Kristin Dýrfjörð

Þátttökuaðlögun

Þátttökuaðlögunin byggist á þeirri hugmynd að börnin og foreldrarnir séu að læra að vera í leikskólanum, nái að kynnast honum saman, en ekki á að börnin séu að venjast því að vera aðskilin foreldrum sínum. Jafnframt að tími gefist fyrir leikskólakennara að kynnast barninu sem hluta af fjölskyldu og sem hluta af stærri barnahóp.

Framkvæmdin er á þá vegu að foreldrar eru með börnum sínum allan daginn í leikskólanum í þrjá daga og taka fullan þátt í starfseminni á meðan. Markmiðið er að skapa trúnað og traust á milli foreldra og starfsfólks sem sé grundvöllur fyrir áframhaldandi foreldrasamstarfi. Ef vel tekst til við upphaf leikskólagöngu og foreldrar og leikskólakennarar ná að kynnast er talið líklegt að þegar á reynir sé fólk saman í lið með hagsmuni barna að leiðarljósi.

Hugmyndafræðilega byggist þáttökuaðlögun frekar á heimspekilegri og félagsfræðilegri nálgun við leikskólastarf en sálfræðilegri. Má að hluta segja að hún sé afkvæmi þeirra nýju hugmynda sem hafa verið að ryðja sér til rúms innan leikskólafræðanna.

Hún byggist á því á að undirstöðuatriði um hvernig aðlögun gengur fyrir sig stjórnist af viðhorfum og ákveðinni leikskólasýn. Sem dæmi byggist þátttökuaðlögun m.a. á þeirri trú að öruggir foreldrar smiti eigin forvitni og öryggiskennd yfir til barna sinna. Með því að foreldrar séu virkir þátttakendur í starfi leikskólans frá fyrsta degi öðlist þeir öryggi um dagsskipulagið og það sem á sér stað í leikskólanum, þeir sjái starfsfólk í verki.

Foreldrar upplifi ekki að þurfa að geta sér til um væntingar og verkefni sem þeir eigi að takast á við. Á það er bent að og jafnframt talinn kostur við nýja formið að foreldrar eru líklegri til að tengjast innbyrðis. Vegna þess að þeir eru gjarnan margir saman í aðlöguninni nái þeir að kynnast hver öðrum og flestum börnunum, sem getur leitt til þess að á milli þeirra skapist kunningsskapur.

Tags: , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar