Kristin Dýrfjörð

Þegar sólin er pensill og jörðin strigi

Ég elska sólina, ekki bara vegna þess að hún vermir eða vegna þess að henni fylgir oft heiður himinn og glatt sinni. Heldur einmitt vegna andstæðu hennar, veröld skugganna. Ég get setið daginn út og inn og fylgst með skuggum. Horft á ljósbrotin í stofunni hjá mér, á gangstéttum, á húsunum sem standa næst mér. Í sundi syndi ég á tíma ekki ferðir. Það er vegna skugganna. Það er til að ég geti í næði horft á hvernig ljósið brotnar á handleggjunum, horft á glitrandi möskva, séð bylgjur endurkastast á botni laugarinnar, horft á margfeldisáhrifin. Að hlusta á eigin andadrátt og hverfa inn í heim ljósbrotsins það er hámark sundferðarinnar.

Ég er ekki símakona, á ekki nútíma síma með myndavél innbyggðri. Er reyndar helst aldrei með síma á mér, hvað þá að mitt gamla skrapatól sé með myndavél. En í gær þá upplifði ég eitt þessara andartaka þar sem ég hefði viljað vera með myndavél, jafnvel nútímalegan myndsíma. En einhverveginn svona hefði myndin litið út.

Þegar sólargeisli verður pensill

Lítil drengur flatmagar á leikskólalóð, styður hökuna við bolta, kroppurinn límdur á jörðina. Í hendi viðarteinungur og pappi. Hann klemmir pappírinn um viðarteinunginn, snýr á ýmsa vegu, myndar nýtt og nýtt skuggavarp. Á jörðunni birtast fiðrildi, blóm og eitthvað sem enginn veit. Nokkrar mínútur, einbeittur, slakur, í djúpri upplifun. Sólin er pensilinn, jörðin striginn. Það sem gerist þar á milli, hugmyndarflug og ímyndunarafl. Gátan um HVAÐ EF á stundina.

Tags:

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar