa brúður sem heyra til ákveðinni sögu. Eins og t.d. Geiturnar þrjár, það er líka hægt að búa til eigin persónur og leikur skapaður í kring um þær brúður sem eru til eða þær persónur sem hver brúða getur verið.  (Dæmi stelpan hér fyrir ofan hún getur í raun verið hvaða persóna sem er, getur alveg verið Lína langsokkur, eða tröllabarn eða). Það er auðvitað hægt að draga upp perónur úr bókum, eða vinna út frá verki. Sem dæmi fórum við Thelma í Listasafn Íslands og skoðum verk eftir Mugg, sem við reyndum svo að endurskapa þegar heim var komið.

skuggabrúður og skuggaleikhús 2022 2

 

 

 

 

 

 

Að útbúa skuggaleikhús krefst ekki mikils. Brúðu, tjalds, stöng sem hægt er spenna í dyragætt, klemmur til að halda tjaldinu, spotlljósaampa t.d. frá IKEA. (Smellið á mynd til að stækka hana)

Að útbúa skuggaleikhús krefst ekki mikils.  Brúðu, tjalds, stöng sem hægt er spenna í dyragætt. klemmur til að halda tjaldinu.spotlampa t.d. frá IKEA.

Efnivið af ljósaborði komið fyrir aftan við tjaldið, til að búa til sviðsmynd. segulkubbar væru örugglega fínir. Raunar hvaða efniviður sem er.

Efnivið af ljósaborði komið fyrir aftan tjaldið til að búa til sviðsmynd. segulkubbar væru örugglega fínir.

 

Páfuglinn hennar Thelmu

Að lokum læt ég fylgja með nokkrar myndir af skráningu sem ég gerði fyrir nokkrum árum, þegar Thelma var enn leikskólabarn og við dunduðum okkur við að gera skuggabrúður.

Slide12Slide13Slide14Slide15

Tags: , , , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar