Kristin Dýrfjörð

Þátttaka 5 ára barna í undirbúningi og framkvæmd foreldrasamtala í Aðalþingi

kúlubraut

Frá elstu deild á Aðalþingi,

Nýlega kom út bókarkafli eftir mig og Guðrúnu Öldu Harðardóttur um foreldasamtöl í leikskóla (2022). Þar skoðum við annars vegar hvernig þróun foreldrasamtala og samvinnu við foreldra birtist í íslenskum stefnuskjölum, svo sem námskrám og hins vegar gerum við grein fyrir þróunarverkefni sem átti sér stað í leikskólanum Aðalþingi veturinn 2018 -2019. Því miður voru börnin farin úr leikskólanum þegar greinin var skrifuð og því byggir hún á viðtali við leikskólakennara og gögn sem urðu til í verkefninu.

Í kaflanum lýsum við hvernig fyrirkomulag foreldrasamtala var þróað í samvinnu við fimm ára börn. Þar sem þau komu bæði að undirbúningi og þátttöku í þeim. Við skoðuðum hvernig leikskólakennararnir upplifðu tengsl undirbúnings fyrir samtölin við valdeflingu barna og lýðræði.

Hér á eftir er þýðing úr hluta kaflans en áhugasömum bent á að þeir geta nálgast heildartextann í bókinni sjálfri og eru upplýsingar um hana neðst í færslunni.

Inngangur

Á undanförnum áratugum hefur mikilvægi samvinnu fjölskyldna og leikskóla verið viðurkennd víða, meðal annars í stefnuskrám eins og landslögum, reglugerðum og námskrám hér á landi (OECD, 2019) og á alþjóðavettvangi (Geinger, Vandenbroeck & Roets 2014). Samkvæmt Janssen & Vandenbroeck (2018) er lítið um gagnrýna greining á þátttöku foreldra í samstarfinu. Bent er á að þjóðarsjónarmið blandast oft inn í námskrá og kennsluhefðir einstakra landa og því mikilvægt að skoða þróun í hverju landi fyrir sig. Þátttaka foreldra og leikskóla er ekki mikið rannsökuð á Íslandi, ein fárra greina sem hefur birst fjallar m.a. um valdatengsl í samstarfinu. Niðurstöður hennar benda til þess að leikskólar standi frammi fyrir vanda varðandi vald og hlutverk þegar kemur að samstarfi fjölskyldna og leikskóla (Einarsdóttir og Jónsdóttir, 2017). Í þeirri rannsókn er hlutverki og sjónarhorn barnanna ekki gerð skil, raddir þeirra eru þöglar.

Börn hafa orðið sífellt virkari aðilar í rannsóknasamfélagi leikskóla þar sem hlustað er á raddir og sjónarmiða þeirra leitað (Hreiðarsdóttir & Dýrfjörð, 2019). Á sama tíma er samt enn tilhneiging til að álíta börn viðkvæm og ófær um að taka þátt í innihaldsríkum umræðum og ákvörðunum í leikskólum sínum og lífi. Það viðhorf má til dæmis sjá í umfjöllun um reglusetningu um líkama barna á matmálstímum (Ryberg, 2019) og hvaða verkefni börn geta valið í leikskólum (Hreinsdóttir & Davíðsdóttir, 2012). Þrátt fyrir að talað sé um lýðræði innan leikskóla og jafnvel í námskrá er það kannski ekki alltaf lifandi veruleiki barna.

Þessu tengt er umræða um þátttöku barna í foreldrasamtölum, þar fram koma mjög misvísandi sjónarmið, allt frá því að hún sé óviðunandi (Jensen & Jensen, 2008) til þeirrar trúar að hún sé bæði æskileg og óumdeilanleg (Markström, 2008). Við erum hlynntar síðarnefndu sjónarmiðinu og teljum börn vera bæði hæfa og nauðsynlega þátttakendur í foreldrasamtölum. Við viðurkennum hins vegar að foreldrar gætu stundum þurft fundi með leikskólakennurum án þess að börn séu viðstödd.

(Næst koma fræðilegir kaflar um þróun foreldrasamstarfs í íslenskum stefnuskjölum og umfjöllun um lýðræði og valdeflingu í leikskólum).

Lýsing á þróunarverkefninu

Veturinn 2018–2019 vildu leikskólakennarar á elstu deildinni í Aðalþingi (30 börn 5–6 ára) breyta síðasta foreldrasamtalinu áður en börnin hefðu grunnskólagöngu sína. Leikskólakennararnir vildu gefa börnunum raddir um hvernig þau litu á nám sitt í leikskólanum, hvernig þau hefðu þróast sem persónur og hvaða minningar þau áttu frá tíma sínum þar. Leikskólakennararnir vissu líka að í grunnskóla myndu börnin verða virkir samstarfsaðilar í  foreldrasamtölum og því töldu þeir mikilvægt að börnin væru undirbúin og upplifðu sig örugg í nýjum veruleika. Þeir vildu að börnin fengju bæði völd og vald.

Upphaf verkefnisins

Á pedfundi í febrúar ræddu leikskólakennararnir hvernig þeir gætu breytt og þróað foreldrasamtalsformið sem hefur verið viðhaft hingað til. Þeir skrifuðu niður eftirfarandi spurningar og atriði:  Við viljum:

  • Að börnum sé eigið nám sýnilegt.
  • Spyrja hvert barn: Hvað vilt þú sem barn verða betri í að gera?
  • Hvers vegna viltu það?
  • Hvað hefur gengið vel hjá þér í leikskólanum?
  • Hvað hefur þú lært sem barn í þessum skóla?
  • Hvað hefur verið erfitt fyrir þig?

Á fundinum ákváðu leikskólakennararnir að ræða þessar spurningar við börnin. Til að undirbúa samtalið við börnin fundu þeir myndir af hverju barni þegar þau byrjuðu í leikskólanum. Til að hefja samræður vörpuðu þeir myndunum af börnum frá þeirra fyrsta vetri ásamt uppeldisfræðilegum skráningum frá yfirstandandi vetri upp á vegg. Leikskólakennararnir spáðu því að þessi nálgun myndi gera börnunum kleift að endurskoða verkefnin sem þau höfðu unnið að og skráningar myndu hjálpa og styðja við umræður þeirra. Leikskólakennararnir töldu nauðsynlegt að birta skráningar á vegg/tjaldi og gefa öllum börnunum sama sjónræna aðgang að gögnunum og gera þannig lýðræðislegt ferli kleift. Annað markmið leikskólakennaranna  með því að setja myndirnar upp og ræða var að styðja við þekkingu barnanna um eigin þekkingu (e. metacognition) og auðvelda þeim þannig að hugsa um eigin hugsanir og hugsunarferli.

(Næst koma kaflar þar sem nánar er gert grein fyrir hvernig verkefnið var framkvæmt og hvernig það gekk fyrir sig).

Umræða

Þegar litið er til sögu stefnuskjala er ljóst að þróun foreldrasamtala á Íslandi hefur breyst. Í upphafi var aðallega hugað að því að veita foreldrum upplýsingar um leikskóla og líf barna þar og biðja um sérstakar upplýsingar um heimilislíf þeirra. Með tímanum breyttist þessi nálgun í að búa til frásagnir um börn fyrir foreldra, þar sem uppeldisfræðilegar skráningar, möppur og námssögur eru nýttar. Þótt þær aðferðir séu óneitanlega mjög gagnlegar má benda á að yfirleitt eru þessi verkfæri á forsendum leikskólakennara og raddir barna og eignarhaldi er ekki til að dreifa. Aðferðirnar byggja á valdi leikskólakennara, þær byggja á faglegri sýn leikskólakennara á starfinu og börnum, þær birta það sem þeir vilja segja foreldrum um lífið og námið í leikskólum. Þar sem leikskólakennarar hafa nánast almáttug vald til að skilgreina og stjórna samræðunni. Sú þróun að börnin taka þátt í að segja foreldrum í samtölum eigin sögur verður til að valdið færist til í foreldrasamtölunum. Í stað þess að vera meira og minna upplýsingagátt frá leikskólum til foreldra, geta samtölin breyst í þá átt að frásögnum sé gefin meiri gaumur, þar samræðan getur færst í átt að þrívíddarsamræðum – þar sem börnin með þátttöku sinni tengja saman foreldra og leikskólakennara. Í verkefninu sem fjallað var um hér að framan var þessari nýju nálgun á foreldrasamtölum fyrst beitt með fimm ára börnum. Leikskólakennarar í Aðalþingi hafa síðan velt því fyrir sér á hvaða aldri börnin ættu að vera með. Þegar þetta var skrifað hafði niðurstaða ekki fengist.

Sameiginlegt vald

Í upphafi tókum við fram að þátttaka barna í lífi og skipulagi leikskóla felist oft frekar í orðum en athöfnum. Hins vegar er vilji innan fjölda leikskóla til að finna leiðir til að breyta þeim veruleika og sumir gætu jafnvel notfært sér ábendingar frá dönsku matsstofnuninni og beðið foreldra um að spyrja börnin sín (sjá EVA, Danmarks Evalueringsinstitut, KL, & BUBL, 2017). Í þessu verkefni var leitast við að draga fram leiðir til að skapa tækifæri fyrir börn til að eiga innihaldsrík samtöl við leikskólakennara og foreldra um nám sitt bæði daglega og sem hluta af kerfisbundnu námsmati. Samtöl í anda Habermas (2007) og Harðardóttur (2014), þar sem lýðræði og valdefling eru leiðarljós. Verkefnið sýnir að þegar börnum er boðið sameiginlegt vald yfir aðstæðum og vald til að gera, grípa þau það. Að það er hægt að skapa þær aðstæður að börn upplifi að viðhorf þeirra séu virt og þau eigi rétt á að taka þátt í ákvörðunum og umræðum um sig sjálf eins og lögð er áhersla á í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Mikilvægur greinarmunur er á því að börn lýsi skoðunum sínum og upplifun og leikskólakennarar setja sig í spor barna með t.d. skráningum. Þegar leikskólakennarar skrásetja ættu spurningar að vakna um sjónarmið og hver hefur vald til að segja söguna. Við vitum að sögumenn hafa vald yfir frásögninni og geta leikstýrt og mótað söguna eftir eigin áhuga og viðhorfum. Það sem er þýðingarmikið fyrir barnið er ekki alltaf það sama og það sem er þýðingarmikið fyrir leikskólakennarann. Fyrir mörgum árum kom leikskólakennari inn í stofu í Aðalþingi þar sem börn voru að stafla glösum hvert ofan á annað. Leikskólaennarinn hélt að börnin væru að telja og byggja turn; hún tók mynd og hugsaði ekki mikið um hana. Nokkrum vikum síðar var hún að fara í gegnum myndirnar sínar með barnahópi og rakst á þá mynd, börnin urðu mjög spennt og vildu skoða nærmynd og báðu hana um að stækka hana. Þegar leikskólakennarinn spurði þá hvers vegna og hvað væri að gerast á myndinni sögðu þeir henni að þau hefðu fangað flugu og verið að gera tilraunir með hversu mörg glös þeir þyrftu til að halda flugunni í fangelsi – sama sagan með tveimur mögulegum frásögnum og áminningu um hvernig mikilvægt er að hlusta á börn.

Að nota mismunandi tegundir gagna

Við mælum eindregið með því að nota mismunandi gerðir gagna í samræðum foreldra og leikskólakennara óháð aðkomu barna. Skráningar opna dýrmætan glugga inn í leikskóla og hjálpar foreldrum að skilja hvað gerist hjá einstökum börnum, á milli barna og almennt í hópnum. Ef vel er að verki staðið sýna skráningar foreldrum þau námstækifæri sem eiga sér stað á hverjum degi. Hins vegar viljum við líka benda á að eins og í okkar tilviki getur það skipt sköpum að gefa börnum eignarhald og stjórnun, yfir því sem gerist á foreldrasamtölum. Það fær leikskólakennara og vonandi foreldra til að sjá styrkleika barna og eins og í þessu tilfelli gefur það leikskólakennurum ný tæki til að uppgötva og skipuleggja námstækifæri. Það hjálpar til við að byggja upp námstækifæri og umhverfi með börnum.

Stuðla að lýðræði og breytingum

Í Aðalnámskrá leikskóla er skýrt tekið undir mikilvægi leikskóla sem tækis og vettvangs til að efla lýðræði í lífi barna. Vinnubrögð sem notuð eru í hverjum leikskóla eiga að stuðla að lýðræðislegum gildum sem leiða börn til skilnings á borgaralegri vitund (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011). Af þessu verkefni má draga þann lærdóm að þátttaka barna í foreldrasamtölum getur verið ein leið til að stuðla að breytingum, einkum ef upplýsingarnar sem safnað er á barnafundum eins og lýst var hér að ofan eru notaðar til að skipuleggja námskrá fyrir bæði deildir og einstaka barn. Samkvæmt TALIS Starting Strong skýrslu 2019 er þörf á að efla foreldrasamstarf í íslenskum leikskólum (OECD, 2019) og gæti sú aðferð sem notuð er í Aðalþingi stuðlað að þessari nauðsynlegu breytingu. Við undirbúning foreldrasamtala verkefnisins notuðu leikskólakennararnir í Aðalþingi dæmi erlendis frá, bæði frá grunn- og leikskólum, að lokum er það von höfunda að verkefnið muni hafa einhverja þýðingu, jafnvel innblástur fyrir leikskólakennara í öðrum heimshlutum sem og á Íslandi.

 

Hér má finna heildarkaflann:

Dýrfjörð, K & Harðardóttir, G.A. (2022). Children’s participation in parent meetings in light of the history of preschool policy documents in Iceland. In Garvis, S., Phillipson, S.t, Harju-Luukkainen, H. and Sadownik A.R. (Eds). Parental Engagement and Early Childhood Education Around the World. Routledge.

Leikskólinn Aðalþing

https://www.adalthing.is/

 

Tags: , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar