Kristin Dýrfjörð

Íslenski leikskólinn í Evrópskum spegli

OLYMPUS DIGITAL CAMERAUpplýsingar sem ég tók saman úr skýrslunni: Key Data on Early Childhood  – Report Education and Care -Education and Training  in Europe,  2014 Edition, Eurydice and Eurostat og varða Ísland. Ég hvet sem flesta til að rýna í skýrsluna, þar er margt merkilegt sem kemur fram.

17,4 % barna á Íslandi undir 6 ára eiga á hættu að búa undir fátækramörkum og/eða verða útskúfað vegna félagslegrar stöðu sinnar. Við eigum Norðurlandamet.

Við gefum ekki upp hvað mörg börn undir 6 ára búa með atvinnulausum foreldrum, eitt fjögurra Evrópuríkja.

Ísland er eitt fárra landa í Evrópu þar sem börnum er ekki tryggð leikskóladvöl með lögum. Flest hinna sem standa svipað að málum eru óralangt frá okkur landfræðilega.

Hið framsækna Ísland er eitt fárra landa í Evrópu sem hefur engar reglur um fjölda barna per starfsmann, hvorki undir eða yfir þriggja ára.

Við erum að sjálfsögðu líka eitt fárra landa sem hefur ekki sett reglur um hópastærðir í leikskólum. Þar erum við í flokki með Svíþjóð, Tyrklandi, Stóra Bretlandi, Tékklandi og Belgíu.

Við erum í hóp fárra landa sem treysta fagfólki fyrir áætlanagerð, en höfum líka miðlæga línu/námskrá.

Við erum eitt fárra landa sem getum ekki svarað hvort að eftirspurn eftir leikskólavist sé mætt. Við söfnum ekki slíkum gögnum.

Dönsk börn undir 3ja ára eru lengstu dagana í leikskólum (meira en 30 tíma á viku) en við deilum silfri með Norðmönnum.

Guð sé lof við erum bara í 6. sæti (af 28) þegar dagleg lengd viðvera barna eldri en 3ja ára er skoðuð. Portúgal, Lettland, Eistland og fleiri slá okkur við.

Sterk tölfræðileg tengsl á milli stöðu foreldra (sérstaklega innflytjenda) og stöðu barna í Pisa samkvæmt þessari rannsókn. Þessi munur er áberandi mikill á Íslandi. Við erum bronshafar.

Miðað við kaupmátt (PPS) fer minnst fé per barn til leikskólabarna á Íslandi miðað við hin skólastiginn.

Leikskólastjórar á Íslandi verða að vera með menntun leikskólakennara, samkvæmt þessari skýrslu á það sama ekki við um hin Norðurlöndin.

Þar kemur fram að foreldrasamstarfi er háttað á misjafnan hátt milli landa (opinber tilmæli) frá því að vera engin yfir í að fjalla um hlutverk leikskólans sem ráðgjafa við foreldra og heimili). Við flokkumst með þeim sem leggja til tvo foreldrafundi á ári.

Í skýrslunni er líka fjallað töluvert um eðli og innihald foreldrasamstarfs. Í mörgum löndum eru opinber tilmæli/lög sem leggja áherslu og skylda leikskóla til að fá fólk úr „hverfinu“ inn í stjórn leikskólanna. Það á við í Frakklandi, Þýskalandi og Spáni. (Mér finnst hinsvegar ekki sanngjarnt annað en að geta þess að í sumum löndum er kannski heilt hverfi með mörgum leikskólum flokkað sem einn leikskóli).

Þar sem foreldrar og hverfisfulltrúar eru í stjórn hafa þeir aðallega skoðun á rútínum (daglegum athöfnum og tímasetningum) en í minna mæli á innihaldi starfsins og starfsaðferðum. Minnst hafa þessir fulltrúar með ráðningarmál að gera.

Á Íslandi hafa foreldrar samkvæmt skýrslunni vald til að hafa áhrif á uppeldislegt innihald, markmið og rútínur.

Sem aðalleið  – einstaklingsmiðið nálgun við börn sem þurfa sérstakan stuðning er að finna í sex löndum Íslandi þar með talið (Italy, Luxembourg, Malta, Austria, the United Kingdom (Scotland) og Iceland)

Algengust leiðir til að styðja við börn úr minnihlutahópum og þeim sem þurfa sértækan stuðning eru að styðja við málþroska barna. Engar upplýsingar eru um þessa þætti frá Íslandi.

kd júlí 2014

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar