Kristin Dýrfjörð

Að elska eða afplána lestur barnabóka

Hansel_and_Gretel_Theatrical_Release_Poster

Þulur og ljóð hafa alla tíð fylgt mér í starfi.  Ég er ein þeirra sem er afar ólagviss, en að sama skapi kunni  ég helling að þulum og vísum (gæti vegna æfingarskorts hafa gleymt slatta). Ég hef líka átt gott með að koma ást minni á fyrirbærunum á framfæri við börn sem og að segja sögur bæði frá eigin brjósti og af bókum. Ég held að börn deili ást minni á því sem ég er að fara með vegna þess að þau njóta þess að hlusta á og taka þátt í með þeim sem nýtur að fara með. Ástæða þess að ég ræði þetta hér er að ég hef innbyggða óbeit á ákveðnum barnabókum, kannski jafnvel alveg órökstudda óbeit. En að sama skapi verð ég að viðurkenna að þær bækur eru til og þær skipta máli. Þar á meðal eru vinsælar fjöldaframleiddar bækur sem gefnar eru út í tengslum við barnaefni. Um t.d. Leiftur MacQueen og þess háttar kauða. Ég kemst ekki hjá því að viðurkenna þessa áhrifavalda í lifi barna. Þessvegna er ég í klemmu.

Að lesa bók sem viðkomandi finnst skemmtilegt að lesa, skiptir það máli?

Fyrir nokkru kom ég að ungum starfsmanni í leikskóla velja bók til að lesa í samverustund. Ég spurði hvort hún vildi ekki lesa Einar Áskel. „nei það er svo leiðinlegt að lesa hann“ svaraði hún, hún sagðist vera að leita að ákveðinni Disney bók, sem hún „elskaði að lesa“. Ég ákvað að skipta mér ekki að og ræða málið ekki frekar á þessari stundu. Ég velti t.d. fyrir mér hvaða gildi það hefði fyrir börnin að hlusta á Einar Áskel ef viðkomandi vildi bara komast sem fyrst í gegn um hana. „afplána bókin“. Hvort jafnvel þó mér líkaði ekki prívat við tilteknar Disneybækur, þá skilaði ást viðkomandi á bókinni sér til barnanna. Þau nytu þess að hlusta. Í mörgum leikskólum starfar ungt fólk sem hefur lítinn sem engan bakgrunn til þess að t.d. velja sögur, hvað þá ræða á gagnrýnin hátt innihald bóka sem byggja á staðalmyndum Hollywood. Ein og ein saga af þessum toga er sennilega ekkert stórmál. Það er hinsvegar stórmál ef þær eru aðalréttur leikskólanna. Alveg eins og það er í lagi að fá sér sætindi inn á milli þá eru þau ekki góður grunnur að heilbrigði sem aðalmáltíðin dags daglega.

Að setja sér lestrarstefnu

Ég held að eitt af því sem leikskólar verða að gera er að ræða um hvað og hvernig lesið er með börnum. Verði að setja sé lestrarmarkmið. Í rannsókn sem gerð var í Svíþjóð, kom í ljós að í mörgum leikskólum var það hipsum haps hvað, hvenær og hvernig var lesið með börnum. Oft var það þannig að lesturinn var hluti af biðtímum leikskólans. T.d. áður en farið var að borða og þegar kallið kom, bókinni skellt saman og hún jafnvel ekki kláruð eða rædd. Í námi leikskólakennara er lögð töluverð áhersla á fjalla um  barnabækur (alla veg í þeim skóla sem ég þekki best til Háskólanum á Akureyri). Fjallað um nauðsyn þess að velja bækur, lesa, gera þær sýnilegar og svo framvegis.

Amma og afi og allir hinir skipta máli

Mikilvægi barnabóka er ekki bara í leikskólum, það skiptir miklu máli að lesa fyrir börn heima. Að foreldrar, systkini, afar og ömmur lesi með börnum. Alla vega texta og sögur og ræði innihald þeirra. Ræði hvað orðinn merki sem koma þar fyrir, hvort sem það er í ljóði eftir Jónas Hallgrímsson, Disneybók, Sögum um Bé tvo eða í þulum eins og þeim sem eru hér að neðan og á meðal þeirra sem ég elska að fara með.

Kom ég þar að kveldi

Sem kerling sat að eldi.

Ég heilsaði henni.

Hún tók upp sinn pinginn

Og hugði mig stinga;

Þá tók ég lurkinn minn langa

Og lagði hann undir kerlingar vanga.

Hún vildi ekkert gott orð heyra

Með sínu bifsaða, bannsetta, kolsvarta, krókótta,

 kindótta, kringlótta kerlingareyra.

Kerling tók sitt öskutrog

Og setti út á haf;

Ég tók mér þá lítinn bát

Og sigldi hana í kaf

(Gömul þula)

Kom ég þar að kveldi
er kerling sat að eldi.
Hýsti hún fyrir mig hestinn minn
og hét að lána mér bátinn sinn,
því langt er til landanna,
liggur á milli strandanna.
Ægir karl með yggldar brár
og úfið skegg í vöngum,
og dætur hans með hrímhvítt hár
hoppa fram af töngum.
Kitla ég þær með einni ár,
þær ybba sig og gretta,
fetta og bretta,
froðunni á mig skvetta.

(Theodóra Thoroddsen)

Stutt myndband þar sem farið er með 

Kom ég þar að kveldi

Tags: , , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar