Kristin Dýrfjörð

Það er hægt að læra að vera góður sögumaður

Margir sem þekkja mig vita að eitt af því skemmtilegasta sem ég geri í leikskólum er að segja börnum sögur og að mörgum börnum finnst líka gaman þegar ég segi sögur. Nú undafarið hef ég verið að lesa alveg dásamlega bók um sögur eftir sögukonuna og barnabókahöfundinn Margaret Read MacDonald, en hún er einmitt á leiðinni hingað landsins og verður með opna fyrirlestra á vegum RASK (Rannsóknarstofu um skapandi skólastarf)  og leikskólans Urðarhóls þann 11. september í húsnæði Menntavísindasviðs í Reykjavík og þann 15. september á vegum HA og Urðarhóls í Háskólanum á Akureyri.

Sömu daga gefst líka fáeinum ótrúlega heppnum einstaklingum tækifæri til að koma í smiðju til hennar þar sem hún fer yfir eigin tækni og kennir fólki að segja sögur. Það er nefnilega þannig að það er hægt að læra að segja sögur, læra tækni sögufólks. Bæði fyrirlestrarnir sem verða öllum opnir og svo smiðjurnar verða auglýstir FLJÓTLEGA og þá verður opnað fyrir skráningu með frekari upplýsingum um kostnað í smiðjuna. Nú er bara fyrir áhugasama að taka dagana frá.

Ástæða komu Margaret er að í leikskólanum Urðarhóli í Kópavogi hafa þær Birte og Imma (sem standa fyrir vefnum Leikur að bókum en þar koma nokkrar bækur Margaret Read MacDonald við sögu), nýtt tækni og bækur Margaret lengi. Þær hafa verið í sambandi við hana og vegna þeirra tengsla erum við hin svona heppin.

Í bókinni Teaching with Story: Classroom Connections to Storytelling sem ég er að lesa fjallar hún um atriði – sögur og fleira sem nýtast bæði leikskóla- og grunnskólakennurum og auðvitað öllum sem halda utan um barnabókasöfn. Mér finnst bókin í einu orði frábær. Hún fjallar um hvernig hún notar sögur til að byggja upp samfélag í hópnum, læra um hvert annað, tengja læsi í víðum skilningi og hvernig hægt er að stuðla að dyggðum í uppeldi, hvernig hægt er að nota sögur til að ýta undir sköpun, skapandi hugsun og vinna með listir sem og að byggja upp trú barna á eigin getu. Hún gefur frábær ráð til að muna sögur og segja sögur og fleira og fleira.

ég byrjaði að lesa og eins og með góðar sögur þá dróst ég inn í efnið og átti erfitt með að leggja bókina frá mér. Hugsaði hvað eftir annað þetta efni á sannarlega erindi til nær allra kennara sem ég þekki.

Þeir sem vilja kynna sér nýjustu bókina hennar enn frekar (þá sem ég er að lesa), geta skoðað tengilinn á Amazon Teaching with Story: Classroom Connections to Storytelling

IMG_1061

Tags: , , , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar