Kristin Dýrfjörð

Sjónvarpsgláp núll til þriggja ára barna

Iðulega birtast áhugaverðar greinar í erlendum miðlum, greinar sem mér finnst alveg eiga erindi við leikskólafólk og foreldra. Stundum tek ég grein til hliðar og ætla að skrifa um hana litla færslu seinna. Þetta seinna á það til að vera nokkuð teygjanlegt hugtak hjá mér. Á meðan hleðst upp áhugavert efni. Nú í upphafi  apríl 2016 birtist t.d. áhugaverð grein um ung börn og sjónvarp og skjái. Greinin birtist á síðu sem er helguð rannsóknum og upplýsingum um ung börn. Þar kemur fram að í Bandaríkjunum eins og á Íslandi eigi flestar fjölskyldur minnst eitt sjónvarpstæki og allmargar fleiri en eitt. Þar kemur líka fram að 75% barna undir 6 ára aldri horfa a.m.k. tvo tíma daglega á sjónvarp og það sem meira er, áhrifanna gæti langt umfram það, m.a. vegna þess að í umhverfi barna er iðulega kveikt á sjónvarpi og því verða þau líka fyrir óbeinum áhrifum. Það er þetta með litlu pottanan og eyrun.

Rannsóknir sem vitnað er til benda til að mikið áhorf á sjónvarp sé ekki gott fyrir börn, það getur haft slæm áhrif á heilsu þeirra, hegðun og árangur í lífi og starfi. En aðrar rannsóknir benda á að það skipti líka máli á hvað börn eru að horfa, hefur það sem horft er á uppeldislegt gildi t.d.? það er sem sagt skárra en hitt.

Í greininni kemur fram að nýlega hafi rannsakendur beint sjónum sínum að ungum börnum, börnum undir þriggja ára og niðurstöður virðast benda til að áhrif á börn á þessum aldri séu önnur en á eldri börn.

Sjónvarpsáhorf mjög ungra barna

Á það er bent að ungbörn (undir þriggja) horfa meira á sjónvarp í dag en nokkrum tíma áður.  Á fyrstu þremur æviárunum er heili barna að þroskast og á þessum tíma þroskast hann hraðar en nokkur annar líkamspartur. Á þessu þroskaskeiði heilans er hann viðkvæmari fyrir og tekur betur við jákvæðum áhrifum en nokkrum tíma í lífi viðkomandi – að sama skapi er hann líka viðkvæmur fyrir neikvæðum áhrifum. Á síðustu 15 árum hefur sjónvarpsefni sem er sérstaklega beint að ungum börnum vaxið mjög og er í raun  stóriðnaður, afleiðingin er að börn eru meira fyrir framan sjónvarpsskjái en áður hefur þekkst. Rannsóknir benda til að allfelst ungabörn horfi á eða séu við opna skjái minnst 1-2 tíma daglega. Í Bandaríkjunum kom fram að þriggja ára börn horfa tvo tíma eða meira daglega á sjónvarp að sögn foreldra og ef bakgrunnstíminn er tekinn með er verið að tala um allt að fjórum tímum daglega.

Áhrif á heilsu og velferð

En hefur allur þessi skjátími áhrif á heilsu og velferð barna? Er spurning sem fólk veltir fyrir sér. Já segja rannsóknir mikil skjátími ungbarna er tengdur neikvæðum áhrifum á líf barna. Á meðal þess sem bent er á er:

  • Ungbörn sem eru mikið fyrir framan sjónvarp er hættara við að vera sein til máls. 2,3
  • Tengsl hafa fundist á milli hegðunarvanda, félagslegra vanda og námserfiðleika og mikils skjátíma1,6,7
  • Einhverjar rannsóknir benda til tengsla á milli ofvirkni og svefnvandmála og skjátíma4,5

Trú foreldra á gæði sjónvarpsefnis

Í rannsókn sem var gerð á meðal meiri en 1000 bandarískra foreldra kom fram að ein meginástæða þess að ungum börnum er leyft að horfa á sjónvarp er að foreldrar trúa að það sé þeim til góðs og gott fyrir þroska þeirra, sem er auðvitað ekkert sérkennilegt þegar vísað er til þess í auglýsingum og markaðsefni sem ýtt er að foreldrum. Á það skal bent að fullyrðingar eins og markaðsfólk halda að foreldrum eru ekki byggðar á rannsóknum. Rannsóknir benda þvert á móti á að sjónvarpið er ekki góður kennari fyrir ung börn en mikið gláp leiðir til „betri“ neytenda sjónvarpsefnis síðar í lífinu. Vegna þessara rannsókna hafa Samtök bandarískra barnalækna gefið út að börn undir tveggja ára eigi ekki að horfa á sjónvarp. Heili þeirra sé ekki undir það búinn.

Hvers vegna er slæmt fyrir ung börn að horfa á sjónvarp?

En hvers vegna er það verra og raunar slæmt fyrir ung börn að horfa á sjónvarp? Svarið liggur í þroska heilans, í því undri sem á sér þar stað á fyrstu þremur æviárum barnsins (fyrstu 1000 dögunum). Þegar barn fæðist eru allar heilafrumur til staðar en þær eiga langt í land með að tengjast. Þetta á sérstaklega við þann hluta heilans sem fer með óhlutlæga (abstrakt) hugsun og minnið. Þrátt fyrir það að horfa á sjónvarp sé að mestu passívt athæfi þá krefst það ákveðinnar leikni að skilja það sem þar fer fram. Fyrir ungabarnið er sjónvarpið röð tvívíðra atvika (mynda) sem breytist á um 6 sekúnda fresti, mynda sem í huga barnsins eru ótengdar og ótengdar þeim hljóðum sem komu úr sömu átt. Myndirnar eru heldur ekki tengdar raunverulegu fólki og eða hlutum. Og til að barn geti lært af sjónvarpi þarf það að geta tengt þessar ímyndir við eitthvað sem er því merkingarbært. Flestir rannsakendur eru sammála um að merkingarbært nám af sjónvarpinu sé ólíklegt fyrr en barn hefur náð þriggja ára aldri þegar barnið getur skilið samhengið milli sjónvarps og veruleikans. Á það er líka bent að börn verð fyrir áhrifum af sjónvarpi án þess að vera sett beint fyrir framan það, þau geta vel verið óbeinir neytendur sjónvarps þegar það er hluti bakgrunns umverfis. Virkni eins og að syngja, leika og rannsaka hjálpa barninu að þroska meðfædda hæfni sína, en ef þau verða fyrir sífelldum truflunum af bakgrunnshljóðum og myndum getur það truflað þetta þroskaferli. Börn eiga erfiðara með að einbeita sér þegar sjónvarpið er í gangi einhverstaðar nærri því. Það getur því jafnvel í fjarlægð skaðað þroska barna.

 

Þeir sem vilja lesa greinina í heild sinni og þeim hlutum sem ég sleppti er bent á:

Infants, Toddlers and Television á síðunni http://www.urbanchildinstitute.org/

 

Heimildir sem vísa er til í textanum hér að ofan

  1. Manganello JA, Taylor CA. Television exposure as a risk factor for aggressive behavior among 3-year-old children. Archives of Pediatrics and Adolescent Medicine. 2009; 163(11):1037-45.
  2. Christakis DA. Audible television and decreased adult words, infant vocalizations, and conversational turns: a population-based study. Archives of Pediatrics and Adolescent Medicine. 2009; 163(6): 554-558.
  3. Zimmerman FJ, Christakis DA. Children’s television viewing and cognitive outcomes: a longitudinal analysis of national data. Archives of Pediatrics and Adolescent Medicine. 2005; 159(7):619-625.
  4. Schmidt ME, Pempek TA, Kirkorian HL, et al. The effects of background television on the toy play behavior of very young children. Child Development. 2008; 79: 1137-1151.
  5. Thompson, DA, Christakis DA. The association between television viewing and irregular sleep schedules among children less than 3 years of age. Pediatrics. 2005; 116(4): 851-856.
  6. Mistry KB, Minkovitz CS, Strobino, DM, et al. Children’s television exposure and behavioral and social outcomes at 5.5 years: Does timing of exposure matter? Pediatrics. 2007; 120: 762-769.
  7. Pagani LS, Fitzpatrick C, Barnett TA, et al. Prospective associations between early childhood television exposure and academic, psychosocial, and physical well-being by middle childhood. Archives of Pediatric and Adolescent Medicine. 2010; 164(5): 425-431.

 

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar