Kristin Dýrfjörð

Jólatré, jólaföndur og skaplón – eða?

Jolaköttur aðalþingþegar ég var ungur leikskólakennari lögðum við mikið upp úr sköpun þar sem ég vann. Við lögðum metnað í að setja verk barnanna fallega upp, gættum vel að hvernig við merktum verk þeirra þannig að við værum ekki að fara inn á verk þeirra og sköpun. Töldum ekki að okkar skrift sem dæmi ætti að vera hluti af verkum og sköpun barnanna. En tvennt var það sem við vorum lengur að útrýma í starfsháttum en annað.  Verkefni tengd jólum og jólagjöfum var annað og páskum hitt.

Allt eins – það er svo fallegt

Eitt það fyrsta sem við hentum út þegar við tökum við leikskólanum 1988 voru öll „helvítis“ skapalónin. Þau voru til um allt, ofan í hverri skúffu í leikskólanum, kórónur í mismunandi stærðum og gerðum, jólatré, jólabjöllur, jólaskór, jólakettir og alla vega páskaungar. Eitt árið horfðum við á stóra hvíta vegginn á deildinni, á öll fallegu jólatrén klippt út úr grænum kartonum og málað á með sápuflögum. Raðað snyrtilega með fagurfræði að leiðarljósi á vegginn. Það rann upp fyrir okkur ljós. Þetta var ekki við, þessi tré voru ekki það sem við vildum standa fyrir.

Næsta ár fórum við í gönguferð niður í Laugardal og pældum aðeins í jólatrjám, skoðuðum hvernig þau eru. Sum eru lítil, sum stór, sum feit, sum mjó, alveg eins og við mannfólkið eru jólatré einstaklingar sem bera hvert sitt svipmót.  Þetta árið teiknuðu börnin hvert sitt jólatré og klipptu út og skreyttu. Á sínum forsendum. Ég held að veggurinn hafi aldrei verið fallegri en þá.

Gullbaugur

Sama gerðist um páska í stað þess að klippa út unga, gerðum við þá úr brauði sem börnin tóku með sér heim. Hvert og eitt mótaði úr sínu deigi brauð sem átti að standa fyrir unga (og svo settu þau egg inn í brauðið).

Mér fannst gaman þegar ég heyrði af leikskóla sem hætti að baka piparkökur með formum, þau fóru Þá leið að hvert barn teiknaði það sem það vildi skera út og mála. Síðan bakaði hvert barn, kannski bara eina stóra köku í stað þess að framleiða með skapalónum ofan í heilu dunkana.

joladagatla aðalþing

Jólagjafir

Mér finnst líka alveg frábært að lesa um leikskóla sem fara margar og ólíkar leiðir til að búa til og ákveða jólagjafirnar.  Hér áður ákváðum við þetta iðulega á starfsmannafundum. Aðkoma barnanna var sjaldan mikið mál, þau framkvæmdu það sem við ákváðum, hvort sem það var að mála á glerkrukkur, sauma út eða búa til myndverk. Við ákváðum, börnin útfærðu. Sem betur fer eru slík vinnubrögð á undanhaldi. Börnin eru í dag í flestum leikskólum sem ég þekki til mun meira með í að ákveða hvað þau vilja gera og búa til, handa foreldrum sínum. Þau eru raunverulegir áhrifavaldar í eigin lífi. Sjá til dæmis þessa bók frá leikskólanum Sæborg þar sem fjallað er um jólagjafirnar 2016. Algjörlega dásamleg.

Jólapakki

Lærdómurinn er að það er hægt að gera hlutina á margan hátt og stundum þarf mörg ár til að sjá betri og betri leiðir. Auðvitað er ég ekki að halda fram að stundum geti skapalónin ekki verið hið besta mál, t.d. nota ég þau alveg svikalaust þegar ég baka piparkökur með barnabörnunum mínum. En reyndar teiknum við piparkökuhúsin, af því að okkur finnst það svo skemmtilegt.

Nú í desember bað ég meðlimi á leikur og leikskólastarf að senda mér myndir af verkum barna tengdum jólum. Það sem mér finnst svo frábært við það er að ég hef fengið svo mismunandi útfærslur á því sama. Allavega; jólaketti, jólatré og snjókalla. Hvert verk er með sínu lagi og þau bera vitni um sköpun og hugmyndarflug. Það er dásamlegt.

Sum þessara verka sem ég fékk myndir sendar af prýða einmitt þessa færslu með leyfi frá viðkomandi leikskólum.

Mynd jól

Myndirnar í færslunni fékk ég að láni frá leikskólunum Aðalþingi, Geislabaugi og leikskóla  Seltjarnaness.

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar