Kristin Dýrfjörð

Þetta um elstu börnin í leikskólanum

Til að skilja hvernig hugmyndafræði grunnskólans togar leikskólafræðina til sín er gagnlegt að skoða umræðuna um elstu börnin í leikskólanum og hvernig hún hefur þróast. Umræðan um elstu börn leikskólans er ekki ný af nálinni. Hér áður fyrr hófu íslensk börn grunnskólagöngu 7 ára. Þó sóttu mörg börn nokkurra vikna vorskóla og önnur fóru í tímakennslu í lestri. Leikskólaganga var á þessum tíma ekki eins almenn og hún er nú. Í samfélaginu og á meðal skólafólks átti sér stað um miðbik sjöunda áratugarins umræða um að færa grunnskólaaldurinn niður um ár. Með slíkri aðgerð væri fleiri börnum tryggð skólaganga.

Það var inn í þessa umræðu sem Valborg Sigurðardóttir hélt erindi um sex ára börnin á fundi Fóstrufélagsins árið 1968. Hennar skoðun var sú að þau ættu ekki að vera í leikskólum, heldur í sérstökum „aðlögunarbekkjum“ í grunnskólunum. Starfið átti að byggja á hugmyndafræði leikskólans, starfsfólkið ætti að vera leikskólakennarar og menntunin vera staðsett í formlegu umhverfi barnaskólans (Davíð Ólafsson, 2000). Valborg leit á þennan fyrsta bekk sem aðlögun á milli þessara tveggja skólastiga. Hugmyndafræðilega varð þessi barnhverfa nálgun ofan á, þó svo að framkvæmdin hafi orðið önnur.

Samkvæmt því sem kemur fram í skýrslu Forskólanefndarinnar frá 1981 var markmið með sex ára bekkjum í Reykjavík, þegar þeir voru almennt teknir upp um 1970, fyrst og fremst að jafna námsaðstæður barna, þroska almenna hæfileika þeirra og stuðla að almennum þroska. Leiðirnar voru „hefðbundið leikskólastarf og m.a. að temja börnum að hlíta skólareglum, lúta aga viðfangsefnisins og stjórn kennarans“. (Menntamálaráðuneytið, 1981 bls. 26 – 27, leturbreyting mín). Enn fremur kom fram í skýrslunni að viðfangsefnin áttu frekar að höfða til vilja og tilfinningalífs en greindar. Þrátt fyrir góð fyrirheit taldi nefndin að miðlunarstefna í kennslu hafi mjög fljótlega náð fótfestu í sex ára bekkjunum. Hlutverk nefndarinnar var að gefa álit um hvernig til hefði tekist og koma með tillögur um framtíð sex ára bekkjarkennslunnar. Lagði nefndin til að sex ára bekkurinn yrði hluti af skólaskyldu, og jafnframt að hætt yrði að leyfa fóstrum og réttindalausu fólki að kenna börnunum. Það væri hlutverk grunnskólakennara. Hér kemur strax fram sterk skoðun á menntun fóstra; þær gætu ekki talist kennarar.

Ekki alvöru kennsla

Umræðan um elstu börn leikskólans er eins og sjá má bæði gömul og ný. Iðulega heyrast raddir um að leikskólinn sé ekki að uppfylla þarfir elstu barnanna og þess vegna verði að færa menntun þeirra inn í grunnskólann (sjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, 2002). Undirliggjandi er e.t.v. það viðhorf sem kom svo skýrt fram í skýrslu forskólanefndarinnar að í leikskóla fari þrátt fyrir allt ekki fram „alvöru kennsla“ – í leikskóla fari fyrst og fremst fram tamning vilja og tilfinninga – hvað svo sem það felur í sér.

Umræðan um að færa fimm ára börnin í grunnskólann hefur bæði tengst hugmyndum um styttingu náms til stúdentsprófs og því að leikskólabörn séu ekki nægilega tilbúin til að ástunda grunnskólanám þegar þau hefja það sex ára. Tíminn í leikskólanum hafi ekki verið nýttur í þágu framtíðarnáms barnanna. Það þurfi því að aðlaga þau grunnskólanum og gefa þeim tækifæri til „alvöru náms“. Leikskólarnir hafa reynt að mæta þessum röddum á ýmsan hátt. Löng hefð er fyrir „skólahópum“ sem hafa það markmið að undirbúa börn fyrir formlegt nám grunnskólans. Þá er jafnvel leitast við að líkja eftir því sem gert er eða talið gert í yngstu bekkjum grunnskólans (Rannveig Jóhannsdóttir, 2002).

Skortur á tiltrú

Hægt er að líta á tilhneigingar til að færa elstu börn leikskólans inn í grunnskólann sem skort á tiltrú á leikskólanum og því starfi sem þar á sér stað. Ein birtingarmynd hennar er tillaga Leikskólaráðs Reykjavíkur frá í febrúar 2008 um að stofna sérstaka fimm ára bekki í grunnskólum borgarinnar (Leikskólaráð Reykjavíkur, 2008). Til að undirbúa það mál fól Menntaráð Reykjavíkurborgar árið 2006 sérstakri nefnd að vinna fyrir sig skýrslu um sveigjanleg skólaskil. Meðal annars var nefndinni ætlað að fjalla um og skýra möguleika „þroskaðra“ barna til að byrja fyrr í grunnskóla en nú er. Niðurstaða hópsins var að leggja til að skoða sérstaklega að einn eða fleiri leikskólar reki fimm ára deild í húsnæði grunnskóla, og að slík deild verði rekin undir stjórn og á forsendum leikskólans (Menntaráð Reykjavíkur, 2007). Þegar skýrsla sameiningarnefndarinnar er skoðuð má sjá að mikill samhljómur er með hugmyndum þeim sem þarna eru kynntar og þeim sem birtust í aðdraganda þess að sex ára börnin fóru inn í grunnskólann upp úr 1970. Sömu rök enduróma nú. Ef ofangreind leið Reykjavíkurborgar verður valin og henni fylgt annars staðar á landinu má ætla að afleiðingin verði ekki ósvipuð og þegar menntun sex ára barna var færð inn í grunnskólann í upphafi áttunda áratugarins. Uppeldisstarf sem byggist á miðlun og því sem Bennett (2005) nefnir skólamiðlun muni nái yfirhöndinni nú eins og þá. Aðferðir sem Bennett telur andstæðar því sem fram kemur í áliti menntaráðs Sameinuðu þjóðanna um inntak leikskólamenntunar árið 1997.

Reynsla Norðmanna

Fyrir nokkrum árum var menntun sex ára barna í Noregi færð til grunnskólans. Markmiðið var að halda eftir sem áður í starfsaðferðir og hefðir leikskólans, e.t.v að gefa grunnskólanum tækifæri til að nálgast aðferðir leikskólans. Það sem gerðist hins vegar er að smám saman tók menning grunnskólanna yfir og í mörgum skólum er lítið eftir af hugmyndafræði leikskólastarfsins. Vinnulag og verkefni grunnskólans urðu yfirsterkari (Germeten, 2008). Menning og hugmyndafræði grunnskólans er sterk og það er við ramman reip að draga að halda í eigin sérkenni í jafn sterku umhverfi. Miðjan mjakast lítið á meðan jaðarinn máist út.

Heimildir

Bennett, J. (2005). Curriculum issues in national policy-making. European Early Childhood Education Research Journal, 13(2), 5-23.

Davíð Ólafsson. (2000). Saga Félags íslenskra leikskólakennara. Í Ívar Gissurarson og Steingrímur Steinþórsson (ritstjórar), Leikskólakennaratal, fyrra bindi (bls. 11-92). Reykjavík: Mál og mynd.
Félag leikskólakennara. (2007a). Fundargerð 48. fundur skólamálanefndar FL þann 11. maí 2007.
Félag leikskólakennara. (2007b). Hugtakanotkun í leikskólumGreinargerð hugtakanefndar skipaðri fulltrúum úr stjórn og skólamálanefnd Félags leikskólakennara.
Leikskólaráð Reykjavíkur. (2008). Fundargerð 29. fundar. Sótt af http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-725/4398_view-793/
Menntamálaráðuneytið. (1981). Skýrsla forskólanefndar. Reykjavík: Höfundur.
Menntamálaráðuneytið. (1999). Aðalnámskrá leikskóla. Reykjavík.Höfundur
Menntaráð Reykjavíkur. (2007). Sveigjanlegur námstími í grunnskóla – tillögur og greinargerð starfshóps. Sótt af, http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skjol/svid/menntasvid/pdf_skjol/utgafur/leikskolar/ymislegt/ssveigjanl.namst.grunnsk..pdf
Unnur Jónsdóttir. (1990). Amma dreki. Fóstra12(7), 15.
Valborg Sigurðardóttir. (1998). Fósturskóli Íslands. Reykjavík: Gott mál.
___________________________

KD

Greinin er hluti af grein sem birtist 2011 þegar umræða var í Reykjavík að stofna fimm ára bekki í grunnskólum borgarinnar til að mæta þörfum fyrir fleiri leikskólarými.

 

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar