Dundað í vísindasmiðju
Kristín Dýrfjörð
Ég skipulagði vísindasmiðju fyrir yngstu börnin á svæði Háskólans á Akureyri á Vísindavöku Rannís haustið 2023. Börn og fullorðnir léku saman á kaótísku svæði og leikurinn var fallegur, marglaga og í flæði, sum börn komu aftur og aftur. Á svæðið kom nokkur hundruð manns, og ég átti erfitt með að vera alltaf búin að raða og flokka efniviðinn, þó svo að ég hafi gert mitt besta, hann rann saman á milli svæða, undir húsgögn og um allt gólf. Eins og gerist þar sem tugir barna koma saman í leik. Á sama tíma og mér fannst áhugavert að fylgjasrt með og sjá hvernig börnin nýttu efniviðinn og svæðið saman minnti það mig líka á mikilvægi þess að vera fleiri á svona stóru svæði til að halda utan um verkefnið.
Mikilvægi þess að dunda
Á milli þess sem ég skreið um gólf við tiltekt og að setja upp nýjar kveikjur átti ég samræður við börn, foreldra, ömmur og afa. Meðal annars við foreldri sem var búið að sitja lengi og ég spurði hvort það næði barninu ekki með sér (nokkrir voru nefnilega búnir að segja mér að börnin vildu vera sem lengst og sum sögðu vera komin aftur eftir ferð um höllin). Veistu sagði foreldrið „ég sit hér svo glatt, barnið mitt stoppar venjulega ekki við neitt, það er eins og fiðrildi, ég á annað yngra barn sem dundar en þetta barn, það stoppar aldrei við neitt. Og hér situr það og leikur og leikur. Ég mund sitja hér glatt mikið lengur“. Ég fór að fylgjast með barninu, það var með marga pinna sem það stakk inn í spýtukubba sem ég var búin að bora í, svo fann það snæri sem ég hafði sett á svæðið og það þræddi það fram og aftur um pinnana, þarna voru líka skæri sem það notaði óspart. Það dundaði umkringt fólki sem flögraði í kring um það. Það dundaði þegar einhver steig inn á svæðið, það barasta dundaði sér einbeitt í því sem það var að gera. Og ég eins og foreldrið horfði á með stjörnur í augunum.
Kúlubrautir
Það var líka svo áhugavert að fylgjast með börnum sem léku með kúlubrautir, þau eins og flest önnur börn sem ég þekki og hafa leikið með efniviðinn gerðu sitt besta til að hafa brautirnar sem lengstar og undir lok dagsins voru þau við að „yfirtaka“ Laugardalshöllina. Búin að leiða braut langt út fyrir okkar svæði.
Samstarfskona mín úr sálfræðideild, spurði , „þetta á varla að vera svona, svona kaótísk“, ég svaraði, „jú einmitt, þetta á að vera kaótískt flæði“. Ég er reyndar viss um að margir aðrir hafa upplifað svipað og hún, sem sjá ekki fegurðina og sköpunina í leiknum, samskiptunum og flæðinu sem á sér stað í kaosinni.
Myndirnar eru af vef Háskólans á Akureyri og frá mér.
Myndir
Sorry, the comment form is closed at this time.