Kristin Dýrfjörð

Leikskóli í krísu

Frá hruni hefur leikskólinn átt í vanda. Þá var lofað að slá skjaldborg um málefni m.a. barna og skólakerfisins. Í upphafi hélt loforðið, en smám saman tók að höggva í; leikskólar þurftu að spara, ýmis störf voru lögð niður, minna var ráðið í afleysingar og að lokum voru margir leikskólar sameinaðir, þvert á vilja þeirra sem þar voru. Í kjölfarið stækkuðu leikskólar, fjarlægð milli stjórnenda og starfsmanna varð lengri og yfirmönnum fækkaði. Nú virðist samfélagið vera að rétta úr kútnum en leikskólarnir eiga enn í erfiðleikum. Skýrslur og rannsóknir gefa vísbendingar um streitu og mikla starfsmannaveltu.

Haustboðinn er leikskólastjórar kvartandi yfir manneklu. Ár hvert eru vinnuhópar og nefndir settar á stofn og fátt virðist breytast. Vinnuaðstæður í íslenskum leikskólum er viðfangsefni erindisins. Til grundvallar verða íslenskar og alþjóðlegar skýrslur um leikskólamál skoðaðar og gerð verður grein fyrir könnun á meðal starfsfólks leikskóla sem framkvæmd var í september 2016. Þar var fólk beðið að lýsa hvað valdi álagi og erfiðleikum í starfi. Helstu niðurstöður eru að leikskólar á Íslandi eru í nauðvörn, vinnudagur er langur, fjöldi tíma sem hver kennari er í samskiptum við börn er með því mesta í OECD löndum. Leikskólakennarar og aðrir í leikskólanum upplifa erfiðleika sem tengjast hávaða, of mörgum börnum í of litlu rými, skort á tíma og rými til undirbúnings starfinu og almennt virðingarleysi.

Föstudaginn 3. nóvember 2017 ætla ég að gera grein fyrir könnuninni og fleiru tengdu efni á Þjóðarspegli í stofu 106 í Odda kl 11.00

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar