Kristin Dýrfjörð

Sumargjöf 100 ára

Í dag 11. apríl 2024 eru slétt hundrað ár síðan konur komu saman í húsakynnum Óskabarns þjóðarinnar, Eimskipafélagshúsinu til að ræða um stofuna samtaka um málefni barna þeim til velfarnaðar. Ég er að tala um Sumargjöf sem var síðan stofnað formlega í sama húsi þann 22. apríl 1924. Það vill svo til að undafarna daga hef fundað með hópi erlendra leikskólakennara í Eimskipafélagshúsið, en þar er nú hótel. Ég sagði  þeim að við værum að funda í merkilegri byggingu sem tengdist sögu leikskólans sterklega. Því einmitt þarna hefði félagið sem rak og átt fyrstu leikskólanna verið stofnað. Hundrað ára afmæli er auðvitað tilefni til lítillar afmælisfærslu.

Saga Sumargjafar er saga leikskólastarfs á Íslandi, í inngangi að riti um 25 ára sögu Sumargjafar sem Ísak Jónsson skrifaði er sagt frá því að félagið hafi í upphafi ekki verið styrkt af opinberu fé, heldur hafi borgarar í Reykjavík lagt sitt að mörkum og stutt við fyrstu 10-12 árin meðal annars í gegn um fjársafnanir á Sumardaginn fyrsta. Ísak segir í innganginum að framtíðin mun þakka fólkinu í Sumargjöf framsýni þess og verk. Í dag þegar fáir Íslendingar geta hugsað sér samfélag án leikskóla, þar sem krafa samfélagsins er um að hvert barn eigi rétt til góðrar og gildandi menntunar í leikskólum má sjá að hann hefur verið sannspár.

Hlutverk sumargjafar er samofið sögu leikskólans, leikskólakennara og menntunar þeirra. Fóstruskóli Sumargjafar var fyrsta menntastofnun okkar leikskólakennara og stéttarfélag leikskólakennara var líka fyrst stofnað til að semja við Sumargjöf. Það má því segja að í dag sé stór dagur fyrir leikskólann og leikskólakennara.

Í stofnaskrá þessa merka félags segir: „Að tilgangur félagsins sé að stuðla að andlegri og líkamlegri heilbrigði og þroska barna í Reykjavík og vernda þau fyrir óhollum áhrifum.“ Jafnframt er ætlunin að hrinda af stað rannsóknum um hag barna, stuðla að því að rita um uppeldismál í blöð og tímarit. En jafnframt var ætlunin að reka ýmsar stofnanir sem tengjast hag barna s.s. vinnustofur, dagheimili heilsugæslu og fleira. Margt af því sem þarna kemur fram á sama erindi til nútímans – og því miður verður að segjast að sumt hefur ekki breyst nóg. Stofnskrá Sumargjafar er enn gild.

Fyrsti sérhannsði leikskólinn – Grænaborg og fyrirmynd hennar

Sumargjöf vann ötullega að markmiðum sínum og fyrsti leikskólinn (dagheimilið) var opnað í gamla kennaraskólanum sem síðar hýsti KÍ en tilheyrir nú ríkinu sumarið 1924. Auk þess var farið að stað með garðyrkjunámskeið fyrir börn (forveri skólagarðanna sem við þekkjum mörg úr eigin æsku), smíðavellir voru opnaðir og barnaleikvellir settir á stofn. Árið 1931 opnaði svo fyrsti sérhannaði leikskóli Íslands, Grænaborg. En það má telja menningarsögulegt slys þegar hún var rifin (1983) til að rýma til fyrir umferðamannvirki. Grænaborg var byggð eftir sérstakri hugmyndafræði sem byggði á starfi McMillan-systra í London. En þær teljast til frumkvöðla leikskólauppeldis, þær systur voru virkar í hreyfingum sósíalista og rann til rifja þær aðstæður sem börnum var boðið upp á. Þær systur voru sannir aðgerðasinnar og settu á stofn leikskóla í London sem byggðu á uppeldishugmyndum þeirra. Grænaborg var flaggskip Sumargjafar og sjálf var ég svo heppin að starfa þar örstutt sumarið 1980. Fyrir það er ég þakklát, að hafa fengið að stiga ögn inn í söguna.

McMillan,  Leikskólahugmyndafræðingar

Það er margt fleira sem ég vildi fjalla um í tengslum við 100 ára afmælið sem verður að fá að bíða betri tíma. En fyrir mína hönd sem leikskólakennari, foreldri, og amma þakka ég Sumargjör fyrir samferðina og óska þeim til hamingju með daginn.

 Gils Guðmundsson. (1949). 25 ára – Barnavinafélagið Sumargjöf. Barnavinafélagið Sumargjöf.

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar