Kristin Dýrfjörð

Ekki góð staða hérlendis samkvæmt OECD skýrslu um stöðu leikskólans

Í júní  2017 gaf OECD út nýja skýrslu um stöðu leikskólamála víða um heim m.a. á Íslandi. Ég var reyndar nokkuð hissa að finna hana ekki og umfjöllun um hana á síðu menntamálaráðuneytisins. En í henni er margt afar forvitnilegt og líka óþægilegt. Ég setti sumt úr skýrslunni inn á fésbók hjá mér en ákvað að taka upplýsingar saman í einn póst. Í skýrslunni er heilmikið fjallað um vinnumarkað og atvinnuþátttöku foreldra, sem og vistun fyrir börn yngri en þriggja ára. En Ísland er eitt þeirra landa sem hefur náð markmiðum sem OECD setti í Barselóna 2002 um vistun barna undir 3ja ára. Skýrslan tengir líka saman Pisa og leikskólavistun. En þessa þætti læt ég öðrum eftir að skoða og skrifa um.

Ég bið áhugasama að virða tímaskort mér til vorkunnar við vinnslu þessa pósts, ég hef ekki tíma til að þýða allt sem þarna kemur fram og ég tel koma okkur við. Því flýtur enskur texti með í færslunni (t.d. við myndir).

Það sem almennt vekur áhyggjur hjá mér er staða leikskólakennara. Það er sama hvar er litið, fjölda daga sem þeir eru við störf, fjölda stunda sem þeir vinna með börnum og eða laun og launaþróun. Allar þessar tölur eru þess eðlis að þær ættu að fá okkur til að staldra við og hugsa. Sama á við um þau atriði sem bent er á til úrlausnar. Flest atriði sem leikskólakennarar m.a. ég hef bent á í langan tíma að þurfi að skoða og bregðast við.

Á  mynd 1  má sjá viðveru barna í leikskólum á Íslandi miðað við önnur OECD lönd. Við erum methafar. Bæði hvað varðar fjölda daga og klukkutíma sem leikskólakennarar eru með börn.
No automatic alt text available.
Mynd 1

Um fjölda daga og kenndra klukkustunda segir:

Fjöldi kennsludaga er frá 162 dögum í Frakklandi til þess að vera fleiri en 220 dagar á Íslandi og í Noregi. Árlegur tími með börnum fer frá því að vera undir 700 tímum í Grikklandi, Kóreu og Mexíkó til þess að vera meira en 1450 tímar á Íslandi og í Noregi.

Að meðaltali  er ætlast til að kennarar á þessu skólastigi séu með börnum 1050 tíma árlega, dreift yfir 40 vikur og 190 kennsludaga. yfirfært á tíma á dag. þá er ætlast til að kennarar séu með börnum milli fjögurra  til sex tíma daglega í 17 af 25 löndum sem sendu inn gögn. (Þýðing og leturbreyting mín)

 Á mynd 2 er viðvera barna undir 3ja ára aldri í leikskólum skoðuð, við erum á toppnum með bæði hversu lengi börnin eru vikulega  (ca38 stundir) og hversu mörg börn eru innan kerfisins hjá okkur (ca 60%). Eina landið sem slær okkur við varðandi fjölda barna er Danmörk en þar er vikuleg viðvera barna ekki eins margir klukkutímar og hérlendis. E.t.v. vegna þess að þar er vinnuvikan almennt styttri (37 tíma vinnuvika).

No automatic alt text available.
Mynd 2

OECD bendir á ýmsar leiðir sem hægt er að fara til að bæta ástand leikskólamála: Sem aðgerðir til að bregast við slæmu ástandi í leikskólum bendir OECD á að:

Góðar vinnuaðstæður geta aukið gæði leikskólastarfs. Rannsóknir benda til að starfsánægja og það að halda fólki í vinnu – og þar með gæði leikskólaumhverfis og það sé sé hægt að bæta með;

  1.  lágu hlutfalli barna per starfsmann;
  2.  samkeppnishæfum launum;
  3. hentugu vinnufyrirkomulagi(vöktum) og hæfilegu álagi;
  4. starfsmannaskipti séu fátíð (lítil starfsmannavelta);
  5.  góðu vinnuumhverfi;
  6.  leikskólastjóra sem er hæfur og styðjandi við starfsfólk.

Í skýrslunni er líka fjallað um laun og launaþróun.  Ísland er kannski sérstaklega áhugavert fyrir hversu flöt launin eru, möguleikar á að hækka i launum á 15 árum eru ekki miklir. Bent á mikilvægi þess að huga vel að kennurum á ýmsa vegu, launalega, faglegt sjálfræði, minna álag og fleira þar segir:

Til að laða sem besta fólk að kennarastarfinu, verða löndin ekki bara að bjóða næg laun, sem eru merki þess að kennarar séu virtir af samfélaginu, heldur verður lika að bjóða upp á umhverfi þar sem kennarar hafa faglegt sjálfstæði og hafa beint hlutverk við þróun skólastarfs. Í því tilliti er fjöldi vinnustunda með börn og hlutfall barna á starfsmann lykilþættir þegar meta á gæði leikskólaumhverfis á stofnanagrunni.

Mikið vinnuálag eru tengt streitu hjá starfsfólki. Með vinnuálagi er átt við fjölda vinnustunda, hversu vel vinnuskema fellur eða getur fallið að fjölskyldulífi og líkamlegt álag sem fylgir starfinu. Stórir barnahópar, lágt hlutfall barna á starfsmann og mikið álag eru líklegt til að valda starfsfólki streitu. Sumar rannsóknir sýna að álag hefur áhrif á gæði leikskóla, vísbendingar eru um að þeir sem eru undir miklu álagi sinni starfi sínu ver en þeir sem búa við minni álag (De Schipper et al., 2007). (OECD, 2017 bls 108)

það er reyndar áhugavert að sjá að breytileiki milli hópa eftir starfsaldri og menntun er minnstur á öllum Norðurlöndum. Hinsvegar eru laun leikskólakennara í t.d. Finnlandi og Íslandi nokkuð sambærileg. Bæði löndin lenda neðanlega. Það ber líka að geta þess að lauin eru umreiknuð í sérstaka samanburðar mynt PPP þar sem m.a. er tekin tilliti til lífskjara í hverju landi. Það er hvað fæst fyrir launin (kaupmáttur launa). Mér er líka ljúft og skylt að benda á að tölurnar eru frá 2014 og síðan hafa laun hækkað umtalsvert. Samanburðurinn yrði okkur hagfelldari í dag.

 

No automatic alt text available.

Mynd 3
Svo horft sé til jákvæðra þátta þá er félagslegur munur lítll hérlendis en í skýrslunni segir:

Merkjanlegur munur á milli félags- og efnahagslegra hópa er að finna í öllum löndum nema á Íslandi; þarlendis er líka sá hópur sem býr við lökust kjör líklegastur til að hafa kynnst og notað tölvur frá leikskólaaldri. (OECD, 2017 bls 134)

Mynd 4

 

Margt fleira er áhugavert að finna í skýrslunni og bendi ég áhugasömum á að lesa hana.

Starting Strong 2017

Key OECD Indicators on Early Childhood Education and Care

slóð: http://www.oecd.org/edu/school/starting-strong-2017-9789264276116-en.htm

 

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar