Kristin Dýrfjörð

Matur og námsgögn í leikskólum borgarinnar

Um gjaldfrelsi á tímum niðurskurðar

Einu sinni var ég leikskólastjóri hjá Reykjavíkurborg, eitt af því sem aldrei var sparað á þeim tíma var matur. Ég man varla eftir að hafa heyrt talað um að láta matarpeningana duga í þá daga. Nýlega ræddi ég við leikskólastjóra hjá borginni sem er stærsti rekstraraðili leikskóla í landinu, hún sagði mér að eins og staðan er nú dygðu fjármunir sem ætlaður eru til efniskostnaðar í eldhúsi ekki til að leikskólar stæðu undir manneldismarkmiðum. Að hennar sögn hefði verið í hennar eyru rætt um að 80% manneldismarkmið væru ásættanleg eins og staðan er nú í borginni. Er það í lagi? Er það boðlegt börnum?

Leiðir foreldra til að börnin þeirra séu samkeppnisfær

Nýlega var ég á ráðstefnu um menntamál þar sem aðalfyrirlesarinn ræddu um m.a. tengsl menntunar og fæðu, að næringarrík fæða sé ein undirstaða þess að börn þroskist of dafna á öllum sviðum og um það snúist fleiri og fleiri rannsóknir. Svo ræddi hún um þekkingu velstæðra og menntaðra foreldra á næringu og áhrifum hennar á heilaþroska barna sinna. Þekkingu sem gæti fært börnum þeirra forskot í heimi samkeppninnar. Ef að í hinum opinberu leikskólum 80% manneldismarkmið eru ásættanleg má velta fyrir sér hvað hinir vel menntuðu og kappsömu foreldrar geri – leita þeir út fyrir hið gjaldfrjálsa og gjaldþrota opinbera kerfi og kaupa það sem upp á vantar?

Kennslugagnabrandarinn

Ég hef líka rætt við nokkra leikskólastjóra um þá fjármuni sem þeim er ætlað til að kaupa kennslugögn, öðrum orðum, leikföng, myndlistarvörur, bækur (sem þurfa jú í læsisátak sem mikið er lagt upp úr), tölvur til að nota með börnum og fleira og fleira. Einn stjóranna sagði mér þetta vera brandara, í hundrað barna leikskóla er þetta um 15 þúsund krónur á mánuði fyrir allan leikskólan.  Í sama leikskóla er innri leiga vel á annan tug milljóna á ári.  Eins og flestir sem hér sitja hafa væntanlega orðið varir við er boðaður niðurskurður hjá leikskólum borgarinnar á næsta ári. Sérstaklega er fólki ætlað að spara í sérkennslu, afleysingum og já í mat. Hvernig það á að vera hægt veit ég að margir leikskólastjórar velta fyrir sér. Hér hef ég talað um borgina en ég veit að staðan víða annarstaðar er ekkert mikið betri og kannski verri.

Endalaus tengsl  launa og gjalda

Það hefur alla tíð truflað mig að hvert skipti sem rætt er um launahækkanir á leikskólinn að borga hækkanir á launum starfsfólks með því að hagræða eða með því að hækka gjöld. Það sló mig fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar þegar á fundi leikskólakennara með pólitíkusum einn þeirra sagði án þess að blikna að ávinningur sársaukrafullra sameininga hefði farið í að borga launahækkanir leikskólakennara.

Sveitarfélög keppast við að halda gjöldum niðri og reglulega birtast kannanir sem sína hversu vel þeim tekst það. Þegar umræður um hækkanir ber á góma er það venjulega tengt launum starfsfólks. Þannig er starfsfólkinu í raun stillt upp gegn foreldrum. En bráðum hljótum við að fara að spyrja okkur hvernig þessi leikskóli er/verður sem við erum að berjast fyrir. Hversu langt er hægt að skera niður og fjársvelta leikskóla en samt halda áfram að kalla þá leikskóla. Getur verið að það sem við erum að tala um sé e.t.v. það sem hér áður hét róló eða gæsluvellir, nema e.t.v. með aðeins betri inniaðstöðu.

  • Hvernig verður faglegu starfi hagað til í þessum gjaldfrjálsu og að því virðist fjársveltu leikskólum.
  • Réttur barna til sérkennslu ekki  eða illa virtur
  • Lélegt fæði
  • Kennslubúnaður varla til staðar
  • Undirbúningur starfsfólk og endurmenntun illa sinnt
  • Húsnæði fyrir neðan allar hellur.

Styttri vinnuvika

Ég tel að gjaldfrjáls leikskóli verði að haldast í hendur við minnst tvennt, annars vegar styttri vinnuviku, því ég óska almennt engu barni að vera í leikskóla 45 – 48 tíma viku, hversu frábær sem leikskólinn er og hinsvegar nýrri forgangsröðun fjármuna í þágu barna, þar sem börnin eru. Ekki í meira og vaxandi ytra kerfi og tilfallandi gæluverkefni.

 

Klippt úr stærri færslu á síðunni um gjaldfrjálsan leikskóla. Sem má sjá hér.

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar