Kristin Dýrfjörð

Ljósheimar Aðalþings

Kristín Dýrfjörð skrifar.

Árið 2011-2012 fékk leikskólinn Aðalþing þróunarstyrk til að vinna verkefni um ljós og skugga, verkefnið hlaut nafnið Ljósheimar. Hluta af þeim tíma þróunarverkefnið stóð yfir var ég leikskólastjóri og hluta af tímanum var Hörður Svavarsson núverandi leikskólastjóri við stjórnvölinn og ég verkefnastjóri þróunarverkefnisins. Verkefnið tók til þess að vinna með ljós og skugga á fjölbreyttan hátt tengt daglegu skapandi starfi í leikskólanum. Mest unnum við með eigin hugmyndir, en svartljósaherbergið unnum við með Daníel Björnssyni myndlistarmanni. Eins og svona verkefnum sæmir skrifuðum við skýrslu og sendum til stjórnar þróunarsjóðs, en við bjuggum líka til vef um verkefnið til að deila vinnu okkar með leikskólasamfélaginu. Ég fékk það hlutverk að búa til vefinn og gerði hann í vefkerfi sem við notuðum á þeim tíma fyrir leikskólann. Eftir að leikskólavefurinn var hakkaður flutti leikskólinn sig í nýtt kerfi. En Ljósheimavefurinn hékk inni, enda á þeim tíma hluti af mínu vefsvæði.

Í áranna rás fór svo að vefurinn varð óhrjálegur og tenglar hættu að virka, myndir duttu út og svo framvegis. Hann var og farinn að trufla minn eigin vef með draugaskipunum. Því var annaðhvort að leyfa vefnum að deyja drottni sínum eða reyna að færa hann á nýtt vefsvæði með vefkerfi sem talaði við það sem ég er að nota í dag. Mér fannst svolítil synd að láta hann hverfa og ákvað að gefa honum nýtt líf. Endurhanna hann og breyta en halda inni efninu sem þar var. Þeirri vinnu er að mestu lokið og Ljósheimavefurinn er aftur tengdu síðum Aðalþings. Hins vegar ætla ég að dunda aðeins meira við hann, bæta við texta og myndum. Hann er í mínum huga skemmtilegur vitnisburður um upphaf leikskólastarfsins í Aðalþingi, starfs sem hefur síðan þróast gríðarlega. Hann sýnir líka að leikskólastarf er ekki einn fasti, heldur síbreytilegt og tekur mið af því fólki, bæði fullorðnu og börnum sem er þar á hverjum tíma.

Takk Guðrún Alda að treysta mér fyrir fjöregginu þínu og gefa mér tækifæri að taka frá upphafi þátt í þessu skemmtilega skapandi ævintýri sem Aðalþing var og er. Til hamingju Aðalþing með 15 ára starfsafmælið, nýi vefurinn er afmælisgjöfin mín til ykkar.

Hér er tengill á síðu Ljósheima

Leikið með RGB ljósablöndun

Tags: , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar