Kristin Dýrfjörð

Sköpun og leikur

Í grein eftir Ólaf Pál Jónsson heimspeking sem birtist í tímaritinu Hugur, tekst hann á við spurningu um hvað leikur og skapandi starf eigi sameiginlegt. Hann hefur grein sína á að vísa í algengar tilvísanir um að annað sé forsenda hins en bendir líka á að fáir reyni að svara hver þessi forsenda sé. Í grein sinni vitnar Ólafur Páll í frásögn Málfríðar Sigurðardóttur þar sem hún lýsir leik bernsku sinnar, þegar tölur lifnuðu við í leik og hvernig þær urðu að mönnum, jafnvel prinsessum, en líka nauðsyn þess að eiga leikfélaga til að deila og skapa reynslu með. Málfríður var barn á tímum þegar leikföng voru einfaldari og íburðarminni en þau sem við þekkjum flest. Áður en börnin fengu forskriftir að því hvernig þau eigi að leika með leikföngin (t.d. í formi bíómynda og bóka þeim tengd). Þegar reyndi á ímyndunarafl barna.

Ólafur Páll vitnar líka í Wittgegnstein um að t.d. stærðfræðileg merki séu aðeins strik á blaði þar til einhver gefur þeim merkingu. Það eiga strikin sameiginlegt töluboxinu, þau þurfa lífgjafa, einhvern sem skapar merkingu.

Ólafur Páll leitar til skrifa Dewey um að leikur barna feli einmitt í sér leit þeirra við að skipuleggja og vinna úr áreitum á þann hátt að af verði menntandi, merkingarbær reynsla. Það að verða fyrir áreitum sé ekki sjálfkrafa menntandi, en áreiti séu þó forsenda þess að geta menntast, geta öðlast merkingarbæra reynslu. Að skynja hið hversdaglega geti verið skapandi og fagurt.

Ólafur Páll gefur dæmi úr hinum ýmsu listgreinum og skoðar hvar leikinn sé að finna, hvar og í hvaða formi samtalið við þann sem upplifir listaverkið á sér stað. Að lokum kemst hann að þeirri niðurstöðu að hvort um sig leikur og skapandi séu forsenda þess að ná nokkrum þroska. Sé forsenda þess að sá heimur sem við búum í sé ekki bara dauðra hluta.

Við lestur greinarinnar verða í hugskoti lesandans sterk tengsl við hugmyndir um leiki, skapandi starf og gildi leikefnis í leikskólum. Sem dæmi þá má segja að í leikskólanum Aðalþingi hefur sú leið verið farin að safna mörgum ólíkum strikum saman, skapa umhverfi þar sem það sé barnanna að gefa strikunum merkingu. Ekki hverju fyrir sig heldur einmitt saman. Ef litið er á þann efnivið – leikföng sem til eru í leikskólanum með þessum augum. Má sjá ótal tækifæri til að breyta tölum og strikum í mann, prinsessur, star war og allt hvað er. Samtímist gefast tækifæri til að ræða um og upplifa fagurfræði þess sem er skapað eða möguleiki er til að skapa. Það má benda á að margir nútíma leikskólafræðingar líta það sem rétt barna að í leikskólanum sé hugað að fagurfræðilegu umhverfi og upplifunum.

Að lokum er vert að vitna til Guðmundar Finnbogasonar sennilega eins stærsta hugsaðar okkar Íslendinga í menntamálum, en hann fjallaði um mikilvægi skynfæranna og að þess að hugsa í heildum.

„En vér megum ekki gleyma því að mannsálinn er engin kommóða með mörgum skúffum og sitt í hverri, skynjanir í einni, ímyndanir í annarri, tilfinningar í þriðju o.s.frv., heldur er hún lifandi heild … viðkvæmur vefur, þar sem allir þræðir titra, sé einn þeirra snortinn.“

(Úr Lýðmenntun, en hér vitnað til Ólafs Páls). Þessi orð Guðmundar hafa staðist tímans tönn og eru okkur leikskólafólki ágætt veganesti. (kd. 17. janúar 2011)

Tags: ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar