Kristin Dýrfjörð

Lausn eða snara – hugleiðingar um gjaldfrjálsa leikskóla

IMG_0356

Gjaldfrjáls leikskóli, snara eða lausn nefndi ég hugleiðingu mína. Það skal tekið fram að ég sagði skipuleggjendum strax að ég hefði ekki tíma til að taka sama miklar tölur og pæla í efninu á þann hátt. Til þess var fyrirvarinn of stuttur og ég með og margt á minni könnu. Hinsvegar hef ég haft ýmsar hugmyndir um gjaldfrelsi og leikskóla og leikskóla almennt sem viðkomandi fannst alveg þess virði að fá umræður um.

Fyrir mér er gjaldfrjáls leikskóli bæði í nútíð og framtíð mannréttindi barna, og raun ótrúlegt að nú 25 árum eftir að Ísland fyrst landa setti það í lög að leikskólinn væri til barnsins vegna og hann sé réttur barnsins, sé hann ekki gjaldfrjáls og sjálfsagður fyrir öll börn frá því að fæðingarorlofi lýkur.

Lagaleg skylda sveitarfélaga

Því þrátt fyrir þetta merkileg lagaákvæði er vert að benda á, að, jú börn eiga rétt til leikskóla en það er enginn gerður skyldur til að reka leikskóla. Þar með talið sveitarfélög.  Í lagaumhverfinu okkar er það sem sagt svo að fyrirkomulag um rekstur leikskóla er sjálfvalið verkefni sveitarfélaga, það getur rekið þá sjálft, útvistað, það getur leigt pláss í öðrum sveitarfélögum. Sveitarfélögum sem velja að reka leikskóla er síðan í sjálfvald sett hvernig þau fjármagna þessar stofnanir sínar. Hvort leikskólarnir eru gjaldfrjálsir og eða hvort foreldrar taka þátt í kostnaði.

Þegar velferðarvaktin skilgreindi grunnþjónustu eftir hrunið 2009 var leikskólinn skilgreindur þar undir, fólk var og er kannski enn sammála um að hann teldist til grunnþjónustu, jafnvel þó ekki sé  lögbundið að tryggja öllum börnum leikskólavist á sama hátt og gert er með grunnskólann.

Leikskólinn á forsendum barna

Eins og ég sagði var árið 1991 sett lög sem áttu að tryggja öllum börnum rétt til að vera í leikskóla, á eigin forsendum en ekki á forsendum foreldra. Þetta merkti og merkir að börn þeirra foreldra sem ekki voru á vinnumarkaði áttu t.d. sama rétt og önnur börn. En vegna þess að leikskólinn kostar foreldra er það svo að börn eru látin gjalda þegar ekki er greitt (þau eru nefnilega þegar allt kemur til alls á forsendum foreldra). Um allt land eru leikskólastjórar settir í þá stöðu að afhenda foreldrum sem skulda leikskólagjöld uppsagnarbréf. Í raun má segja að ákvæðið um rétt barna til leikskóla sé svona svolítið spari ákvæði sem virkar í fyrirlestrum og þegar pólitíkusar þurfa að slá sér upp við kjósendur á góðum stundum.

Þegar yfirvöld í Hafnarfirði fóru af stað með þá hugmynd nú í vetur að skilgreina leikskólann upp á nýtt og gera skilgreinda 6 tíma hjá skilgreindum aldurshópi gjaldfrjálsan fór allt á hliðina á samfélagsmiðlum. Margir töldu þetta aðför að konum og kvenfrelsi, litu á þetta sem leið til að senda konur af vinnumarkaði. Sama fólki finnst samt e.t.v. ekkert að því að grunnskólanum ljúki klukkan 2 á daginn og við taki klúbbastarf og tómstundastarf sem foreldrar borgi að miklu leyti. Það er ekki árás á kvenfrelsi!

Siðareglur leikskólakennara

Ég er gömul fóstra og eitt af því sem við gerðum fljótlega eftir að við endurreistum stéttarfélag okkar var að setja okkur siðareglur. Í þeim siðareglum var það eitt okkar helsta hlutverk að standa vörð um og berjast fyrir hag og réttindum barna. Ákvæðið er reyndar ekki lengur í siðareglunum en mér finnst af því missir. Reyndar hefur mér löngum fundist sem öðrum finnist hagsmunir ungra barna vera einkamál leikskólakennara. Þegar umræðan um 6 tíma gjaldfrjálsa hófst (já hjá hægra liðinu í Hafnarfirði), urðu margir hissa að ég skyldi styðja það. Þeir hinir sömu sjá fyrst og fremst í því snöru fyrir konur.  Ég aftur sé í því ákveðna lausn fyrir börn. Því að þrátt fyrir að mér finnist leikskólar í flestum tilfellum hinar bestu stofnanir og sjálfsagðar í okkar nútímasamfélagi hef ég samt áhyggjur.

Stórir hópar í liltum rýmum

Áhyggjur mínar beinast m.a. að löngum dögum barna, í stórum hópum, í litlum rýmum. Vitið þið að Ísland er eitt fárra ríkja sem hefur slakað svo til reglum að nú eru engar reglur um hámarks barnafjölda í hóp eða lágmarks stærð á rými fyrir börn?, slíkar reglur eru til fyrir búfénað og skrifstofufólk hinsvegar. (Nýlega voru hér norrænir leikskólasérfræðingar, þeim fannst víst ágætlega mannað en voru miður sín yfir því rými sem við ætlum börnum).

Réttur barna til samveru við foreldra

Mér finnst líka réttindi barna snúa að því að þekkja foreldra sína, ekki bara sem örþreytta og útúrtaugaða og líka réttindi foreldra ungra barna að þekkja börnin sín við bestu mögulegu aðstæður. Það segir mér engin að eins og staðan er í dag komi flest börn heim endurnærð eftir 9 til 9 og hálfan tíma í leikskóla, tilbúin í gangvirk og gefandi samskipti. Mér fannst líka pínu falskur tónn hjá mörgum sem settu sig upp á móti hugmyndinni í Hafnarfirði. Eins og staðan er í dag borga foreldrar mismunandi fyrir leikskólavist. Munurinn á t.d. níu og hálfum tíma eftir því sem hvort að foreldrar eru einstæðir eða sambúðarforeldrar er í dag töluverður, hjá borginni borga t.d. foreldrar tæplega  45 þúsund fyrir 9 og hálfan tíma á meðan einstæðri foreldrar borga rúmlega 23  þúsund fyrir sama tíma. Eins og ég skyldi hugmyndina í Hafnarfirði þá áttu öll börn að fá 6 tíma gjaldfrjálsan en síðan átti að búa til gjaldskrá (já sem tekur tillit til félagslegrar stöðu foreldra) þar sem fólk borgaði nokkuð mikið hærra fyrir tíma umfram þessa 6, svona eins og gert er með 9 og 9 og hálfan tíma í dag hjá allflestum sveitarfélögum og eins og gert er með alla vistun eftir að stundaskrá líkur í flestum grunnskólum landins. Í grundvallaratriðum sé ég því ekki hver munurinn er á þessu fyrirætlaða kerfi og því kerfi sem er til staðar í borginni. Nema, væntanlega verður ekki hægt að henda börnum út vegna vangoldinna gjalda foreldra. Öllum börnum er tryggður lágmarksréttur til leikskólavistar. Það má líka leiða að því líkum að börn sem ekki eru nú í leikskólum t.d. vegna kostnaðar væru inni með þessu móti. En eins og ég hef áður sagt ég hef valið að taka hér afstöðu út frá því sem ég hef skilgreint sem hagsmuni barna umfram allt.

Eins og málið horfir við mér er með þessu móti verið að taka skref að því að gera leikskólann gjaldfrjálsan hluta af grunnþjónustu. Og fyrir mér er 9,5 tími, gjaldfrjáls leikskóli ekki hluti af sjálfsögðum mannréttindum allra. Mér finnst alveg eins og í grunnskólanum að við verðum að skilgreina þann tíma sem við teljum nauðsynlegan lágmarkstíma, gjaldfrjálsan tíma. Ég er sátt við 6 – 7 tíma.

Gjaldfrelsi á tímum niðurskurðar

EN. Áður en lengra er haldið langar mig líka til  að ræða um gjaldfrelsi á tímum niðurskurðar. Einu sinni var ég leikskólastjóri hjá Reykjavíkurborg, eitt af því sem aldrei var sparað á þeim tíma var matur. Ég man varla eftir að hafa heyrt talað um að láta matarpeningana duga í þá daga. Nýlega ræddi ég við leikskólastjóra hjá borginni sem er stærsti rekstraraðili leikskóla í landinu, hún sagði mér að eins og staðan er nú dygðu fjármunir sem ætlaður eru til efniskostnaðar í eldhúsi ekki til að leikskólar stæðu undir manneldismarkmiðum. Að hennar sögn hefði verið í hennar eyru rætt um að 80% manneldismarkmið væru ásættanleg eins og staðan er nú í borginni. Er það í lagi? Er það boðlegt börnum?

Leiðir foreldra til að börnin þeirra séu samkeppnisfær

Nýlega var ég á ráðstefnu um menntamál þar sem aðalfyrirlesarinn ræddu um m.a. tengsl menntunar og fæðu, að næringarrík fæða sé ein undirstaða þess að börn þroskist of dafna á öllum sviðum og um það snúist fleiri og fleiri rannsóknir. Svo ræddi hún um þekkingu velstæðra og menntaðra foreldra á næringu og áhrifum hennar á heilaþroska barna sinna. Þekkingu sem gæti fært börnum þeirra forskot í heimi samkeppninnar. Ef að í hinum opinberu leikskólum 80% manneldismarkmið eru ásættanleg má velta fyrir sér hvað hinir vel menntuðu og kappsömu foreldrar geri – leita þeir út fyrir hið gjaldfrjálsa og gjaldþrota opinbera kerfi og kaupa það sem upp á vantar?

Kennslugagnabrandarinn

Ég hef líka rætt við nokkra leikskólastjóra um þá fjármuni sem þeim er ætlað til að kaupa kennslugögn, öðrum orðum, leikföng, myndlistarvörur, bækur (sem þurfa jú í læsisátak sem mikið er lagt upp úr), tölvur til að nota með börnum og fleira og fleira. Einn stjóranna sagði mér þetta vera brandara, í hundrað barna leikskóla er þetta um 15 þúsund krónur á mánuði fyrir allan leikskólan.  Í sama leikskóla er innri leiga vel á annan tug milljóna á ári.  Eins og flestir sem hér sitja hafa væntanlega orðið varir við er boðaður niðurskurður hjá leikskólum borgarinnar á næsta ári. Sérstaklega er fólki ætlað að spara í sérkennslu, afleysingum og já í mat. Hvernig það á að vera hægt veit ég að margir leikskólastjórar velta fyrir sér. Hér hef ég talað um borgina en ég veit að staðan víða annarstaðar er ekkert mikið betri og kannski verri.

Endalaus tengsl  launa og gjalda

Það hefur alla tíð truflað mig að hvert skipti sem rætt er um launahækkanir á leikskólinn að borga hækkanir á launum starfsfólks með því að hagræða eða með því að hækka gjöld. Það sló mig fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar þegar á fundi leikskólakennara með pólitíkusum einn þeirra sagði án þess að blikna að ávinningur sársaukrafullra sameininga hefði farið í að borga launahækkanir leikskólakennara.

Sveitarfélög keppast við að halda gjöldum niðri og reglulega birtast kannanir sem sína hversu vel þeim tekst það. Þegar umræður um hækkanir ber á góma er það venjulega tengt launum starfsfólks. Þannig er starfsfólkinu í raun stillt upp gegn foreldrum. En bráðum hljótum við að fara að spyrja okkur hvernig þessi leikskóli er/verður sem við erum að berjast fyrir. Hversu langt er hægt að skera niður og fjársvelta leikskóla en samt halda áfram að kalla þá leikskóla. Getur verið að það sem við erum að tala um sé e.t.v. það sem hér áður hét róló eða gæsluvellir, nema e.t.v. með aðeins betri inniaðstöðu.

  • Hvernig verður faglegu starfi hagað til í þessum gjaldfrjálsu og að því virðist fjársveltu leikskólum.
  • Réttur barna til sérkennslu ekki  eða illa virtur
  • Lélegt fæði
  • Kennslubúnaður varla til staðar
  • Undirbúningur starfsfólk og endurmenntun illa sinnt
  • Húsnæði fyrir neðan allar hellur.

Styttri vinnuvika

Ég tel að gjaldfrjáls leikskóli verði að haldast í hendur við minnst tvennt, annars vegar styttri vinnuviku, því ég óska almennt engu barni að vera í leikskóla 45 – 48 tíma viku, hversu frábær sem leikskólinn er og hinsvegar nýrri forgangsröðun fjármuna í þágu barna, þar sem börnin eru. Ekki í meira og vaxandi ytra kerfi og tilfallandi gæluverkefni.

Ég er í flækju og ég snýst í hringi. Eins og ég sagði upphafi er ég fylgjandi gjaldfrjálsum leikskóla og ég tel hann mannréttindi barna, en ég tel líka góða leikskóla, þar sem börn fá notið bernsku sinnar á sem bestan hátt mannréttindi barna. Eins og staðan er nú sé ég ekki alveg hvernig þetta fer saman.  Ja nema allir Tortóla milljarðarnir komi heim og þeim verði forgangsraðað í þágu barna og sjúkra.

Takk fyrir.

Erindið var samið og flutt fyrir ráðstefnuna:  Fjárfest í framtíðinni  –  Sveitarstjórnaráðstefna VG haldin í Reykjavík 16. apríl 2016

KD. 16. apríl 2016

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar