Kristin Dýrfjörð

Svefn – hvíld leikskólabarna

Nývöknuð og forvitin

Nývöknuð og forvitin

Svefn og hvild barna hefur verið umræðuefni í leikskólum landsins svo lengi sem elstu kerlingar  (og karlar) muna. Oft vegna þess að hugmyndir og óskir foreldra fara ekki saman við hugmyndir og skipulag leikskólans. Sennilega er það svo að það verður aldrei fullkominn samhljómur þarna á milli. Fæsta leikskólakennara langar að vera í slag við foreldra en samtímis vita þeir að börnum er nauðsynlegt að slaka á og sérstaklega yngstu börnunum, þeim er nauðsynlegt að fá dúr, meira segja sumum nokkuð langan dúr. Við vitum öll að það er mikilvægt að traust ríki milli foreldra og leikskóla. Það er ein forsenda þess að öllum líði vel. En rannsóknir segja okkur líka að börn verða að fá svefn til að vaxa og þroskast. Því er mikilvægt að leikskólakennarar séu með nýjustu þekkingu um svefn og áhrif svefnleysis á hreinu. Að þeir geti rætt um svefn barna við foreldra af þekkingu, t.d. miðað við aldur barna og þann heildarsvefn sem börn fá.

Það er hrollvekjandi að sjá tölur Landlæknis um hvað mörg ung börn á Íslandi fá svefnlyf (t.d. melantónín) sjá mynd hér að neðan. Áhyggjur foreldra af svefnleysi eru eitthvað sem á að taka alvarlega og leikskólinn og foreldrar verða að koma sér saman um lausnir.

Af síðu Landlæknis.

Af síðu Landlæknis.

Það sem gerist í kroppnum í svefni

Árið 2019 kom út bók í Noregi eftir þau Grete Helle og Tom Rune Fløgstad sem heitir Alt jeg kan!, Hvordan kroppen lærer hjernen å tenke, þar sem farið var yfir áhrif svefns á andlegt og líkamlegt heilbrigði barna. Um það sem gerist í líkama þeirra þegar þau (og auðvitað við) sofa. Þar er vakin athygli á að í líkaminn hægir allur á sér, líkamshiti fellur og hjartað og lungun róast, blóðsykur jafnast. Í djúpa svefninum hreinsar heilinn út ýmis eiturefni sem hamla okkur og styrkir  í leiðinni nauðsynleg tengsl í heilanum.

Fyrir börn eru þetta afeitrunarferli einstaklega mikilvægt, þau vakna fersk tilbúin að takast á við lærdóm og reynslu sem dagurinn færir þeim. Heilinn er „hreinn“ búið að endurhlaða og henda út því sem ekki þarf að vera þar. Barnið verður betur fært að muna, einbeita sér, vinna úr áreitum. Í svefni hefur líkaminn líka framleitt ýmsa hormóna eins vaxtarhormóna sem eru nauðsynlegir til að barnið stækki og eyðilagðar frumur eru endunýjaðar. Mótstöðukerfi barna styrkist líka í svefni, m.a. mótstaða gegn eyðileggjandi streitu. En langavarandi streita framkallar of mikið magn af öðrum hormón (kortisól) sem getur haft eyðileggjandi áhrif á heila barna og komið í veg fyrir að þau geti t.d. lært.

Mikilvægi hvíldar í leikskólum

Allt eru þetta mikilvægar upplýsingar fyrir leikskólakennara (og alla sem umgangast börn). Það er mikilvægt fyrir þá að geta skýrt út fyrir foreldrum hvers vegna það skiptir máli að hafa hvíld í leikskólum, jafnvel á eldri deildum þar sem börn sofa kannski ekki, en fá  flest sinn slökunartíma. Það getur líka verið mikilvægt að ræða hvað það er sem truflar svefn barna, eins og ekki næg líkamleg áreynsla, matarræði, skjátími og svo framvegis.

Flestir leikskólakennarar þekkja að verða við beiðni foreldra um að halda  börnum vakandi eða vekja þau eftir 5 – 10 mínútur. Sjálf man ég eftir að hafa setið með börn í fanginu, kalda blauta þvottapoka á enni þeirra til að reyna að vekja þau eða halda vakandi. Oft eru svefnin streituvaldur í samskiptum foreldra og leikskóla. Þarf ekki annað en að lesa nokkra þræði á fésbók þar sem efnið er til umfjöllunar.

Ein þeirra sem hefur skrifað mikið um svefn barna í leikskólum er Suzanne Axelsson, hún er leikskólakennari en líka gift lækni (John Axelsson) sem hefur svefnrannsóknir sem sérsvið og leiðir rannsóknir á því sviði. Á heimasíðu hennar sem er bæði á ensku og sænsku er hægt að lesa um yfirlit rannsókna. Þar kemur m.a. fram að börn sem ekki fá nægan svefn er hættara við að vera óróleg, geta ekki einbeitt sér, verið uppstökk og jafnvel ýg. Hún bendir líka á að í flestum leikskólum fari barnahópar stækkandi sem þýðir að börn þurfa að hafa samskipti við fleiri og fleiri manneskjur, sem krefst úthalds og einbeitingar. Eitthvað sem þreytt börn og líka starfsfólk á oft erfitt með.

Suzanne fór yfir rannsóknir þar sem mælt var með æskilegum svefntíma barna og komst að flestir benda á eftirfarandi tíma.

Aldur Nætursvefn Dúrar Meðaltals/ heildarsvefn
2 ára 10.5—12.5  klst. 1-3  klst. 11,5 – 15.5 klst.
3 ára 10.5 to 12.5 klst. 1-3  klst. 11  – 14 klst.
4 ára 10.5 to 12.5 klst. 0 – 2.5 klst. 10  –  13 klst.
5 ára 10 til 12 klst. 0 – 2.5 klst. 10 – 12,5 klst.

Athugið að  klukkustundir eru ekki alltaf samanlegt réttar, börn sem sofa lengur á daginn hafa tilhneigingu til að sofa minna á nóttunni og öfugt.

Hún gefur líka þau ráð (sem hún fékk frá eiginmanninum) að  vekja börn sem geta alls ekki haldið sér vakandi (en foreldrar biðja um það) eftir 10.mínútur en best væri að þau fengju að sofa í hálftíma.

Svefnleysi hefur líka áhrif á fullorðna

En svefnleysi hefur ekki bara áhrif á börn heldur líka á fullorðna. Börn eiga ekki bara rétt á að sofa og hvíla sig í leikskólum, þau eiga rétt á að vera með starfsfólki sem hefur fengið sinn svefn. Ef við mætum ósofin og þreytt í vinnu, er stutt í pirring og alla vega samskiptavandamál hjá fullorðnum og kannski stuttur þráður gagnvart börnum líka. Við sem höfum svindlað á svefninum þekkjum það öll.  Hér er stuttur listi yfir möguleg áhrif á okkur öll byggður á nýlegum rannsóknum. Og það sem meira er það eru sífellt að bætast við rannsóknir þar sem verið er að skoða áhrif svefns og vandamála tengdum svefni við alla vega sjúkdóma eins og alzheimer og jafnvel ofþyngd.

  • Skortur á einbeitingu. Getur ekki fókusað á verkefni eða hugmynd.
  • Viðbragstími verður slakari. Meiri hætta á að lenda t.d. í umferðarslysum, gera villur í vinnunni.
  • Erfileikar með minnið. Erfiðara með festa nýja þekkingu í minni og endurkalla þá sem fyrir er. (Allar tegundir svefnsins eru mikilvægar fyrir minnið).
  • Þú ert ekki eins skapandi. Þú átt ekki eins auðvelt með að fá nýjar hugmyndir eða finna lausnir. (Sköpunin virðist tengjast draumasvefninum sterklega.)

Nokkrar síður sem einhverjum gætu þótt gagnlegar: þar má finna allt mögulegt efni og sem fólki gæti þótt áhugavert.

Grete Helle og Tom Rune Fløgstad sem heitir Alt jeg kan!, Hvordan kroppen lærer hjernen å tenke. – þau hafa líka gefið út bók um einelti í leikskólum sem fjallað er um á sömu síðu. Það má líka finna myndband um efnið.     HÉR

American Psychological Association –  HÉR

National sleep foundations – HÉR

Karolinska Institute. John Axelsson’s research group – HÉR

Grein um svefn og áhrif svefnleysis eftir Michael J Breus Ph.D. HÉR

Umfjöllun Suzanne Axelsson um svefn og leikskólabörn – HÉR

Um tengsl  minnis barna og þess að fá hádegislúr – HÉR

 

Á íslensku

Svefnleiðbeiningar Landlæknis fyrir allan aldur- HÉR

Landlæknir  – Líkamsræk fullorðinna bætir svefn þeirra Hér

Landlæknir, leiðbeiningar um svefn ungra barna – HÉR

 

KD des 2019

Tags: , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar