Kristin Dýrfjörð

Myndin af Tindastól

grafík Mog H 13 - 14 ára

Árið 2013 varð ég þess heiðurs aðnjótandi að fá Orðsporið á degi leikskólans. En það er viðurkenning sem Félög leikskólakennara, Samband sveitarfélaga og menntamálaráðuneytið veita. Í tilefni þess var ég beðin um að skrifa litla hugleiðingu í Skólavörðuna. Ég ákvað að rifja upp mína eigin skólagöngu og þá sem höfðu áhrif á mig. Áðan rakst ég á þennan texta og ákvað að hann ætti heima hér í mínum eigin minningarsarpi og í tilefni þess að í næstu viku á mánudag er dagur leikskólans. Myndirnar sem fylgja með eru myndir sem ég gerði á grunnskólaárum og svo auðvitað mynd af Tindastól.

Myndin af Tindastól

tindastóll

Hvað er skóli? Stundum hugsa ég til minnar eigin skólagöngu og nota dæmi frá henni í kennslu. Ég segi t.d. frá myndinni af Tindastól sem hékk inn í kennslustofunni í barnaskólanum á Sauðaárkróki. Á henni voru ótal litlir títuprjónar hver merktur barni. Eftir lestrapróf vikunnar var svo heilmikil athöfn að hækka prjónana í hlíðum Tindastóls. Toppurinn var 200 atkvæði á mínútu. Sum komust aldrei upp í miðjar hlíðar á meðan önnur flugu á toppinn. Ég var eitt þeirra barna sem vildi komast á toppinn sem fyrst og var með þeim fyrstu sem þangað fóru. Mér fannst þetta stórkostlega skemmtilegt og hlakkaði til lestrarprófanna. Ég skildi ekki þá að sum börn í bekknum mínum kviðu þessari stund meira en alls. Að það var á þessari stundu sem þau voru opinberuð fyrir framan bekkinn sem skussar, tossar og ég skyldi það ekki að þessi vikulega stund fyrir framan Tindastól markaði viðhorf þeirra til sjálf sín, til skóla og menntunar. Að þarna var markvisst verið að brjóta niður litlar sálir og auka hjá þeim vanmetakennd og draga úr trú þeirra á eigin getu. Mér sem fannst þetta svo skemmtilegt. Kannski skyldi ég þau þegar kom að skriftinni, þá fékk ég nefnilega alltaf bara hálfa litla stjörnu, aldrei stóra margarma, hvað sem ég reyndi en að þeirri niðurlægingu minni voru þó ekki aðrir til vitnis en ég og kennarinn.

Skólinn mótar viðhorf barna ekki bara til umheimsins heldur ekki síst til sjálfra sín. Hann hefur áhrif og þeir sem starfa í skólum bera mikla ábyrgð. Þegar ég var í barnaskólanum á Sauðárkróki er ég viss um að samkvæmt námskrá var verið að kenna lestur – en samkvæmt þessari sem er hulin en þó svo áhrifarík var allt annað upp á tengingunum. Það var verið að kenna okkur um gildi sem snérust að samkeppni um að mikilvægi sýnileg ávinnings um einstaklingshyggju svo má velta fyrir sér hvort einelti hafi átt rætur sínar þarna.

leir MogH 14 ára

Ég hef verið þeirra gæfu aðnjótandi að hafa gengið í marga skóla. Fjóra barnaskóla og tvo framhaldskóla og mér tókst líka að fá að stinga inn nefinu í sumarleikskóla þess tíma. Hvað er það sem stendur upp úr þegar ég lít til baka og minnist skólagöngunnar? Í öllum þessum skólum eru það tímar sem snéru að skapandi greinum sem fallegu herbergin í höll minninganna eru byggð úr. Myndlistarkennsla í Breiðholtsskóla þar sem við unnum út frá minningum, þjóðsögum og ævintýrum í tímum hjá Jens Kristleifssyni.

kelssulitir breiðholtsskóli 11 áraSettum upp leikrit í Digranesskóla um þjóðfundinn, teikningar, smíðar, leir og leiklist í Réttarholtaskóla. Ég byrjaði í MS, hið venjulega menntaskólanám átti ekki við mig svo ég skipti yfir í FB. Það besta við hann var áfangakerfið og það að hafa möguleika til að setja saman sitt eigið nám. Ég valdi mér braut sem bauð upp á mikið val, þar valdi ég flesta myndlistaráfanga en líka heimspeki og stjörnufræði. En það voru fleiri utanaðkomandi aðilar sem komu að uppeldi mínu. Frá því að heimur bókanna opnaðist fyrir mér sótti ég bókasöfn stíft. Fyrst á Króknum, svo var það bókabílinn í Blesugróf og seinna safnið í Bústaðakirkju, þar sem ég las ekki bara heldur tefldi líka og kynntist bestu vinkonu minni. Ég var í ballett hjá Eddu, danskennslu hjá Heiðari, myndlist í Myndlistar- og handíðaskólanum þar sem Jón Reykdal kenndi mér. Hann sendi okkur út með teiknibretti, opnaði augu okkar fyrir grafík og óhefðbundnum efnivið. Ég sótti líka tíma í leiklist og lærði innhverfa íhugun. Allt áður en varð sextán ára.

kolÞegar ég lít til baka þá þakka ég fyrir öll þessi tækifæri sem ég fékk til að prófa mig áfram, finna mína hillu. En það sem stendur upp úr er að ég var sjálf áhrifavaldur. Ég fékk tækifæri til að móta lagið á hillunni minni og ákveða hvar og hvernig ég vildi setja hana upp og hvað væri á henni. Auðvitað lærði ég ósköpin öll í öðrum greinum, sumt fánýtt annað sem ég bý að bæði vont og gott. Ekki allt á dagskrá eða samkvæmt opinberum tilmælum.

Mest af öllu lærði ég um gildi þess að vera tekin alvarlega og að fá að þróa mig og hugðarefni mín. Viðhorf sem ég hef reynt að lifa samkvæmt í mínu starfi með leikskólabörnum og háskólanemum.

 

 

Birtist í Skólavörðunni 1 tbl 2013

 

Tags: ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar