Kristin Dýrfjörð

Tengsl lista og leikskólastarfs

image Ítalski listamaðurinn Bruno Munari (1907 -1998) taldist til annarar kynslóðar framtíðarlistamanna á meðal samtíðarmanna, aðrir sáu í honum sterk tengsl við hugmyndafræði súrrealista. Hann var gjarnan kallaður Enfante terrible sinnar kynslóðar. Sá óþægi sem ekki fellur að rammanum, sá sem með list sinni að skilgreinir sig að hluta utan rammans. Hjá honum voru mörk listgreina að ýmsu leyti ósýnilegri en hjá flestum samtímamönnum. Fjöldi tilrauna hans í listum fanga athygli nútímafólks og sum samsömum við eigin reynslu og sýn á veruleikann. Munari beitti nýrri þekkingu og tækni óspart í verkum sínum. Rannsóknareðli listarinnar var honum hugleikið. Hann leitaðist við að skapa listaverk sem voru í gagnvirku sambandi við umhverfið, verkið hefðu áhrif á umhverfið en umhverfið samtímis áhrif á verkið. Óróar heilluðu Munari eins og Calder en hann hafnaði alfarið að hans óróar væru í ætt við óróa Calders. Undirliggjandi lögmál og efnistök væru gjörólík.

imageRannsóknir Munari snéru m.a. að möguleikum ljósins og að ljósfræði. Samspil ljós, lita og hreyfingar er algengt viðfangsefni í verkum hans. Pensill hans, ljósið, tæknin og samspilið þar á milli. Það er skrýtið að upplifa sum verka hans frá því um í kringum 1950 og sjá þar pælingar ýmissa nútímalistamanna. Verk t.d. Egils Sæbjörnssonar eiga að margt sammerkt með hugmyndaheimi Munari, sjálf minnist ég sýningar hans í Gallerý I8 fyrir nokkrum árum. Á heimasíðu sem tileinkuð er list Munari er Ólafur Elíasson talinn sá nútímalistamaður sem stendur honum næst í pælingum um eðli lita og ljóss. Rannsóknir Munari á pólariseruðiu ljósi minna frekar á tilraunir í eðlisfræðitíma en myndlist. En slíkt verk sýndi hann einmitt á Feneyjartvíæringnum 1966. Glerhjúpur Hörpu minnir á ljósatilraunir Munaris á Feneyjartvíræringnum 1966. Leikur ljóss og lita byggist á sömu lögmálum.

imageMunari voru börn og list fyrir börn hugleikinn. Hann hannaði m.a. bókverk sem höfðuðu sterklega til barna. En líka ýmsa nytjamuni. Þess má geta að hann fékk verðlaun LEGO 1986 fyrir framlag sitt til að styrkja hugmyndina um skapandi þætti bernskunnar. Veturinn 1975-76 sótti ég unglinganámskeið í myndlist í MHÍ, þar kenndi á þeim tíma Jón Reykdal. Meðal verka sem hann bauð okkur að gera var hvert okkar fékk ramma úr slidesmyndavél. Við áttum síðan að safna úr umhverfinu efni/hlutum sem við vildum stækka upp á vegg og mála. Í dag sjáum við slík verk sem byggja á skammtafræði. Ef farið er á Vísindavef HÍ er t.d. reiknað með að ummál strandlengju Íslands sé um 1500 kílómetrar. En samtímis er gerð grein fyrir að það sé aldeilis ónákvæmt og byggi á því að mæla á tiltekinn hátt. Ef t.d. farið væri með málbandið inn í hverja vík um hvern stein og klett má reikna með að talan væri töluvert mikið hærri. Svona eins og þegar jólasería er tekin saman sikk sakk áður en henni er pakkað. Ummál hennar virkar töluvert minna þannig en þegar búið er að taka hana í sundur. Á sömu hugmyndafræði voru verkefni Jóns með okkur krökkunum byggð. Að við skynjuðum stórleika og hins smáa. Sandverk barna á öðru ári í leikskólanum Aðalþingi hér að neðan byggir á sömu hugsun, að hið smáa geti verið ógnarstórt.

Að skapa með ljósi, að breyta rými með ljósi er hluti af því sem stundum er gert í leikskólum. Hér að neðan gefur að líta dæmi annarsvegar um skuggaleikhús og svo leik barns með eigin skuggamynd.

Slide6Börn rannsaka ljós á mismunandi veru, stundum verður til sjálfsprottinn leikur í tengslum við teiknarann snjalla, sólargeislann. Ef börn umgangast ljós og skugga af opnum hug, eru þau líklegri til að taka eftir tækifærum náttúrunnar í daglegum önnum.

Að lokum Munari bar mikla virðingu fyrir börnum sem endurspeglaðist í list hans. Hann trúði því að hver manneskja bæri í sér hæfileika til að útbúa rými og hluti sem kölluðust á við fagurfræðina, ef hún hefði aðgang að tækni og leiðbeiningu. Dæmin hér að ofan eru vonandi vísbending um að það sé réttmæt ályktun. (KD 13. maí 2011)

Greinin hér að ofan birtist fyrst á gamla blogginu mínu www.roggur.blog.is.

Tags: , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar